Titilpersóna The Irishman er eini Írinn í ítölsku mafíunni, rumurinn Frank Sheeran. Hann er leikinn af Robert De Niro, sem ættfræðingar segja mér að sé 25 prósent írskur en írsku genin virðast öll vera rækilega víkjandi, hann virkar akkúrat ekkert írskur í myndinni og er eins og eitthvað órökrétt framhald af því rugli þegar hinn dansk-ameríski Viggo Mortensen var fenginn til að leika Ítala í Green Book í fyrra, sem var eiginlega skömminni skárra.

Við þetta bætist hve stórkostlega ósannfærandi hinn tæplega áttræði De Niro er sem rétt rúmlega þrítugur karlmaður og það er ekki nema að litlu leyti tölvutækninni um að kenna, hún er þokkaleg, en De Niro hreyfir sig einfaldlega og ber sig eins og gamall maður. Auk þess eru allar klisjur mafíumyndana notaðar og fyrsta hálftímann dauðleiðist manni hreinlega.

En svo gerist örlítið kraftaverk: Al Pacino mætir á svæðið. Þetta gerist eftir rúman hálftíma og hann leikur verkalýðsleiðtoginn Jimmy Hoffa, sem De Niro tekur fram að hafi verið algjör rokkstjarna á sínum tíma, jafnstór og Elvis. Og skyndilega tekur myndin allt aðra og forvitnilegri stefnu og svo er Pacino einfaldlega stórkostlegur sem Hoffa. Í fyrsta skiptið sem þeir félagar De Niro og Pacino deildu tjaldinu var það í Heat og stemmningin var dálítið eins og í boxbardaga stórmeistara. Þar mátti ekki á milli sjá, ef eitthvað var þá var De Niro sjónarmun betri, en hér er þetta engin samkeppni – Pacino á myndina með húð og hári þegar hann er á tjaldinu, sem er vel að merkja alltof skammur tími.

Þessi sögulega vídd, um samspil mafíunnar og verkalýðshreyfingarinnar, er líka stórmerkileg og forvitnileg á ótal vegu. De Niro sjálfur verður líka meira sannfærandi eftir því sem hann nálgast eigin aldur – og verður raunar alveg stórkostlegur undir lokin, þegar hann er að leika sinn rétta aldur, og jafnvel aðeins upp fyrir sig. Joe Pesci vinnur líka hægt og örugglega á, sem lúmskt andsyggilegt illmenni – hann er vinalegi frændinn sem þú treystir fullkomlega og skyndilega er hann búinn að plata þig til þess að gera skelfilega hluti. En hann á líka eitt pínlegasta atriði myndarinnar – þegar hann kallar De Niro „kid“ og maður ímyndar sér að þetta sé Halldór Ásgrímsson að vígja Sigmund Davíð inní Framsóknarflokkinn.

Ungir Framsóknarmenn og ósýnilegar konur

Yngingartæknin er svo bæði einn helsti galli myndarinnar, en verður á einhvern öfugsnúinn hátt líka kostur á köflum. Þeir eru eiginlega allir eins og ungir Framsóknarmenn, allir gamlir fyrir aldur fram – og þetta er líka bara ákveðin týpa af köllum sem er ekkert til lengur og óvíst hvort þrítugir eða fertugir leikarar gætu leikið sannfærandi. Svo má líka sjá þetta sem þeirra eigin sýn á sjálfa sig unga, draumur gamalmennis um sitt yngra sjálf.

Þetta er nefnilega fyrst og fremst mynd um tvennt; annars vegar um pólitíska vídd mafíunnar í Ameríku 20. aldar, þar sem þræðir hennar liggja um – og spilla – stjórnmálaflokkum, verkalýðsfélögum og ýmsum öðrum stofnunum þjóðfélagsins, og leggur á sinn hátt grunninn að ránskapítalisma nútíma-Ameríku.

En svo fjallar hún ekki síður um ellina og dauðann. Flestar aukapersónur og jafnvel nokkrar sæmilega stórar persónur eru kynntar til sögunnar með eigin dauðdaga prentuðum á tjaldið. Stundum verða endalok þeirra blóðug – það vekur raunar athygli hversu margir eru myrtir árið 1981 eða um það leyti,  árið sem hefur verið kallað það blóðugasta í blóði drifinni sögu New York-borgar, sem gert var skil í myndinni A Most Violent Year.

Sumir þeirra deyja hins vegar frekar brjóstumkennanlegum dauðdaga á elliheimilum borgarinnar. Hér eru allir feigir, það er bara mislangt í það. Þegar líður á eru þeir svo farnir að leika upp fyrir sig í aldri, þessir menn hvers völd höfðu grundvallast á hnefaréttinum eru komnir í hjólastól og ráða ekki við einföldustu hluti lengur. Tómið heimtir alla, hversu harðir sem þeir eru.

Undir lokin er svo komið að því að háaldraður De Niro vill fara að létta á hjartanu – og þaðan kemur samsæriskenningin sem myndin byggir á, og er fengin úr bókinni I Heard You Paint Houses. En myndin dvelur við dagana eða vikurnar fyrir játninguna, þegar Frank áttar sig betur og betur á fáfengileika þess lífs sem hann kaus sér.

Frank er raunar framan af mynd nánast eins og táknmynd meðvirkninnar – og lendir fyrst í bobba þegar hann þarf að velja með hverjum hann þarf að kóa.

Anna Paquin og Lucy Gallina sem dóttirin Peggy (já, tvær leikkonur að leika sömu persónu og kemur vel út! Það hefði kannski bara mátt spara þessi yngingarmeðul eftir allt saman?) reynist nokkurs konar samviska föðursins, en þetta er þögul samviska, þannig að hann heyrir sjaldnast í henni. Paquin og Gallina skila sínu fantavel, þessi þöglu augnatillit eru lúmskt mögnuð – hins vegar hefði Scorsese alveg mátt eyða aðeins meira púðri í hinar kvenpersónurnar, eins og eiginkonur þeirra félaga sem eru lítið meira en veggjaskraut hérna. Í framhjáhaldi má svo minnast á son Hoffa, James yngri, sem birtist okkur sem óttalegur kjáni í myndinni en þegar honum er flett upp kemur í ljós að hann reyndist arftaki föður síns sem leiðtogi Teamsters-verkalýðshreifingarinnar og sinnir því starfi enn í dag, 78 ára gamall.

En þrátt fyrir ótal galla er The Irishman magnaður svanasöngur þessara risa kvikmyndasögunnar. Núna eru þeir flestir með sitthvað á prjónunum og óvíst að þetta verði síðasta mynd neins þeirra – en þetta er samt þannig mynd, mynd þar sem allir skynja að endirinn er nærri, þetta er kveðjupartí – en megi það geta af sér sem allra flest eftirpartí.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson