Xhafer er kósóvskur innflytjandi í Þýskalandi sem vinnur í efnaverksmiðju. Hann á þýska eiginkonu og talar prýðilega þýsku, hann virðist uppfylla það að vera ágætlega aðlagaður.
Nema hvað, vinnufélagarnir „gleyma“ að senda honum tölvupósta og hunsa hann við hvert tækifæri, auk þess sem hann fær miður geðslegar sendingar í pósti frá leynilegum hatusmanni, sem hann grunar að sé sömuleiðis samstarfsfélagi.
Nú getur vel verið að allt sé þetta smáræði, þetta sé bara í hausnum á honum. Þetta eru ör-áreiti sem safnast saman – og hægt og rólega verður úr heildarmynd, sem mögulega er hans eigin oftúlkun en kannski bara einmitt sannleikanum samkvæmt.
Það flækir málin að hjónabandið virðist vera að molna að innan, eiginkonan segist vera að sjá um þrjú börn á meðan hún reynir að þykjast skrifa doktorsritgerðina, þriðja barnið verandi það stærsta, Xhafer sjálfur. Hún er orðin þreytt á að hann kenni þjóðerni sínu og mögulegum rasisma um allt – og maður veltir fyrir sér; þekkir hún hann það vel að hún þekki mynstrið, þekki afsakanirnar, eða heldur hún að hún viti nóg sem maki til að telja allt í himnalagi, þótt hún hafi aldrei raunverulega þurft að vera í þessum sporum sjálf? Og virðist ekki hafa neinn hug á því, hún tekur hann ekki einu sinni alvarlega þegar hann stingur upp á að þau búi einn vetur í Kósóva, bara til að prófa það. Hún vill ekki vera „hinn,“ mögulega finnst henni einkennilegt að fara úr alsnægtaþjóðfélaginu í fátæktina – en skilur ekki að það er ekki það sem knýr spurninguna, heldur miklu frekar þörf Xhafers fyrir að vera heima, þar sem hann er ekki öðruvísi.

Hún spyr raunar á einum stað: „Getur verið að þeir séu ekki leiðinlegir við þig af því þú sért útlendingur, heldur af því þú ert svo leiðinlegur?“ Þetta upplegg hefði raunar gert myndina mun forvitnilegri, en maður sér fljótt á vinnsutaðnum að hann er uppfullur af þumbaralegum Þjóðverjum, sem eru kannski ekki beint augljósir rasistar – en sannarlega ekki menningarlega næmir, og rugla til dæmis eilíflega saman Kósóva og Króatíu, þótt ólíkari lönd finnist ekki á Balkanskaganum, þótt fyrsti stafurinn sé sá sami.
Xhafer sjálfur er kannski enginn skemmtikraftur, en hann er samt algjört sjarmatröll samanborið við flesta vinnufélagana. En örvæntingin sem hann upplifir breytir honum samt hægt og rólega í skrímsli, eða öllu heldur – stöku sinnum sleppur skrímslið út. Það gerir sjaldnast neinn usla, gerir ekkert alvarlegt af sér, hann nær að stoppa það. En maður sér hvernig grimmd getur af sér grimmd og maður sér líka að einelti er margvítt og ekki bara bundið við hefðbundna fordóma, eitthvað sem hann fær að finna fyrir síðar.
Myndin gerist mestöll á þessu óræða óþægilega svæði, þessu svæði sem er svo erfitt að koma orðum að. Við kunnumst örugglega mörg við það, þótt á annan hátt sé. Þessa upplifun að vera ekki í klíkunni, að fá ekki bitlingana og sénsana sem þú sérð ýmsa aðra í kringum þig fá, ítrekað, án sýnilegrar góðrar ástæðu.
Og einhvern veginn finnst manni rétt að taka fram að leikstjórinn er kósóvskur, hann Visar Morina, hér er ekkert menningarnám á ferð. Mišel Matičević leikur aðalhlutverkið prýðilega og Sandra Hüller leikur eiginkonuna, „great as always“ segja flestir dómarnir en það er orðum aukið – hún er sannarlega ágæt en hlutverkið kannski helst til litlaust.

Það má finna snert af Kafka sem og Office Space og The Office í myndinni, en Hüller og meðframleiðandinn Maren Ade gefa þó sterkustu vísbendinguna hvernig best sé að ættfæra myndina – báðar komu þær að Toni Erdmann, einni bestu mynd síðasta áratugar, sem aðalleikkona og leikstjóri og um margt er takturinn hér og lúmskur húmorinn svipaður.
Húmorinn nær samt aldrei alveg jafn vel í gegn og hlýjan ekki heldur, en samt er eiginlega stærsti galli myndarinnar, sá galli sem kemur í veg fyrir að hún sé virkilega góð, einfaldlega myndatakan. Þetta er mynd sem er full af dökkum skotum – það er alltaf rökkur og myrkur, dauflegt frekar en tælandi eða leyndardómsfull, og þótt það passi sögunni svo langt sem það nær dregur það hana niður – fjarlægir áhorfandann einfaldlega frá sögunni, sem gerist í einhverju rými sem þeir bókstaflega sjá ekki nógu vel.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson