Löngu áður en Hildur Guðnadóttir vann Óskarinn var ein uppáhaldsspurningin mín í einnar spurningar pöbbkvissum á síðkvöldum þessi: Hver er eina Óskarsverðlaunastyttan sem er á Íslandi?

Fólk klóraði sér í hausnum, mestu bíónördarnir voru steinhissa og þóttust vissir um að við hefðum aldrei unnið, þótt tilnefningarnar væru nokkrar – og hugsuðu svo, eða hvað? Misminnti mig, vann Björk kannski eftir allt saman? Eða Börn náttúrunnar eða Síðasti bærinn eða Jóhann Jóhanns? Vann Damon Albarn kannski Óskar og geymir hann á kaffibarnum? Gleymdi Tarantino kannski handritsóskarnum sínum þar? Vann Marlene Dietrich kannski Óskar og skyldi hann eftir þegar hún gisti á Hótel Tindastól á Sauðárkróki, sælla minninga?

Nei, um var að ræða mynd sem hafði ekki einu sinni komið í bíó á Íslandi (skamm Sambíó og Sena!) og Óskarsverðlaunahafa sem hafði ekki básúnað tengsl sín við Ísland neitt sérstaklega, enda virkar hún svona frekar hæglát þegar kemur að fjölmiðlum. En þeir sem til þekktu vissu þó að hún Markéta Irglóva bjó úti á Seltjarnarnesi og hafði búið þar lengi, með íslenskum eiginmanni, honum Sturlu Míó Þórissyni tónlistarmanni, börnum þeirra og hundi. Ég frétti að vísu fyrst af hundinum þegar ég las Moggafrétt um málið, þar sem fram kemur að hún hafi nú búið á Íslandi í átta ár, tali málið vel og hefur sótt um ríkisborgararétt, og blaðamaður megi vel kalla hana Íslending þótt ríkisborgararétturinn sé ekki formlega í höfn. Já, og gefið ykkur tíma til að horfa á myndbandið með fréttinni – hreint prýðilegt viðtal hjá Halli Má.

Leitin að Prince Charles

En löngu áður en þau Míó tóku saman var ég á löngu ferðalagi um Evrópu og átti eitt aðalerindi, svona þegar kom að menningarneyslu: að finna Once í einhverju bíói, verandi orðinn úrkula vonar um að kúltúrlaus íslensku bíóin myndi nokkru sinni sýna hana. Myndina fann ég svo í því sögufræga bíói Prince Charles Cinema í London. Og varð ekki fyrir vonbrigðum: ég var loksins búinn að finna uppáhaldssöngleikjamyndina mína.

Þar spilaði vissulega inní að ég hef alltaf átt dálítið erfitt með þá söngleikjahefð að bresta í söng við öll möguleg og ómöguleg tækifæri, syngja jafnvel þegar mun auðveldara væri að tala bara. Svara spurningunni „seljið þið pylsur hérna?“ með þriggja mínútna lagi frekar en segja bara já eða nei. Slíkir söngleikir geta vissulega verið frábærir, samanber Singin‘ in the Rain og West Side Story, en hitt er miklu algengara að þeir ná einfaldlega ekki að selja mér þennan sísyngjandi heim.

Once er hins vegar einn af þessum alltof sjaldgæfu söngleikjum þar sem tónlistin kemur þar sem er eðlilegt að hún komi, það mætti raunar vel kalla hana sósíal-raunsæan söngleik. Önnur dæmi um slíka söngleiki í kvikmyndasögunni eru kannski frægust Cabaret og The Commitments (þar sem Glen Hansard lék einmitt smáhluverk), en það er samt miklu meiri fantasía í þeim myndum en Once.

Plottið er giska einfalt í grunninn, írskur strákur er að böska í Dublin, hann kynnist stelpu sem er líka tónlistarmaður og þau verða vinir og ákveða á endanum að taka upp plötu. Þau eru aldrei nefnd í myndinni, eru bara strákur og stelpa, og þau syngja bara þegar það er eðlilegt að þau syngi – í stúdíói að æfa saman eða sitt í hvoru lagi, eða böskandi á götum Dyflinnar. Þess á milli tala þau bara saman ef þau þurfa að komast að því hvar sé hægt að kaupa pylsur og hvar ekki, eins og eðlilegt fólk.

Hann er írskur, hún er tékknesk. Hann aðeins eldri, hún aðeins yngri. Það undirstrikar líklega muninn á þeim; þótt bæði séu strögglandi listamenn er hann samt karlmaður úr allsnægtarsamfélagi sem reiknar alltaf með að meika það á endanum, það var draumurinn sem honum var seldur. Hún er hins vegar stelpa úr fyrrum kommúnistaríki þar sem menn eru enn að venjast frelsinu. Hún er minni í sér en á hins vegar auðveldara með að sækja langt inn í kjarna að einhverjum ævafornum sannleik og tærum tónum.

Lagið sem þau unnu svo óskarinn fyrir saman var „Falling Slowly.“ Það sömdu þau Markéta og Glen Hansard saman, eins og flest lögin – og ég mun alltaf elska Jon Stewart fyrir að kalla Markétu aftur á svið eftir að hljómsveitin hafði þaggað niður í henni.

Lagið er undurfagurt, eins og flest lög myndarinnar. Við sjáum þau spila tvö saman, þetta er lagið sem færir þau nær hvort öðru sem tónlistarmönnum, gerir þau að bandi í mótun. Eftirfarandi laglínur súmmera svo myndina ágætlega upp:

And games that never amount

To more than they’re meant

Will play themselves out

Því þessi leikur endar einfaldlega á því að þau verða tónlistarsálufélagar. „more than they‘re meant“ væri væntanlega ástarsambandið sem Hollywood hefði bætt við, en það gerist aldrei, sem gerir þó dýnamíkina á milli þeirra bara rafmagnaðri.

Að öllu þessu sögðu – og alls ekki til að gera lítið úr Hansard, sem er frábær tónlistarmaður – þá eru bestu lögin þessi tvö sem Markéta syngur ein. Annað þeirra er „The Hill,“ þar sem hún kafar alla leið, lengst niður á sálarbotninn, til að finna músíkina og orðin sem þar er að finna. Líklega er það besta lagið. Um mistökin sem við gerum í visku okkar, um fortíðina og glóðina inni í okkur.

Lagið sem er samt best í myndinni sjálfri er þó „If You Want Me“ (það er líka til útgáfa af því með þeim báðum). Af því þar fer hún út í búð á náttfötunum til þess að kaupa batterí í vasadiskóið sitt og byrjar að syngja með tónlistinni á leiðinni til baka, skyndilega hverfum við örskotsstund út úr sósíal-realismann og inn í söngleikinn, fantasíuna; einmitt með því að brjóta eigin reglur einu sinni og bara einu sinni þá nær myndin hápunkti sínum. Þetta er alvöru töfraraunsæi, það raunsæi að vita að stundum týnum við okkur í eigin fantasíuheimi á meðan við löbbum heim úr kjörbúðinni á náttfötunum. Og erum ekki viss um muninn á draumum og sannleika:

Are you really here

Or am I dreaming

I can’t tell dreams from truth

Auðvitað eiga Markéta og Glen Hansard ekki allan heiðurinn af myndinni, leikstjórinn John Carney er aðalhöfundur myndarinnar og hefur gott lag á að gera svona myndir eins og seinni verk hans, Begin Again og Sing Street vitna um. Sú fyrri er raunar nánast eins og endurgerð á þessari í amerísku samhengi, þar sem lífsleiður starfsmaður hjá plötufyrirtæki, Mark Ruffalo, uppgötvar söngkonuna Keiru Knightley fyrir tilviljun á hverfispöbbnum. Sú mynd kom mér á óvart, hún var að mörgu leyti litlu síðri en Once, sagan og leikurinn engu síðri og hún Keira syngur barasta alveg prýðilega.

Svo kom ég heim og fór að spila tónlistina úr myndunum til skiptis og þá vitraðist mér munurinn. Í tónlistinni í Once heyrum við nið aldanna. Maður heyrir stundum tónlistarmenn á borð við karakter Keiru í Begin Again spila á kaffihúsum og börum og hugsar: helvíti er hún góð, hún gæti alveg slegið í gegn, á það að minnsta kosti alveg skilið. En hitt gerist miklu sjaldnar, að tíminn standi í stað og allir sitja grafkyrrir og hlusta af því þeir vita að þetta er tónlist úr öðrum heimi sem við fáum ekkert að heimsækja alltof oft á ævinni. Þetta er eitthvað alveg einstakt.

Dylan, Spielberg og Bíó Paradís

Það vissu þeir, gömlu skröggarnir Bob Dylan og Steven Spielberg, sem kynntu mig upphaflega fyrir myndinni og voru ástæða þess að ég leitaði af henni um Evrópu vorið 2008. Þeir voru tveir af helstu stuðningsmönnunum fyrstu metrana, svo ég rifji upp örstutta klausu sem ég skrifaði í Lesbókina sálugu, þar sem einnig er farið aðeins yfir baksögu myndarinnar:

„Þeir Steven Spielberg og Bob Dylan eru sammála: írska myndin Once er einhver besta mynd ársins.Once kostaði þó líklega álíka mikið og ein mínúta í venjulegri Spielberg-mynd. Þessi írska ástarsaga fjallar um götutónlistarmann í Dublin og tékknesku stúlkuna sem hann hittir kvöld eitt. Telpan á unnusta heima í Tékklandi sem hún er trú en þess í stað er ástarsagan sögð í tónum, enda Once giska óvenjuleg söngvamynd – þau eyða kvöldinu í að flakka um borgina og búa til tónlist, sem á endanum segir söguna. Upphaflega ætlaði leikstjórinn John Carney að fá írska leikarann Cillian Murphy í aðalhlutverkið en þegar það brást fékk hann Glen Hansard til þess að leika götuspilarann. Leikreynsla Hansard takmarkaðist við örlítið hlutverk í The Commitments – en hann er hins vegar ágætlega þekktur sem liðsmaður írsku sveitarinnar The Frames, en þar lék leikstjórinn Carney eitt sinn á bassa. Hansard hafði sjálfur spilað á götum Dublinar þegar hann var yngri og þekkti ágætlega hina tékknesku Markétu Irglová, sem er ekki síðra undrabarn í tónlist en Hansard og spilar á öll möguleg hljóðfæri auk þess að syngja þótt hún hafi aðeins verið átján ára gömul þegar myndin var tekin. Þau höfðu spilað saman áður og semja og flytja öll lögin í myndinni sjálf. Þau hafa haldið áfram að spila saman í kjölfar myndarinnar og eru að auki orðin par. Svo hreifst Bob Dylan af myndinni að hann fékk The Frames til þess að spila með sér á tónleikaferð sinni og Steven Spielberg lýsti því yfir í viðtali að hann hefði fundið þessa yndislegu litlu írsku mynd sem myndi duga honum sem innblástur það sem eftir væri árs. Við getum þá væntanlega farið að hlakka til að heyra Harrison Ford taka nokkur angurvær lög um það að vera einmana fornleifafræðingur í fjórðu Indiana Jones-myndinni.“

Þau eru vissulega ekki ennþá par, hafa sjálfsagt fattað að það myndi eyðileggja endin í myndinni, sem snýst einmitt um að þau eru tónlistarsálufélagar en ekki elskendur.

Loks er rétt að minnast á það að um áramótin næstu þá kom myndin við sögu í uppgjörspistli um bíóárið sem ég skrifaði í þessa sömu Lesbók. Það sem var kannski óvenjulegt var að hún var önnur tveggja mynda sem hafði ekki ratað hingað í bíó, enda ekkert Bíó Paradís komið til sögunnar.

„Sjálfsagt vekur athygli einhverra að tvær myndanna á listanum rötuðu aldrei hingað í bíó, þrátt fyrir að önnur væri Óskarsverðlaunamynd og ásamt Juno stjarna ársins í indíheimum – Once – og hin skartaði stjörnufans – Gone Baby Gone í leikstjórn Ben Affleck. Við erum ekki að tala um sómalískar myndir um fóstureyðingu, þetta eru myndir sem er erfitt að sjá rök fyrir að hafi ekki ratað hingað þrátt fyrir kverkatak Hollywood á íslenskum bíóhúsum. En íslensk bíóhús hafa hægt og rólega orðið blindari en markaðurinn sjálfur og sópað ófáum gæðamyndum undir teppið jafnvel þótt einsýnt virðist að myndirnar ættu að geta gengið þokkalega, að minnsta kosti betur en The House Bunny og annað hrat sem okkur var boðið upp á á liðnu ári.“

Rúmu ári seinna bárust fréttir um að Regnboginn væri að leggja niður laupana. Það var kornið sem fyllti mælinn, enda hafði Regnboginn þó staðið sig hvað skást í því að sinna bíógestum sem vilda eitthvað meira en bara poppkornslagðar Hollywood-myndir. Upp úr þessu ófremdarástandi var Bíó Paradís stofnað og áratuginn eftir að þessi pistill var skrifaður hefur ástandið verið allt annað, og miklu betri líkur en áður að bestu myndir ársins rati til Íslands.

Núna vofir þó enn hættulegri ógn yfir – að Bíó Paradís hverfi af sviðinu, og ef það gerist eru söguleg fordæmi fyrir einmitt verstu hrakspánum – að þá munum við einfaldlega ekki fá allra bestu ársins í bíó landsins lengur. Og þá yrði illa komið fyrir meintri bíóþjóð.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson