Sumarið eftir að ég byrjaði í HÍ fékk ég mína fyrstu alvöruvinnu í Reykjavík, sem næturvörður á Farfuglaheimilinu í Laugardal. Þetta voru sumarnætur þannig að það varð sjaldan dimmt – en maður sá nú samt sjaldan sólina á vakt. Nema auðvitað ef einhver hafði pantað bílaleigubíl kvöldið áður, þá kom Raggi Bjarna svífandi inn stíginn upp að hostelinu eldsnemma að morgni, skínandi eins og sól í heiði, bauð góðan daginn og lét mig fá bíllyklana. Þetta voru alltaf bestu vaktirnar, þegar maður gat tekið smá Ragga-stemmningu með sér í strætó heim, þessa stemmningu þar sem menn beinlínis svífa um eldsnemma á sumarmorgnum.

Hann var samt líklega í lægð þarna, tónlistarferillinn. Kominn yfir sextugt og ný kynslóð tekin við. En fljótlega upp úr þessu fóru menn að átta sig á hvílíkt þjóðargersemi maðurinn var, maðurinn sem alltaf hafði verið talinn maður augnabliksins var að breytast í mann eilífðarinnar, mannin sem geymdi öll þessi löngu liðnu augnablik.

Hann var kynslóðin sem var að hverfa, ekki jafn tregafullur og Villi Vill, Haukur Morthens og Ellý – þau voru angurvær tungl á meðan hann var sólin. Sem hverfur þó alltaf í sæ að lokum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson