The Roads Not Taken lítur prýðilega út á pappír. Sally Potter leikstýrir – og hún var á Berlinale síðast með þá sótsvörtu kómedíu The Party. Leikhópurinn er svo ekkert minna en frábær, Elle Fanning, Javier Bardem, Salma Hayek og Laura Linney eru hér í aðalhlutverkum.

Vandinn er hins vegar að sagan villist hér alltof oft af leið. Bardem leikur föður sem virðist hafa hlotið einhvers konar heilablóðfall, þeir sem til þekkja að afleiðingar heilablóðfalla geta verið ansi fjölbreytt – minnisleysi, málstol og skert hreyfigeta þar á meðal, auk annars sem ég kann ekki að nefna – og faðirinn  Leo, sem Bardem leikur, virðist hafa hlotið einhvern óræðan kokteil af þessu öllu. Stór hluti myndarinnar er svo sagður í gegnum endurlit hans, þar sem æskuástin Salma Hayek kemur við sögu – og það er nokkuð skemmtileg ákvörðun að þeirra æskusjálf eru leikin af þeirra miðaldra sjálfum, þannig renna bernskuminningarnar saman við raunveruleika nútímans – miðaldra fólk mögulega að dreyma hvert annað úr fjarlægð.

Það er að vísu málum blandið með hvað eru minningar og hvað möguleikar um líf sem aldrei varð, samanber titilinn, allar beygjurnar sem þú tókst ekki, leiðirnar sem þú getur aðeins getið þér til um.

Vandinn er hins vegar að persóna Leo er aldrei teiknaður nógu sannfærandi upp, þannig að jafnvel frábær leikari eins og Bardem nær ekki alveg að tengja okkur almennilega við hann.

Myndin er þó þrátt fyrir þetta með eitt risastórt tromp upp í erminni – tromp sem ætti skilið miklu betri mynd. Hún Elle Fanning heldur myndinni algjörlega saman með hreint stórkostlegri frammistöðu, sem kemur auðvitað ekkert á óvart – fáar leikkonur hafa jafn mikið næmi fyrir persónum sínum og systurbetrungurinn Elle og hér túlkar hún dótturina Molly, sem er samferða föður sínum í gegnum daginn – og þarf að glíma við allt skilningsleysi heimsins, hversdags-rasismann sem Leo (sem fæddist í Mexíkó en er löngu orðinn amerískur ríkisborgari) getur ekki lengur svarað fyrir og eigin harm yfir því að faðirinn sé farinn, þótt hann sé hérna enn. Í gegnum hana krystallast allt sem er gott við myndina, allt sem er fyndið og tragískt við hana. Hún nær örvæntingu þess fyrirfram-föðurmissis sem þetta ástand getur verið af fágætri og dýrmætri næmi.

En finnið endilega Mar adento ef þið viljið góða mynd með Javier Bardem á sjúkrabeði, tékkiði á meistaraverkinu You Can Count on Me ef þið viljið sjá Lauru Linney í stuði og horfiði á Fridu ef þið viljið góða Selmu Hayek-mynd. Þau eru samt öll góð í flestu, en gott ef Fanning er ekki sú eina þeirra sem er alltaf góð, jafnvel þegar myndin í kringum hana er að hrynja. Og mögulega aldrei betri en einmitt hér.

E.S.: Þótt við höfum verið á sitt hvorum pólnum með myndina er ég samt merkilega mikið sammála mörgu sem Haukur Már telur upp í þessari fínu rýni hérna.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson