Gyllti hanskinn (Der goldene handsschuh) fjallar um raðmorðingjann Fritz Honka og krána sem hann stundaði, sjálfan Gyllta hanskan. Fyrst eftir áhorf þá var ég hugsi; það er hvergi kafað í sálarlíf Honka, né er myndin sérstaklega að setja hlutina í samfélagslegt eða félagslegt samhengi, eins og raðmorðingjamyndum er gjarnt að gera til þess að réttlæta tilvist sína. Þarna er maður einfaldlega neyddur til þess að horfa upp á óhugnanlegastu afskræmingar mannlífsins án þess að hafa neinar teoríur til að hugga sig við. Sem eru alveg skilaboð út af fyrir sig, ekkertið, tilgangleysi allra morða.
Það er svo ekki fyrr en eftir á sem maður áttar sig betur, þegar mesti hryllingurinn er yfirstaðinn. Því þótt hún forðist allar teoríur þá liggur ýmislegt undir.
Þetta er byggt á sönnum atburðum – og það er eiginlega eina réttlætingin fyrir því að Honka lítur út eins og hann gerir, nánast eins og orðabókaskilgreining yfir klisjukennda ógeðslega raðmorðingjann. Undir gervinu er Jonas Dassler, sem vel að merkja er hreinræktaður hönk svona dags daglega, þegar maður myndagúglar honum hugsar maður ósjálfrátt að það hljóti að vera þýsk Twilight með honum í aðalhlutverki einhvers staðar þarna úti.
En þótt hann Fritz sé enginn fegurðardís þá er hann nú samt alveg í meðallagi myndarlegur á barnum sem hann heimsækir. Við flest sem þykjumst stundum vilja knæpur með karakter og skrautlegt persónugallerí myndum sjálfsagt vera fljót að flýja Gyllta hanskann, þetta er dive bar í tíunda veldi, knæpuútgáfan af Freaks, heimsmeistaramót í ljótleika þar sem kroppinbakurinn Fritz með sitt afmyndaða andlit á varla séns á að komast á verðlaunapall. Fritz tælir svo alls kyns ljótleikadísir heim til sín og myrðir þær ósjaldan, oftast í frústrasjón yfir eigin getuleysi frekar en að yfirlögðu ráði. En þetta væri samt hryllingsmynd án morðanna, svo mikill er ljótleikinn á kránni. Þetta er alvöru ruddabar, ég er nógu gamall til þess að muna fyrst eftir börum um aldanótin, sem vel að merkja voru að meðaltali miklu subbulegri og sjúskaðri en í dag, hvort sem er á meginlandinu eða á Íslandi, þá var nógu stutt síðan að maður fann svona aðeins vott af andrúmi kráa á borð við Gyllta hanskan – sem mér skilst raunar að sé enn til staðar í Hamborg, þótt ég eigi erfitt með að trúa því að hún sé enn jafn sjúskuð. Ég trúi því hreinlega ekki upp á þýska heilbrigðiseftirlitið.

En já, hvenær gerist hún? Jú, þetta er Hamborg á ofanverðum áttunda áratugnum (1970-75), rétt áður en ég fæddist en bernskuminningar leikstjórans Fatih Akin að því leyti að hann ólst upp á þessum slóðum og við fjölmiðlaumfjöllunina um morðin. Þetta er rúmum aldarfjórðungi eftir stríð, þetta eru úrhrök brotinnar þjóðar. Þetta er fólkið sem tapaði heimsstyrjöld, en líka fólkið sem tapaði friðnum. Fólkið sem tapar alltaf, í öllum löndum og öllum stríðum og öllum friðum.
HÖSKULDARVIÐVÖRUN
Myndin gerist yfir fimm ára tímabil, en á þeim tíma myrti hann að minnsta kosti fjórar konur, mögulega fleiri. Það komst upp um hann fyrir tilviljun, þegar það kviknaði í húsinu sem hann bjó í – en það tók ekki svona langan tíma af því hann væri svona útsmoginn glæpasnillingur. Þvert á móti, hann gerði nánast ekkert til að fela slóðina, myrti konur sem fjöldi manns hafði séð hann með og morðin voru iðullega framin í bræði frekar en að yfirlögðu ráði. Flestar klaufalegustu löggur kvikmyndasögunnar hefðu farið létt með að leysa þessi morðmál. Nema hvað, þetta urðu aldrei nein morðmál. Þessara kvenna saknaði ekki nokkur sála.
Þetta er mynd um fólk sem er svo ljótt og vinalaust og umkomulaust að það skiptir ekki máli. Fólkið sem við erum flest þjálfuð og skilyrt til þess að hunsa og forðast. Fólkið sem hverfur á milli þilja (mjög bókstaflega, þar faldi hann líkin) og uppgötvast svo fyrir hreina tilviljun.

Það er þó alveg fegurð í þessum heimi. Knæpan sjálf, jafn sjúskuð og hún er, er ekki alveg laus við sjarma og á fóninum eru iðullega undurfögur gömul evrópsk dægurlög. Þessi tónlist er eins og einhver handanheimur sem þau eiga ekki hlutdeild í og munu aldrei eignast, nánast pyntingatæki fyrir allt þetta fólk sem enginn mun nokkru sinni yrkja ástarljóð um.
Ef nýleg rússnesk mynd Zvyagintsev hefði ekki orðið fyrri til gæti titill myndarinnar rétt eins verið Ástlaus, þetta fólk elskar nefnilega enginn. Stóri munurinn á Honza og hinum er hins vegar að helsta einkenni hinna er að þau hafa gefið upp vonina, sætta sig við auma tilveru og eru svona jafn almennileg hvert við annað og mögulegt er fyrir jafn mölbrotnar sálir. Honza telur sig hins vegar eiga meira skilið, hann er sannfærður um að þessi dægurlög séu um hann líka, hann eigi rétt á sínum eigin ævintýrum – og þess vegna býr hann til sín eigin hrollvekjandi ævintýri.
Honza er sem fyrr segir enginn glæpaheili, en hann virðist þó fatta eitt einfalt prinsipp: aldrei drepa fallegt fólk. Þeirra verður saknað, þeirra lík munu finnast og þeirra morðingjar fangelsaðir fljótt og örugglega. Seint í myndinni fylgjumst við með huggulegu ungu pari sem þvælist inná barinn – og þegar þau verða viðskila þá fer maður að óttast hið versta fyrir hennar hönd. En hún er staðgengill áhorfandans, hún er ung og falleg stúlka með framtíð, stúlka sem einhver mun sakna. Einmitt þess vegna lifir hún þennan ljótleika af.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson