„Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ orti Steinn og Geiri Sæm tók sinn snúning á þessum ljóðlínum í Froðunni.

Textinn er bæði ádeila á neysluhyggju Reagan-árana, sem og hugleiðing um þá drauma sem ungum drengjum var innrætt áður en loftslagsbreytingar gerðu bílaeign aðeins minna töff:

Hann langar í sanséraðan sportbíl

og hann verður dús

þráir heimska ljósku, sportbíl

og risastórt hús

Það sem er forvitnilegt við þetta er raddbeiting Geira, sem er 24 ára þarna, en röddin hljómar allavega 20 árum eldri. Þannig verður þetta lag um eftirsjá þess sem uppgötvar að æskudraumurinn var tálsýn ein – og það er undirstrikað í myndbandinu, þar sem Geiri er speglaður við smágutta að lesa myndabók, sem virðist einmitt snúast um þennan sama innihaldsrýra sportbílaljóskudraum.

Það er samt nett meðvirkni í þessu öllu, þau langar öll dálítið í fjandans sportbílinn – og þetta yndilega eitíslega djamm sem birtist eins og eitt allsherjar block party í myndbandinu.

Og ljóðlínur á borð við þessar myndu varla sleppa í gegnum femínísk nálaraugu samtímans:

og ég mun eiga þig

en þú munt ei eiga mig

Loks er rétt að mæla með fínni samantekt RÚV-vefsins um Geira Sæm sem má finna hér, þar sem sjá má hann og Stebba Hilmars nánast barnunga að ræða músík, áður en myndbandið við Froðuna er spilað. Algjört nostalgíugull.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson