Á níunda áratugnum var íslenski meikdraumurinn í algleymingi, aðallega af því enn var þetta bara draumur. Mezzoforte höfðu verið one-hit-wonder á metsölulistum á fyrri hluta áratugarins, en það var með Sykurmolunum og seinna Björk sem íslenskir tónlistarmenn fóru að meika það fyrir alvöru. Og það byrjaði allt með „Ammæli“ – eða öllu heldur „Birthday,“ enskri útgáfu lagsins.
Lagið var valið besta lag ársins hjá Melody Maker og var á topp 10 hjá blöðum á borð við NME og Rolling Stone. Það var svo 32 árum seinna sem fólk fór loksins að hlusta á textann. Enski textinn er vel að merkja ekkert mildaður, nánast beinþýðing – bara synd að ekki skuli hafa fundist nýr ritháttur á titilinn á ensku, og eiginlega vonandi að rithátturinn ammæli festi sig í sessi, það er ekki margir eftir sem bera f-ið fram þannig að það heyrist.
En allavega, þetta er um fimm ára stelpu sem kvelur dýr – mögulega af kvalalosta, mögulega af náttúrufræðilegri forvitni.
Þræðir orma upp á bönd
Geymir köngulær í vasanum
Safnar fluguvængjum í krús
Skrúbbar hrossaflugur
Og klemmir þær á snúru
Textinn er allur úr súrealistaskólanum sem Sykurmolarnir spretta upp úr – en verður svo ansi óþægilegur þegar önnur manneskja birtist úr næsta húsi. Skeggjaður og sýgur með henni vindla og saumar fugl í nærbuxurnar hennar, svo vitnað sé beint í textann sem ofbauð einhverjum tónmenntakennurum landsins.
En hvað segir höfundurinn textans um málið? Textinn er raunar eignaður bandinu öllu, formlega, maður hafði Sjón aðeins grunaðan út af súrealismanum, eða Björk sjálfa – en rakst svo á viðtal við Björk þar sem hún talar eins og hún hafi samið þetta.
„Þetta er leyndarmál, saga um ástarævintýri á milli fimm ára stelpu og manns sem býr í næsta húsi,“ segir Björk í viðtali við Martin Aston í bókinni Björkography. Hún segir svo að því að þetta sé – allavega að einhverju leyti – ímyndun stelpunnar.
„Áherslan varð loks á þessa skrítnu reynslu sem ég mundi frá því ég var lítil stelpa, sem rímar við reynslu margra lítilla stelpna. Við erum að tala um risastóra menn, um fimmtugt, sem hafa mjög sterk erótísk áhrif á litlar stelpur en ekkert gerist … ekkert er gert, bara þessi rosalega sterka tilfinning. Ég valdi efnið til að sýna að hvað sem er geti snert þig á erótískan hátt; efni, tré, hvað sem er.“
En eins og í öllum alvöru kveðskap er eitthvað grátt svæði, eitthvað óþægilegt rými, hér verður aldrei nein fullvissa.
Svo má geta þess að samkvæmt timarit.is voru Sykurmolarnir ekki að finna upp ritháttinn ammæli – hann má finna strax á nítjándu öld. En notkun hans eykst töluvert í kjölfar þess að lagið slær í gegn og getur meðal annars af sér þetta skemmtilega nafnlausa þrjúbíólega erótíska ljóð sem birtist í Muninn, skólablaði MA, árið 1989.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson