Það er óvenju mikið af gamlingjum í troðfullum sal í Kino Pilotu. Ég hef sterklega á tilfinningunni að margt þeirra séu gamlir kunningjar, ættingjar, vinir og samstarfsfélagar Wasulka-hjónanna Woody og Steinu, jafnvel FAMU-árgangurinn 1963? Og hver veit, kannski eru þau yngri frænkur og frændur, nemendur jafnvel?

Það er léttvín í boði – og rétt fyrir sýningu er skálað fyrir Woody, þetta er erfidrykkja listamanns sem lærði í Prag, svo verður framhalds-erfidrykkja á bernskuslóðunum í Brno í næstu viku. Það er ekki nema tæpur mánuður síðan hann lést og þetta finnst mér fallegt, eitthvað kosmískt við að myndin hafi verið tilbúinn á hárréttum tíma.

Ég hélt að ég væri mættur til að sjá Wasulka-áhrifin – en fyrst eru einfaldlega sýndar tvær af fyrstu myndum Woody og ég velti fyrir mér hvort ég hafi ekki skoðað auglýsinguna nógu vel, er þetta kannski bara yfirlitssýning yfir feril þeirra? Það væri svosem ekkert verra.

Ég hafði séð þessar tvær myndir Woody á Skjaldborg áður (þar sem þau hjón voru heiðursgestir) – en þær verða bara betri. Þetta eru ekki þöglar heimildamyndir en hér talar þó enginn, músíkina finnur Woody annars staðar. Fyrst sjáum við eitthvað sem maður heldur fyrst að sé lögreglustöð en reynist svo vera spítali, hér eru menn að sofa úr sér – ofdrykkju, geðveiki, veikindi eða bara þreytu? Maður er ekki viss því ekkert er útskýrt – og það er galdurinn, galdurinn sem fær mann til að hugsa: það skiptir ekki öllu máli hvað maður þarf að sofa úr sér, það eiga allir skilinn sinn bedda.

Seinni myndin er frá aðallestarstöðinni, elsku bestu hlavní nádraží. Brautarpallarnir hafa lítið breyst á hálfri öld en það var meiri stemmning í gamla daga, það eru allir í kveðjusleik og brottför er fagnað með staupum – og síðan sjáum við unga menn hanga út úr lestargluggum að kveðja mannfjöldann. Tilefnið veit maður ekki, þótt það megi geta sér ýmislegt til – en svo hinkrar myndavélin þangað til allir eru farnir – og finnur tómar flöskur, rusl, minningar um mannfólk – og fer svo upp í rjáfur. Þetta stórkostlega þak á þessari mögnuðu lestarstöð, þakið sem fæstir muna eftir að horfa upp á. Við finnum hvernig þetta mannvirki hefur munað tímana tvenna, og 57 árum síðar, ennþá fleiri tíma, tíma sem fáir gátu ímyndað sér þá – en lestarstöðin kippir sér ekkert upp við.

Og jafn merkileg og vídjólist þeirra Wasulka-hjónana er þá verð ég samt pínu sorgmæddur yfir því að Woody hafi ekki gert fleiri heimildamyndir um hversdagslíf í gömlu Tékkóslóvakíu, því þessar myndir eru einfaldlega gullfallegur óður til löngu horfins hversdags.

Bónorð á stigagangi

Svo hefst loks heimildamyndin hennar Hrafnhildar Gunnars – og það líður ekki á löngu áður en Woody er búinn að biðja Steinu um að giftast sér. Hann biður hana um að bjarga sér héðan – þetta er í kommúnismanum miðjum og Steina samkvæmt mínum heimildum einn af fjórum Íslendingum í námi í Prag á þessum árum (ég hitti einn af hinum fjórum yfir bjór fyrr í vetur). Þau heimsækja þennan stigagang aftur og myndin er lunkin með að leyfa þeim hjónum einfaldlega að ganga um í eigin ævi, ef svo má að orði komast, og eitt slíkt atriði er það göldróttasta í myndinni – þegar Steina labbar inn í sýningarsal og segir „„Þarna eru hestarnir mínir!“ og tekur nokkur dansspor fyrir myndavélina, komin inn í eigið verk.

Það er af ýmsu að segja frá langri ævi og skiljanlega farið hratt yfir sögu. Myndin gefur okkur vissulega hugmynd um hvernig kvikmyndagerðarmaður og fiðluleikari fara út í vídjólist, sem var eiginlega aðallega af því þau voru dugleg að leika sér, en myndin er ekki síður aldarfarslýsing og karakterportrett.

Fyrstu kynnin í Prag fá sitt pláss en lengst stöldrum við við í New York á sextugnum og sjötugnum (já, það þarf að þróa þetta helvítis tungumál áfram og skilja sjöunda og áttunda áratuginn eftir á ruslahaugum sögunnar!), þar sem þau mynda Salvador Dali og fleiri rokkstjörnur og verða vel kunnug Andy Warhol, sem daðrar við Steinu í lyftu. Þau tala við hann á rúþensku, sem er náskyld tékknesku og slóvakísku, enda Warhol sonur innflytjenda frá rúþenskum uppsveitum Slóvakíu.

Þetta eru mikil rokk og ról-ár og nánast skilyrði að halda stöku sinnum partí þar sem allir fara úr fötunum. Steina segir þó að eftirá hafi hún áttað sig á að Bandaríkjamenn sjálfir væru hins vegar miklu púrítanískari en svo að þetta væri normið, þau væru hins vegar mitt í brottfullri evrópskri listasenu, og tékkneskum innflytjendum átti einmitt eftir að fjölga rækilega þegar skriðdrekarnir rúlluðu inn í Prag.

Woody sjálfan sjáum við einmitt á typpinu nokkrum sinnum, í húsinu sem þau kaupa seint á ævinni, þar sem sturtan og klósettið eru í yndislega skemmtilegum ör-herbergjum. Þetta virðist eiginlega nútímaútgáfan af hobbitahúsi – en fram að þessu hafði aðal áhersla þeirra hjóna verið á að fá gott „loft“, rúmgóðar þakíbúðir þar sem nóg pláss var fyrir listiðkun. Og maður andvarpar í sætinu og dreymir um þessi ár þegar ungir og sjálfsagt passlega blankir listamenn gátu bara leigt sér hundrað fermetra þakíbúð í Chelsea-hverfinu sísona.

Seinna eru þau plötuð til Buffalo til að kenna í listaakademíu og þótt það komi ekki fram í myndinni íhugar maður hvort þarna sé uppavæðingin að hefjast og listamennirnir að hverfa annað, en man svo að líklega gerðist það töluvert seinna. Þau voru bara að elta vinnuna, ekki finna sér ódýrari stað til að lifa á.

Þetta er analóg fortíð og maður finnur óvenju sterkt fyrir því – og raunar skemmtileg öfugmæli í mynd um listamenn sem unnu með byltingarkennda tækni og þróuðu áfram tungumál lista framtíðarinnar, að einmitt þar finni maður jafn sterkt fyrir möguleikunum í fábreyttari fortíð – þar sem Manhattan og Prag voru svo gjörólíkar borgir frá því í dag að mann svimar. Samt hafa borgirnar í raun ekki breyst svo mjög, það er miklu frekar samhengið sem þær eru í. Sem og erfiðleikastigið við að búa þar.

Reykjavík birtist okkur helst í myndinni sem staðurinn þar sem þau slá almennilega í gegn, þar eru yfirlitssýningar og ungar íslenskar listakonur verða í raun umboðsmenn þeirra og velunnarar og verða til þess að list þeirra selst skyndilega fyrir háar fjárhæðir og þau geta loks lifað í sæmilegu fjárhagslegu öryggi í ellinni, í hobbitahúsinu í Santa Fe. Eitthvað sem hefst raunar þegar önnur stúlkan hefur samband við Steinu, fyrst og fremst sem aðdáandi, en það samband sem þróast svo áfram.

Þegar myndinni líkur og ljósin kvikna þá birtist svo skyndilega spjallgluggi – það er verið að setja upp Skæp og skyndilega birtist andlit Steinu, mannhæðarhátt á tjaldinu. Okkar megin er spyrill og aðal-túlkurinn frá Karlovy Vary. Skjánum er beint að þeim og þetta er fyrst frekar hefðbundið – spurningar frá spyrli og úr sal, þangað til reffilegum gamlingja er boðið í sætið fyrir framan tölvuna og heilsar Steinu með virktum og hún heilsar honum Jiri með virktum, gömlum myndatökumanni og félaga – og það sama endurtekur sig seinna þegar hárprútt gamalmenni styður sig við staf og heilsar líka.

Undir lokin kemur svo í ljós að Steina hafði misskilið og haldið að við værum í sveitinni, mögulega á heimildamyndahátíðinni í Jihlava. Hún lifnar öll við þegar hún kemst að því að hún er í beinni útsendingu í Prag sjálfri og segir með blöndu af trega og feginleika að hún elski Prag, en:

„Ég sakna gömlu, hættulegu Prag. Þar sem leynilögreglan gat alltaf stoppað þig á hverju götuhorni.“

Og út frá samhenginu þá vissi ég að það voru engar ýkjur þegar ég labbaði út og heyrði á samræður reykingafólksins og einn gamlinginn sagði við unga stúlku: „Herbie Hancock, moj kamarad!“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson