Ég man ekki hvenær ég heyrði fyrst í Mugison, ég man bara hvenær ég byrjaði að elska hann. Þetta var mitt fyrsta (og ennþá eina, hvað er rugl er það?) Aldrei fór ég suður til þessa, árið 2005, og þetta var síðasta lagið. Hann og Ragnar Kjartans úr Trabant, sem hafði verið að spila, algjörlega trylltir og komnir úr flestum fötunum (að minnsta kosti Ragnar, líklega er Mugison eitthvað kulsæknari) – og tóku Gúanóstelpuna.

Þetta náði öllu; því að fara, því að koma aftur, að elska og hata örlitla krummaskuðið sem fóstraði mann. Fyrir utan að ná smábæjardjamminu og vera svona fallega erótískt á sinn grallaralega lágstemmda hátt. Svo ekki sé minnst á þegar slökkviliðsstjórinn (sem var einnig Papamug sjálfur) kemur og rekur alla út.

Svo var þetta lag lengi hvergi til nema einmitt þarna, það var ekki á neinni plötu og virtist hvergi vera spilað – og verandi fyrir tíma snjallsíma var ég mögulega eini lúðinn sem var með upptökutæki í salnum og átti þetta þar af leiðandi í tölvunni langt á undan flestum og spilaði þetta í öllum partíium í Öldugötunni þegar fólk var komið í trúnógírinn.

Þarna hafði Mugison þegar gefið út Lonely Mountain og ég pantaði Mugimama is This Monkeymusic vitaskuld í jólagjöf næstu jól. Það er alveg forvitnilegt að sjá hvernig Mugison hefur þróast sem tónlistarmaður, byrjar í raftónlistinni, fer í meiri söng og kassagítar, án þess að vera hræddur við hvers konar effekta, fer úr ensku yfir í íslensku, það er eitthvað vestfirskt við hann; þessi hæfileiki til að standa traustum fótum í náttúrunni og nútímanum, sagnalistinni og nýjustu tækni og þeim tveimur tungumálum sem umlykja okkur flest á þessari eyju (ásamt stundum fleirum).

Á Mugimama er djamm en hann er líka að segja útlendingum ægifagrar en sorglegar íslenskar draugasögur.

Og svo að syngja undurfagra dúetta með Rúnu sinni – hún er galdraefnið á þessari plötu og kemur við sögu í bestu lögunum. Vatnið gutlar á meðan, bæði í vaskinum og hafinu og fjallalindunum, á meðan fuglarnir tveir flögra um.

Nokkrum plötum seinna var hann svo orðinn fágaðri, þjóðlegri og já, líklega aðeins meiri stjarna. Tónlistin ekki alveg jafn yndislega sérvitringsleg en samt áfram mjög Mugisönsk. Á móti kom að það er veður á plötunni, það hafði vissulega verið undirliggjandi áður, en það er bullandi veður á Haglél – titillinn eru engin skrauthvörf, þú hlustar einfaldlega á þessa tónlist og lokar hurðinni til öryggis á meðan flugan liggur steindauð úr kulda á gólfinu.

En það kemur á endanum sumar, þótt platan heiti Haglél þá er samt sumar á henni – það má stinga af frá veðrinu, stressinu, skjánum, þegar sumarið kemur aftur. Og ég vona að sumarið komi fljótt aftur fyrir vestan, þetta er orðið ágætt af vetri í bili.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson