Ég heyrði einhvern kalla It Must Have Been Love power-ballöðu í kjölfar þess að Marie Fredriksson yfirgaf okkur í vikunni. Og þá áttaði ég mig eiginlega á því að Roxette brúuðu eitthvað bil, þau eru hvorki eitís né næntís, þau eru þarna á mörkunum.
Til að byrja með, þetta er ekki power-ballaða. Fredriksson er með kröftuga rödd en hún þenur sig aldrei, rembist aldrei – víðmyndin sem power-ballöðurnar kalla á eru ekki af himnum ofan, í mesta lagi ofan af sviðinu.
Það sama gildir um múnderinguna, hárgreiðsluna og meikið. Þau Marie og Per Gessle eru með létt-blásið hár – en að öðru leyti er eitís-glamúrinn víðsfjarri. Kannski kom hann aldrei að fullum krafti til Svíþjóðar og kannski var hann bara að fölna. Hápunktur frægðarinnar var í kringum 1989-92, og á seinni hluta þess tíma eru Nirvana og Rage Against the Machine um það bil að fara að gjörbreyta tónlistarlandslaginu.
Það sem ég áttaði mig líka á var að Roxette var eiginlega eina eitísbandið sem ég upplifði í beinni, við sem urðum táningar í kringum 1990. Wham!, Duran Duran, Frankie Goes To Hollywood voru sveitir sem við voru að líða undir lok (eða fræðgarsólin að hníga) um það leyti sem við vorum farinn að þefa af þessu – á meðan Roxette kom akkúrat þegar unglingsárin brustu á – og maður gat leyft sér að njóta sakleysislegrar einlægninnar í þeim í svona kortér áður en gruggið og byltingarsöngvarnir tóku við.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson