„Þeim var ég verst sem ég unni mest.“ Hvernig er hægt að umorða þetta fyrir það þegar listamenn hata sín bestu verk mest? Mögulega burtséð frá gæðum, frekar út af því sköpunin hafi verið of sársaukafull – en einmitt þá koma oft bestu lögin. David Boulter, hljómborðsleikari Tindersticks, var fenginn til þess að raða plötum sveitarinnar í gæðaröð og þar endar Waiting for the Moon meðst, síðusta plata sveitarinnar áður en hún hætti og endurfæddist seinna sem tríó: „Af því þetta var síðasta platan sem gamla Tindersticks gerðu áður en við hættum og tókum hlé. Ég held hún sé lituð að því. Það er tilfinning fyrir einhverju sem er glatað …“ segir hann, en það er einmitt þessi tilfinning sem gerir fyrsta lagið á plötunni að uppáhalds Tindersticks-laginu mínu.
Þar til morguninn kemur. Þetta er ægifögur músík um andvökuna, um að dreyma um að kyrkja ástina, en þó alveg jafn mikið um traustið. Vektu mig því mig dreymir, því þá mun aldrei gruna neitt. Það er stutt og óljós lína á milli ástar og haturs í þessum drungalega texta, ást að hverfa, ást sem reynt er að halda í – og hvernig sem þetta allt endar, þessi óendanlega fegurð þegar morguninn brestur á eftir andvökunótt.
Hann David Boulter er vel að merkja sveitungi minn, hefur búið hér í Prag síðustu tuttugu árin með Veroniku, tékkneskri eiginkonu sinni. Sem varð einmitt kveikjan af einu af mínum uppáhalds tónlistarmyndböndum. Það er við lagið Can Our Love, en þar kvikmyndar Martin Wallace þau hjónin að gangi um borgina, stundum saman en oftar sitt í hvoru lagi, enda tveir rammar í gangi. Hér birtist Prag í öllum sínum mörgu gervum, sporvagnarnir og metróinn fá sitt pláss, sem og tígulsteinagöturnar og bogagöngin í Nerudova, Moldáin og Lucerna-menningarmiðstöðin með sinni skrítnu og víðfrægu lyftu. Sem og rúllustigar og venjulegir stigar, drungalegir stigar og faldar knæpur. Þessar þröngu götur og aldagömlu hús sem glitra í rigningunni. Og allt þetta fólk, eins og þau, að koma og fara, og af einhverjum dularfullum ástæðum verð ég aðeins meira forvitin um það en í nokkrum öðrum borgum.
Þarna er líka meiri sátt – getur ástin vaxið enn meir? er aðalspurn textans.
Tindersticks hafa auk almennrar plötugerðar samið töluvert af kvikmyndatónlist, bæði sem hljómsveit og sóló. Sveitin hefur samið tónlist fyrir sjö myndir frönsku leikstýrunnar Claire Denis og Dickon Hinchcliffe, fyrrum meðlimur sveitarinnar, einbeitir sér nú að kvikmyndatónlist og samdi meðal annars tónlistina fyrir eina bestu mynd síðari ára, Leave No Trace. En mín eftirminnilegasta bíóupplifunin tengd sveitinni var þó þegar kreditlistinn rúllaði yfir lítt þekktri eistneskri útilegumynd, Kirsuberjatóbak (Kirsitubakas) og undir hljómaði undurfagur söngur Stuart Staples, forsprakka sveitarinnar, og Lhösu de Sela heitinnar. Lagið var That Leaving Feeling – og er af sólóplötu Staples sem heitir einfaldlega Leaving Songs. Að fara. Fara af því fortíðin hvílir á manni og framtíðin er svo lamandi. Fólkið sem breytist þegar maður yfirgefur það. Pakkar niður í ferðatösku brotum af hjörtum. Sem þeir mæta svo með til Keflavíkur í kvöld.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson