„Viltu fá Rosu Parks og Malcolm X til að leika í auglýsingunni þinni? Viltu gera bíómynd um Hamlet í Casablanca með Laurence Olivier og Ingrid Bergman í aðalhlutverki? Viltu sjá Fred Astaire dansa við ryksuguna sem þú ert að selja? Okkar fólk reddar því!“

Einhvern veginn þannig ímynda ég mér að þetta gangi fyrir sig. Mögulega aðeins smekklegar orðað – en samt er ég ekki svo viss. Ekki miðað við orðalagið á heimasíðunni. Og þetta síðasta gerðist í alvörunni, með hjálp tölvutækni sem Fred Astaire hefði ekki getað látið sig dreyma um.

Umboðsskrifstfoan CMG Worldwide er með marga frægustu leikara heims á sínum snærum, sem og rithöfunda, íþróttamenn, mannréttindafrömuði, geimfara, uppfinningamenn og alls kyns frægðarfólk. Það sem meirihluti þeirra á sameiginlegt er þetta; þau eru flest löngu látin.

Á því eru stöku undantekningar, gamlar fótboltastjörnur eins og Lothar Matthäus og Clarence Seedorf eru enn í fullu fjöri – en ef þig vantar þjónustu látins fólks þá geta CMG Worldwide örugglega reddað þér.

Þau eru öll viðskiptavinir, kúnnar – eða nánar tiltekið: „clients.“

Mannréttindafrömuðurinn Malcolm X. Kúnni síðan 1992. Dó 1965.

Næst eftirsóttasti ræðumaður Bandaríkjanna árið 1963!

Sjöunda besta ameríska ræða allra tíma!

30 þúsund mættu á jarðarförina!

Já, það er í alvörunni svona sem Malcolm X er auglýstur á heimasíðu CMG Worldwide. Rosa Parks er þarna líka, og Maya Angelou. Parks lést 2005 en hefur verið kúnni síðan 2018, Rosu Parks minnisbókin sem ég hrósaði vinkonu minni eitt sinn fyrir tekur á sig allt aðra mynd eftirá. Þeir voru fljótari að taka við sér þegar skáldkonan Maya Angelou lést – eftir dauða hennar 2014 þá var hún orðin kúnni árið 2016. Það hefur sjaldan verið meira að gera hjá henni. Núna eru ljóðin hennar að skreyta skrartgripabox. Eins og þetta ljóð:

„Við njótum fegurðar fiðrildisins, en viðurkennum sjaldnast þær breytingar sem það þarf að ganga í gegnum til þess að öðlast þessa fegurð.“

Og maður hugsar bara: var þetta valið af tilviljun eða eru markaðsfulltrúarnir bara svona sýnískir? Ljóð um einmitt hvernig barnaþrælkun er óvíða algengari en einmitt við að vinna demanta og gull í afrískum námum, til þess að skartið öðlist fegurð sína. Já, eða hvernig lögmenn og umboðsmenn bönkuðu uppá hjá syrgjandi fjölskyldu og spurðu þau hvort þau væru ekki til í að græða smá pening á gömlu konunni? Alveg sama þótt líklega brytu mörg verkefnin í bága við allt sem hún trúði á?

En kannski höfðu ættingjar Angelou samband fyrst. Þetta gerist örugglega með ýmsum hætti. Og rétthafar höfundarréttar eftir andlátið eru alls konar fólk, mjög misjafnlega mikið skylt hinu látnu frægðarfólki og mjög misjafnlega meðvitað um arfleifð þess og hvers konar verkefni hefði verið líklegt að hinn látni hefði sjálfur vilja tengja nafn sitt og ímynd við. Sumir vanda sig örugglega mikið við þetta, varðveita arfleifðina af smekkvísi og í anda hins látna. En aðrir sjá bara dollaramerki í látnum ættingjum.

Ævintýri James Dean í Víetnam

Sem dæmi má nefna leikarann James Dean. Hann lést árið 1955 og hefur verið kúnni hjá umboðsskrifstofunni síðan 1984. Dean dó ógiftur og barnslaus – og talaði víst ekki við föður sinn um það leyti þegar hann dó í bílslysi. Það breytti því ekki að pabbinn erfði hann – og í kjölfarið ótal hálfsystkyni og afkomendur þeirra sem Dean tengdist lítið. En fjölskyldan hefur sannarlega grætt á … ég meina, haldið nafni hans á lofti eftir dauðann. Hann hefur selt Montblanc penna, Levi‘s gallabuxur, gleraugu, Dolce & Gabana vörur, Benz-bíla og Porche-bíla. Já, hann auglýsir bókstaflega Porche-bíla, eins og Porche-bílinn sem Dean ók þegar hann lést. Smekklegt. Spurning hvort þeir hafa íhugað að nota tilvitnunina frægu „Live Fast, Die Young, and Leave a Beautiful Corpse“ í auglýsinguna? Lifðu hratt, deyðu ungur og skyldu eftir fallegt lík – sem verður gullnáma fyrir erfingjana.

Auglýsendurnir ítreka að allt þetta sé í anda Dean, svalt eins og Dean, ögrandi eins og Dean, eilíf æska eins og Dean, dauð eins og Dean.

Mark Roesler, stofnandi CMG, sagði í viðtali við AP fréttastofuna að James Dean hafi verið þekktur sem uppreisnarmaður og hafi eitt sinn sagt „ef maður getur brúað bilið á milli lífs og dauða, ef hann getur lifað eftir að hann deyr, þá var hann kannski alvöru mikilmenni. Ódauðleiki er hin eini sanni mælikvarði á velgengni.“ Roesler bætir svo við; „Það sem taldist uppreisnargjarnt á sjötta áratugnum er allt annað en á okkar tímum og við erum sannfærð um að Dean myndi styðja þessa nútímauppreisn.“ Uppreisnina gegn ægivaldi lifandi leikara, væntanlega.

Svona er James Dean seldur á heimasíðu umboðsskrifstofunnar: „19 ára þegar hann lék í Pepsi-auglýsingu,“ „22 stærsta kvikmyndastjarna allra tíma skv. Entertainment Weekly, „1,6 milljón Facebook-læk,“ „18 besta karlkyns kvikmyndastjarna gullaldar Hollywood, skv. Amerísku kvikmyndastofnuninni.“ Það er til mælikvarði á allt, listar yfir allt – og nú er búið að breyta þeim í leiðir til þess að græða á dauðanum.

James Dean var svo nýlega ráðinn í bíómynd í fyrsta skipti í 64 ár – nánar tiltekið í fyrsta skipti síðan hann dó. Myndin heitir Finding Jack og fjallar um leit af labrador-hundinum Jack í miðju Víetnam-stríðinu. Stríði sem hófst eftir að Dean dó. Líklega er tæknin ekki alveg tilbúin fyrir þetta, það kæmi ekki mikið á óvart ef myndin myndi floppa. Líklega er CMG Worldwide umboðsskrifstofunni alveg sama.

Þeir eru einfaldlega að undirbúa jarðveginn fyrir frekari landvinninga – tæknin á eftir að verða betri og fólk á eftir að venjast því að dauðinn sé ekki endanlegur, sé maður nógu frægur. Þeir sjá framtíðina – og hún er nútíminn margfaldaður. Látin frægðarmenni eru nú þegar risabisness, stundum mun arðbærari en lífið. Eða eins og segir um Chuck Berry á heimasíðu þeirra (tónlistarmann sem ólíkt flestum var þegar orðinn kúnni þegar hann dó): „það varð 9000 prósent söluaukning á plötum eftir að hann dó.“ Níuþúsund prósent.

Það eru myndir og teikningar til af þessu fólki og bara nöfnin vekja fólki hughrif – hér í Prag er til dæmis James Dean bar í miðborginni. Hann er kitsaður og það var alveg nóg fyrir mig að kíkja einu sinni í heimsókn, en ég huggaði mig þó við það að halda ómeðvitað að bareigandinn hlyti að minnsta kosti að vera svona casual James Dean aðdáandi. Nú grunar mig frekar að hann hafi haft samband við CMG og spurt einfaldlega: „Hey, eruð þið með einhverja dauða kvikmyndastjörnu á lager sem gengur vel í fólk í kringum 25 ára sem finnst gott að borða egg og beikon í morgunmat á dýrum stað?“ Ég er hins vegar of seinn til þess að drekka tékkneska Rebel-bjórinn sem var tileinkaður Dean. Framleiðendurnir báðu ekki um leyfi og núna er aðeins hægt að finna bjórinn í risastórum vörugeymslum CMG, þar sem þeir geyma varning sem þeir hafa gert upptækan, og þar geta ólöglegar Marilyn Monroe dúkkur drukkið hann til eilífðarnóns.

Og þegar tæknin verður orðin nógu góð og siðferði okkar nógu útþynnt þá mun CMG sitja á gullnámu. Auk James Dean eru þau með bæði Natalie Wood og Sal Mineo á skrá, búið ykkur undir framhald af Rebel Without a Cause eftir svona áratug.

Tarzan slæst við Súperman og Neil Armstrong gengur á Mars

Leikkonan Ingrid Bergman lést árið 1982 en hefur verið kúnni síðan 2002 og eftir dauðann hefur hún auglýst kínverskar verslunarmiðstöðvar. Með þessari nýju tækni getur hún haldið leikferlinum áfram og leikið á móti Laurence Olivier eða Bette Davis, Lönu Turner eða James Stewart. Í stúdíóinu við hliðina á verða nýjar myndir í framleiðslu með David Carradine, David Niven, Jean Harlow, Lillian Gish, Helen Hays, Ginger Rogers, Dorothy Lamour, Jayne Mansfield, Jane Russell, Hedy Lamarr, André the Giant, James Coburn, Dudley Moore, Art Carney, Alan Ladd, Peter Sellars og Mickey Rooney.

Ímyndið ykkur bara möguleikana; Rock Hudson og Montgomery Clift fá loksins að leika hommapar í bíómynd, Tarzan og Súperman geta tekist á og það væru sjálfir Johnny Weismuller og Christopher Reeve sem myndu slást – eða bjarga heiminum saman.

Allt þetta fólk er skráð sem kúnnar hjá CMG – og þeir eru ekki bara með látna leikara á sínum snærum. Þeir geta búið til súperband með Jerry Garcia, Glenn Miller, Josephine Baker, Dizzie Gillespie, Bennie Goodman og Aaliyah og látið Jack Kerouac semja fyrir þau texta.

Þeir geta slegið upp svart-hvítum hafnaboltaleikjum með öllum helstu hafnaboltastjörnum sögunnar, þeir gætu boðið okkur upp á endalausa boxbardaga á milli Sugar Ray Robinson, Jake LaMotta, Rocky Marciano og Joe Louis.

Þeir geta sent geimför um gervallt sólkerfið með Neil Armstrong innanborðs og aðra frumkvöðla geimferðanna. Mögulega bara hólógram – en efist ei, CMG fylgjast vafalítið vel með klónunum á hundum fyrrverandi forsetafrúa og dreymir vafalítið um að klóna löngu látna kúnna sína þegar fram í sækir, þegar allir verða orðnir þreyttir á hólógrömunum og gígabætunum og þrá aftur skinn og bein og blóð.

Upphafsmennirnir sofa í Bogart-rúmum

Einhvern veginn tekst kapítalismanum alltaf að koma manni á óvart með hvað hann er kapítalískur – honum verður allt að féþúfu. En hver er maðurinn á bak við CMG umboðsskrifstofuna? Jú, það er áðurnefndur Mark Roesler. Hann fullyrðir á heimasíðunni að látið frægðarfólk hefði verið næsta réttlaust og lítið grætt áður en fyrirtækið kom til sögunnar. Til þess að átta sig betur á hugarheimi Roesler er forvitnilegt að rifja upp vitnisburð hans í réttarhöldunum yfir O.J. Simpson. Hann var þar sem sérfræðivitni um það hve mikils virði Simpson væri – og hvað hann gæti grætt mikið á að selja ímynd sína eftir réttarhöldin. Allt þetta yðri svo notað til þess að meta bótagreiðslur sem honum bæri að greiða.

Þrátt fyrir réttarhöldin þá gæti Simpson ennþá selt stakar eiginhandaráritanir fyrir 60 dollara að sögn Roesler. Þar væri hann meðal þeirra vinsælustu á meðal þálifandi íþróttamanna, þeir einu hvers rithönd var verðmætari voru þeir Joe DiMaggio, Ted Williams, Wilt Chamberlain, Bill Russell og Mike Tyson – en Roesler fullyrti að markaðsvirði þess síðastnefnda hefði aðeins hækkað eftir að hann var dæmdur fyrir nauðgun. Roesler viðurkenndi fyrir rétti að það gæti orðið erfitt að redda Simpson stórum auglýsingasamningum en reiknaði þó með að O.J. Simpson kaffibollar gætu vel slegið í gegn. Þá gæti hann grætt vel á að setja fötin sín, bikarana og jafnvel lampa og húsgögn á uppboði.

„Virði hans hefur nánast þrefaldast eftir morðin, þegar kemur að eiginhandaráritunum og minjagripum,“ fullyrti Roesler og bætti við að Simpson hefði þegar sótt um einkaleyfi á sex mismunandi útgáfum nafns síns; meðal annars „The Juice,“ „O.J.“ og „Team O.J., Justice for All.“

Roesler hafði ekki hug á að taka Simpon sjálfur sem kúnna, af ótta við að móðga aðra kúnna, en mælti með að aðrir myndu gera það. Hann mat það svo að Simpson myndi raka inn 2-3 milljónum dollara árlega út á alræmda frægð sína, og væri – þrátt fyrir að vera tæplega milljón dollara í skuld, um 25 milljóna dollara virði og rúmlega það. Það var það sem hann myndi ráðleggja viðskiptafólki að borga fyrir réttinn af O.J. Simpson. Það varð svo upphæðin sem O.J. Simpson var gert að greiða – og hann seldi svo alls kyns varning til þess að standa straum af kostnaðinum. Roesler keypti bikar af honum og golfkylfu sem talið var að hann hefði notað daginn örlagaríka.

Roesler hefur sagt að verðmætustu látnu stjörnunar, fólk á borð við Babe Ruth, Marilyn Monroe og James Dean, geti grætt 20 milljónir dollara á ári hverju. „Babe Ruth stendur fyrir kraft. James Dean er svalur. Marilyn Monroe er glamúr,“ sagði Roesler eitt sinn á veitingastaðnum Babe Ruth í London. Hann lifir sig inní starfið, er með númeraplötuna J DEAN og sefur í Bogart-rúmi.

Hann er ekki einn um að reka umboðsskrifstofur fyrir látið fólk – en hann er sá stærsti – og er, ásamt þeim næststærsta í bransanum, Roger Richman, frumkvöðull í þessu starfi. Fyrst uppgötvuðu þeir litla klausu í lögunum sem þeir sáu að þeir gætu nýtt sér, seinna meir tókst þeim að fá lögunum breytt.

Richman komst í feitt ungur að árum þegar hann uppgötvaði að hann gæti stefnt Bandarísku póstþjónustunni þegar hún ákvað að prenta frímerki með mynd af W.C. Fields í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá fæðingu leikarans. Póstþjónustan þurfti að borga fjölskyldu Fields fúlgu fjár og nýr atvinnuvegur varð til.

Roesler er meiri hákarl, hann er alræmdur fyrir að stefna öllu mögulegu fólki og stefndi til dæmis Spike Lee í kjölfar þess að varningur tengdur myndinni Malcolm X fór á markað – og vann. Þið munið kannski eftir öllum húfunum og bolunum merktum X á tíunda áratugnum? Roesler fékk sínar prósentur af þeim og ekkja Malcolms líka. Hann er tíður gestur í minjagripabúðum – í þeim eina tilgangi að finna nýtt fólk til að stefna.

Roesler er með flesta frægustu kúnnana – en Richman græðir mest á gömlum vini pabba síns, honum Albert Einstein. Í dauðanum hefur Einstein auglýst Apple-tölvur, Pepsi, Merrill Lynch, Nestle, Ford og Kodak, og þegar Richman er ekki að skrifa undir nýja samninga er hann að elta uppi þrjóta sem nýta sér Einstein ókeypis. Nú síðast hönnuð tölvuleikja þar sem Hitler drepur Einstein aftur og aftur, eitthvað sem honum tókst ekki í lifanda lífi.

Þannig virkar þetta. Sögunni er breytt – eða hún er varin. Heilindi skipti sjaldnast mestu, þótt sannarlega hafi þeir stoppað ýmislegt ósmekklegt þá hafa þeir barist fyrir öðru jafn smekklausu líka. Þeir eru í þessu fyrir peninginn og það eru peningarnir sem ráða því hvort bíómyndir framtíðarinnar verða með lifandi leikurum eða dauðum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Helstu heimildir:

CMG umboðsskrifstofan.

„Grateful Dead: The Secrets Behind the Strange But Lucrative Business of Deceased Celebrity Licensing“ eftir Tamar Brott í Los Angeles Magazine.

„I Seek Dead People“ eftir Nancy Hass í New York Times Magazine.

„Lawyers Argue Over Simpson’s Financial Worth“ eftir Stephanie Simon í Los Angeles Times.