Þetta var fyrsta lagið sem Hildur Guðnadóttir samdi fyrir Jókerinn – og lagið sem gjörbreytti senunni (sem átti upphaflega að vera miklu hefðbundnari). En ekki bara senunni – þetta er lagið þar sem Jókerinn verður til.
Fram að þessu hafði hann bara verið misheppnaður grínisti – en þarna finnur hann sinn innri streng, óttalausa ótukt, síkópata með fallega tónlist inní sér. Horfið bara á þessa senu – lagið byrjar hægt og rólega eftir 22 sekúndur – þegar hann er kominn í örugga höfn almenningsalernis, þar sem hann á sína slímugu en undurfallegu endurfæðingu.
Það er ekki algengt að aðalpersóna bíómyndar „heyri“ instrúmental tónlistina, allra síst þegar persónan er hvorki músíkant sjálf né myndin söngleikur. En um leið og hann heyrir tóna Hildar hægist á andardrættinum, hann nær andanum, finnur hvert fæturnir vilja leiða hann, í fyrsta skipti á ævinni veit hann hvert hann er að fara, honum líður skyndilega vel í eigin líkama, hann verður hægur en öruggur í hreyfingum, ekki ör og fálmenndur eins og áður.
Myndavélin og ljósið fylgja líka tónlistinni, bæði eru eins og titrandi sellóstrengur, stundum er dansinn jafnvel líkastur hljómsveitarstjórnun – eins og Jókerinn sé að renna saman við tónskáldið Hildi. Trúðurinn öðlast skyndilega tign, þarna á skítugu salerninu.
Það er rækilega skrásett að aldrei þessu vant kom tónlistin á undan atriðinu – eitthvað sem er fáheyrt í bíóbransanum, þar sem tónlistin kemur oftar en ekki síðast til sögunnar. Í gegnum tónlistina fann Joaquin karakterinn. Og prófið bara að horfa á atriðið með hljóðið af – margt er vitaskuld eins, en það vantar myrkrið – þetta á allt eftir að enda vel. Sem tónlist Hildar segir okkur hins vegar að er ekki að fara að gerast.
Bíóferill Hildar
Hildur Guðnadóttir spilaði með ótal böndum (án þess að vera endilega meðlimur í þeim), samvinnuverkefnum og sólóprójektum áður en ferillinn í kvikmyndatónlistinni hófst. Sumsé frekar klassískur ferill íslensks tónlistarmanns.
Fyrstu myndirnar sem hún samdi tónlist fyrir áttu það flestar sammerkt að það sá þær nánast enginn – sú fyrsta var ódýr hryllingsmynd (The Bleeding House) og í kjölfarið kom forvitnileg mynd um konu í kúrdíska hernum (Jîn – sem þýðir einmitt kona á kúrdísku) og heimildamynd um Rio de Janeiro. Ein mynd sló þó í gegn, á Evrópskan mælikvarða, prýðileg spennumynd Tobias Lindholm, A Hijacking / Kapringen.
Þetta var árin 2011-12, næstu ár snérust meira um samstarfsverkefni – fyrst sem sellóleikari fyrir Jóhann heitinn Jóhannsson í Prisoners, Sicario og Arrival og fyrir Ryuichi Sakamoto og Alva Noto fyrir The Revenant, auk þess að semja tónlistina sjálf fyrir Eiðinn.
Þetta leiddi að sér verkefni þar sem hún var samhöfundur tónlistar í myndum og sjónvarpsþáttum á borð við Mary Magdalene og Ófærð (með Jóhanni) og Tom of Finland (með Lasse Enesen).
Eitt stærsta skrefið í úrvalsdeildina kom þó með heimildamyndinni Strong Island, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna, og eftir að hafa verið svo óheppin að semja ágætis tónlist fyrir þá skelfilegu framhaldsmynd Sicario: Day of the Soldado kom árið 2019, sem var einfaldlega árið hennar Hildar – þar sem ekki má á milli sjá hvort Chernobyl eða Jókerinn er meira tónlistarlegt afrek.
Þegar myndirnar eru skoðaðar þá sýnist manni þetta mjúkar myndir frekar en harðar – sumar raunar nánast bókstaflega um tímans harkalega og freka straum (Chernobyl) og nánast sjúklega einstrengislegar aðalhetjur (Sicario og The Revenant). Það er þó sannarlega heilmikil mýkt í Arrival og Maríu Magdalenu, en sú mynd sem er mögulega andlega skyldust Jókernum er Tom of Finland – um mjúka menn í hörðum karlaheimi sem finna óvænta útrás og verða hetjur sumra en útskúfaðir af valdinu, þótt það sé óhætt að fullyrða að Finnlands-Tomminn Touko Laaksonen sé ólíkt meiri hetja í raun en Arthur Fleck. Önnur er mynd um afeitraða karlmennsku, hin mynd um hvernig eitrið tekur sér bólfestu.
Óskarslíkurnar
Þegar þetta er skrifað er Hildur nýbúin að vinna Gullhnöttinn góða – en jafn frábært og það er þá vitum við öll að Golden Globe er æfingamót, það er Óskarinn sem verðlaunaárstíð Hollywood snýst fyrst og fremst um.
En hversu líklegt er að Hildur Guðnadóttir verði tilnefnd – og hversu líklegt er að hún vinni? Hún er þegar, rétt eins og öll hin tónskáldin sem tilfend voru til Gullhnattar, á 15 mynda stuttlistanum sem kynntur var fyrir jól. En það má vel skoða sögu beggja verðlauna til að reyna að spá aðeins fyrir um framhaldið.
Á Golden Globe verðlaununum eru bara ein verðlaun fyrir bestu tónlist (og svo önnur fyrir besta lag) – en á Óskarnum eru stundum bara ein verðlaun en í gegnum árin hefur þessu stundum verið skippt upp í 2-3 verðlaun, eins og er raunar gert í Golden Globe með leikara, leikkonur og bestu mynd – sem flækir óneitanlega málin. Þá eru reglurnar stundum mismunandi á milli verðlauna, The Godfather vann til dæmis Gullhnöttinn og var tilnefnd til Óskars – en dæmd úr leik þegar í ljós kom að Nino Rota hafði stolið frá sjálfum sér, notað stef úr gamalli Fellini-mynd. Eins lenti Jóhann heitinn Jóhannsson í því að vera tilnefndur fyrir Gullhnött með Arrival en vera dæmdur ólöglegur í Óskarinn þar sem einnig var notast var við stef frá Max Richter í myndinni. Jóhann er einmitt eini Íslendingurinn sem hafði verið tilnefndur til akkúrat þessara verðlauna á undan Hildi – fyrir Arrival og tveimur árum fyrr vann hann fyrir Theory of Everything (hans versta kvikmyndatónlist raunar), sem hlaut tilnefningu til Óskars, rétt eins og Sicario ári síðar.
En þetta er nóg af fyrirvörum, hér er tölfræðin sjálf.
Byrjum á árunum þegar það voru tvo tónlistarverðlaun á óskarnum – frá 1947 (þegar Golden Globe byrjuðu) til 1984 og svo aftur 1995-98.
Af 34 sigurvegurum Gullhnattarins voru 26 tilnefndir (og einn af þeim svo dæmdur úr leik) og 15 sem unnu, þannig að það voru mjög góðar líkur á tilnefningu og ef hún náðist meira en helmingslíkur á sigri. Inná milli var svo áratugur, 1985-94, sem aðeins ein verðlaun voru fyrir bestu tónlist á óskarnum og það skilaði Gullhnattarhöfum átta tilnefningum og sex sigrum á tíu árum.
Síðustu 20 árin hefur svo sama kerfi verið við líði báðum megin og á þeim tíma hafa 15 Gullhnattarsigurvegarar af 20 verið tilnefndir og af þeim 11 unnið. Þannig að á þessu sést að allt minna en tilnefning yrði óvænt og hún á meira en helmings sigurlíkur. Á Gullhnettinum keppti hún meðal annars við Newman-frændurna, þá Thomas og Randy, sem eru sérfræðingar í að vinna þessi verðlaun ekki. Thomas hefur verið tilnefndur þrettán sinnum og Randy átta sinnum, báðir án þess að vinna – þótt Randy hafi að vísu unnið tvær styttur fyrir besta lag. (Mögulega kláraði Alfred, pabbi Thomasar, fjölskylduskammtinn – en hann vann níu styttur). Einmitt þetta gæti mögulega verið hættulegt, Hildur er yngst líklegra verðlaunahafa og það kemur sannarlega alveg fyrir að menn hugsa sem svo að þá geti fólk nú alltaf unnið verðlaunin seinna. Og tónlistarverðlaunin á Óskarnum hafa einmitt orð á sér með að vera íhaldssöm – það er erfitt að komast inn en þegar það gerist má allt eins búast við að fá ítrekaðar tilnefningar.
Og loks er hér svo hægt að hlusta á lengri útgáfu af laginu sjálfu um dansinn af salerninu. Það er gullfallegt og margslungið, hvað sem mögulegum verðlaunum líður.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson