Ung stúlka klifrar meðfram brattri hæð, öruggum og fimum skrefum. Nema hvað, hún er ekki svo ung – þegar við sjáum framan í hana þá reynist andlitið markað hrukkum. Þetta er hún Hatidze og seinna segir hún okkur að hún sé fædd 1964, 55 ára gömul sumsé. Hún er að sumu leyti eldri í framan en það, það gera hrukkurnar sem eru þó frekar til marks um að hún hefur eytt heilu sumrunum úti í heitri balkanskri sólinni. Hún tilheyrir líka allt öðrum tíma, þótt þetta sé samtímamynd þá gæti hún hafa verið gerð 1719 rétt eins og 2019. Svona þangað til nútíminn bankar uppá, það er að segja.

En svo er hún líka afskaplega ung og stelpuleg. Hún hreyfir sig eins og orkumikill táningur, hlær eins og einhver sem er sífellt að uppgötva veröldina á ný og klæðir sig litríkum kjólum, frumbyggjakjólum sem víðast hvar eru orðnir tískuvarningur á meðan frumbyggjarnir sjálfir neyðast oft á móti að klæðast ódýrum jogginggöllum frá Rauða krossinum. Það væri einfaldast að lýsa þessu sem sígaunakjól, en hún Hatidze er hins vegar tyrknesk, tilheyrir tyrknesku þjóðarbroti í Makedóníu.

Svo er hún auðvitað ofurhugi. Senan sem ég er að lýsa er upphafsatriði myndarinnar Honeyland (sem og upphaf stiklunnar hér fyrir ofan) – og þar fetar hún sem fyrr segir brattan slóða eftir hárri hæð – og bankar svo á klettavegg og finnur þar býflugnabú bak við. Hún er sem fyrr segir bara í sínum litríka kjól, engum sérstökum hlífðarfatnaði – en dýfir samt hendinni inn, heilsar býflugunum eins og þeim gömlu vinkonum sem þær eru og nær sér í hunang í krukku. Þetta er falleg sena – en fyrir okkur venjulega fólkið sem erum alveg pínulítið lofthrædd og dauðhrædd við býflugur þá er þetta líka sena sem veldur því að maður nagar neglur og situr stífur á sætisbrúninni. Eða öllu heldur, maður myndi gera það ef maður skynjaði ekki að þetta er Hatidze jafn náttúrulegt og að drekka vatn. Þetta er meira eins og ég ímynda mér að væri fyrir trúaða að sjá Jesú ganga á vatni; það er óþarfi að hafa áhyggjur af því að hann drukkni. Þetta er jú hann Jesú, eða öllu heldur, þetta er jú hún Hatidze. Hún bjargar sér.

Hatidze er líka gömul og vitur – þótt heimurinn sé alltaf nýr fyrir henni er hann líka gamall og hún veit hvernig veröldin virkar. Hún nær í hunang og reglan er einföld, helmingurinn fyrir hana og helmingurinn fyrir þær. Þær býflugurnar.

Þessi samningur er ævaforn og heilagur og Hatidze syngur hann fyrir býflugurnar. Hann er ástæðan fyrir því að bæði býflugur og manneskjur geta þrifist í þessari sveit. Þær eru að vísu bara tvær eftir, Hatidze og háöldruð móðir hennar, sem virðist varla eiga mikið eftir. Þangað til nútíminn bankar uppá. Með nýrri fjölskyldu í sveitinni, fjölskyldu sem vill vel en skilur ekki þennan ævaforna samning og finnst eðlilegt að græða núna, frekar en að leggja hunang inn á reikning framtíðarinnar.

Þannig speglar myndin þann samningin sem við höfum öll, sem samfélag, rofið. Samninginn við býflugur heimsins. Núna loksins þegar við vitum að ef við skilum þeim ekki sínum helmingi af hunanginu þá munum við öll farast.

Þetta er líka mynd um veröld sem var. Einfaldari og einmanalegri, náttúru sem er ægifögur en einmanaleg um leið. Þar sem Hatitdze þarf að labba fjóra tíma til höfuðborgarinnar Skopje til að selja sitt hunang og kaupa sér í staðinn nauðsynjavörur og hárlit, í yndislegri borgarsenu snemma myndar. Maður þarf nú að hafa sig til í sveitinni líka, sjáiði til.

Þetta eru balkneskar stiklur, í bestu merkingu þess orðs, frumbyggjar sem birta okkur fortíð sem er ekki alveg horfin. Ennþá. Og við erum hægt og rólega að átta okkur á því hvað það kostar okkur ef hún hverfur alveg.

E.S.: Loks má svo sjá magnaða heimildamynd um gerð myndarinnar hér að neðan – þetta kortér ætti að vera fyrirtaks innblástur fyrir alla metnaðarfulla heimildamyndagerðarmenn.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson