Seinna í dag verða löngu listarnir fyrir Óskarsverðlaunin tilkynnt – þótt tilnefningarnar sjálfar muni ekki birtast fyrr en í janúar. Þetta er bara í vissum flokkum, meðal annars kæmi mjög á óvart ef Hildur Guðnadóttir yrði ekki meðal þeirra fimmtán tónskálda sem koma til greina fyrir bestu tónlist.

Hins vegar er mesta spennan líklega fyrir hvaða tíu myndir munu áfram koma til greina sem besta „alþjóðlega mynd“ – sumsé besta erlenda myndin eins og þetta hét áður, og þar þykir Hvítur, hvítur dagur sæmilega líkleg – hún er meðal fimmtán sem nefndar eru hjá Deadline og í sjöunda sæti hjá The Film Experience, þótt hana vanti líka á lista ýmissra spámanna. Af alls 92 vel að merkja. En hverjir eru helstu keppinautarnir?

Tvær virka nánast öruggar – og það er raunar ekki ólíklegt að þessar tvær verði tilnefndar í öðrum flokkum líka. Cannes-verðlaunamyndi The Parasite er talin líkleg til flestra verðlauna, þar á meðal besta mynd, og Antonio Banderas er talin líklegur til að fá tilnefningu fyrir leik sinn í nýjastu mynd Almodóvars, Sársauki og dýrð (Dolor y gloria). Það kæmi svo stórkostlega á óvart ef þessar tvær myndir yrðu ekki á listanum yfir bestu erlendu myndir.

Þá er franska myndin Les Miserablés einnig á flestum þessum listum – og Svipmynd af brennandi  konu (Portrait de la jeune fille en feu) væri þar örugglega líka ef Frakkar hefðu mátt senda tvær myndir. Allar þessar fjórar myndir sem nefndar hafa verið voru tilnefndar sem besta erlenda myndin á Golden Globe hátíðinni – ásamt The Farewell, sem sannarlega er ekki á ensku en á ekki séns í þennan óskar þar sem Bandaríkin sjálf geta ekki sent mynd.

Ósýnilegt líf Evrídísar Gusmão frá Brasilíu, Monos frá Kólombíu og Makedónska heimildamyndin Honeyland virka einnig afskaplega líklegar – en þá eru fjögur laus sæti sem ansi margar myndir koma til greina í.

Af þessum sex myndum hef ég séð tvær – Parasite sem er mögnuð og Ósýnilegt líf Evrídísar Gusmão sem er gullfalleg en gölluð, en kannski gölluð á þann hátt sem fyrirgefst í heimi melódramans.

Alþjóðavæddur þjóðernisusli

Af öðrum myndum sem ég hef séð þá er Skræpótti fuglinn tékkneski ágætlega líkleg og Úti að stela hestum frá Noregi og The Boy Who Harnessed the Wind frá Bretlandi eru töluvert nefndar, þótt hvorug sé góð. Hinn egypska Eitraðar rósir er heldur ekki góð – og hvergi nefnd líkleg til afreka.

Danir og Svíar senda ansi umdeildar myndir, Dronningen danska vann Norrænu kvikmyndaverðlaunin og hin sænska And Then We Danced hefur valdið uppnámi í Georgíu fyrir umdeild efnistök, enda í raun kannski meira georgísk en sænsk. Slíkt er að verða algengara og algengara í alþjóðavæddum heimi.

Þannig sendir Lúxemborg Tel Aviv on Fire, sem eins og nafnið bendir til gerist í Ísrael, og belgar senda sögu um mann sem rannsakar hvarf föður síns skæruliðans í Gvatemala á níunda áratugnum í Mæður okkarOur Mothers, en þessar tvær þykja báðar ágætlega líklegar. Þá senda Búlgarir Ága, um hreindýraveiðimann á norðurslóðum. Loks voru tvær myndir dæmdar úr leik fyrir of mikla ensku, annars vegar nígeríska myndin Lionheart, og svo austurríska myndin Joy, sem fjallar um nígeríska starfsmenn í kynlífsiðnaðinum í Vín. Það hefur verið harðlega gagnrýnt og raunar talað um að þetta form ensku sé eitthvað sem fáir utan nígeríu skilji – og jafnvel kallað nýtt öfugsnúið form nýlendustefnu í The Guardian.

Þýska myndin Systemsprenger vann verðlaun í Berlín, pólska myndin Corpus Christi hlaut verðlaun í Feneyjum og hin rússneska Beanpole hlaut leikstjóraverðlaun í Cannes, þessar gætu allar komið til greina.

Þá má nefna bæði Palestínu og Ísrael, sem báðar senda líklegar myndir. Palestína sendir nýjustu mynd Elia Suleiman, síns þekktasta leikstjóra, It Must Be Heaven, og Ísrael sendir Incitement – sem hlýtur bara að vera ansi frábær fyrst þeir völdu hana fram yfir þá mögnuðu Synonyms, sem vann aðalverðlaunin á Berlinale. Ef ekki er um alvarlegan dómaraskandal að ræða.

Svo er spurning hvort Rúmenar fái loks tilnefningu. Corneliu Porumboiu er flinkur leikstjóri og Hvíslararnir hljómar spennandi – en akademíunni virðist hreinlega eitthvað í nöp við rúmensku nýbylgjuna.

Þá eru nokkur lönd sem við heyrum sjaldan um í bíóheiminum nokkuð líkleg. Senegalska myndin Atlantics vann Grand Prix verðlaunin á Cannes, A Land Imagined frá Singapúr vann aðalverðlaunin á Locarno og alsírska myndin Papicha vakti lukku á Cannes.

Bæði Kína og Japan senda teiknimyndir, Kína gerir það í fyrsta sinn með Na Zha og Japan með Weathering With You. Þá má finna nokkur kunnugleg nöfn sem virka þó varla líkleg til afreka. Líbanska leikstýran Nadine Labaki fékk tilnefningu í fyrra fyrir Capernaum – en núna er hún aðalleikkonan í framlagi Líbanon, 1982. Haifaa al-Mansour var fyrsta konan í Sádi-Arabíu til að leikstýra bíómynd, þeirri ágætu mynd Wadjda, og kemur nú til greina með The Perfect Candidate. Einn svipmesti leikari samtímans er svo vafalítið hinn serbneski Lazar Ristovski, sem leikur í mynd sonar síns Petar, Kralj Petar I. Fleiri fjölskyldutengsl má nefna á Balkanskaganum, en Ines Tanović er fulltrúi Bosníu með myndina Sonurinn – en Ines er dóttir Danis Tanović, sem vann Óskarinn fyrir nærri tveimur áratugum fyrir hina mögnuðu Einskismannsland.

Þá hefur Argentína tvisvar verið tilnefnd undanfarin áratug – og í bæði skiptin var stórstjarna þeirra Roberto Darín í aðalhlutverki, það er spurning hvort það komi Heroic Losers í gegn í þetta skiptið? Loks má nefna það að Finnar senda Selmu Vilhunen, sem þegar hefur unnið stuttmyndaóskarinn, en hennar fyrsta mynd í fullri lengd er Stupid Young Heart.

Vandinn er svo auðvitað sá að það er oft erfitt að sjá þessar myndir í Hollywood-miðuðum heimi. Einhverjar koma þó á kvikmyndahátíðir eða listræn bíó nálægt ykkur – og svo eru þónokkrar þegar komnar á streymisveitur. Á Amazon Prime má sjá Gully Boy frá Indlandi og á Netflix má sjá A Land Imagined frá Singapúr, Dear Ex frá Tævan, Krasue: Inhuman Kiss frá Tælandi og Furie frá Víetnam.

Og að lokum er hér svo hávísindaleg spá Menningarsmygls!

The Parasite – S-Kórea

Sársauki og dýrð (Dolor y gloria) – SPánn

Les Miserablés – Frakkland

Ósýnilegt líf Evrídísar Gusmão – Brasilía

Monos – Kólombía

Honeyland – Makedónía

Dronningen – Danmörk

And Then We Danced – Svíþjóð

Our Mothers – Belgía

Atlantics – Senegal

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson