Það er fullkomlega óþolandi kona á bak við mig í Berlinale Palast, þangað sem ég er mættur snemma til að ná góðu sæti fyrir nýjustu Pixar-myndina, Onward.

„Hver er þetta?“ spyr hún endalaust þegar einhver birtist á skjánum, einhver gestur sem er um það bil að fara að ganga rauða dregilinn. Þess á milli kvartar hún yfir að sessunautar hennar, sem mér heyrist ekki þekkja hana neitt, nenni ekki að tala við hana. Við spurningum hennar voru svo sem ekki merkileg svör, þetta voru bara leikstjórar og framleiðendur myndarinnar, Hollywood-stjörnurnar sem léðu persónunum rödd sína sátu heima. Mögulega hefði hún þekkt Tom Holland eða Chris Pratt, Köngulóarmanninn og Stjörnulávarðinn sem leika bræður í myndinni.

Loks birtist leikstjórinn Dan Scanlon uppi á sviði, segir okkur frá því að sagan sé sannarlega persónuleg – hann hafi misst föður sinn ungur, enda sagan hugleiðing um hvernig hægt er að kljást við svona snemmbúinn föðurmissi löngu seinna.

Upplegg myndarinnar er í grunninn tvíþætt; annars vegar söguheimurinn og svo persónulega sagan sem gerist innan þessa heims. Söguheimurinn er útskýrður snarplega í byrjun, svo snarplega raunar að ég hélt fyrst að þetta væri ein af stuttmyndunum sem stundum eru á undan Pixar-myndunum. Sumsé, einu sinni var heimurinn stútfullur af göldrum, en vandinn var að það var ekki öllum gefið að galdra. Til þess þurfti bæði ákveðinn galdramátt og að kunna að lesa í gamlar skræður. Þannig að þegar nútímatækni kom fram á sjónarsviðið hurfu galdrarnir fljótlega, enda gat hvaða vitleysingur sem er kveikt á ljósaperu, þótt það væri alltaf slökkt á perunni í hausnum á honum.

Þetta lofar nokkuð góðu, minnir á ansi forvitnilegar pælingar í Fables-bókaflokknum þar sem stríð þar sem ævintýraheimum og mannheimum slær saman fær athyglisvert tvist, þegar nútímatækni tekst á við galdra, tvær gerðir tækni í raun – önnur útskýranleg og hin ekki, en hvoru tveggja stórhættulegt í röngum höndum.

En aftur að Onward. Næst stökkvum við inní galdralausan nútímann, sem er þó öllu göldróttari en við eigum að venjast, enda troðfullur af verum sem við teljum til ævintýranna, kentárar, drekakonur og auðvitað tröll, eins og bræðurnir tveir.

Annar tröllstrákurinn er lítill og inni í sér, sá eldri er utanvelta en lætur það þó ekki trufla sig, hann er stoltur rokkari og keyrir sinni ryðdollu um bæinn, hvað sem öðrum, þar á meðal litla bróður, kann að finnast um það. Hann er líka galdranörd, sem í þessum heimi, þar sem galdrarnir voru raunverulegir og hluti af mannkyns(tröllkyns?)sögunni, þýðir að hann er kallaður sögunörd, frekar en leikjanörd. Þetta er skemmtilegur samsláttur sem hefði mátt gera miklu meira með.

En svo fer persónuleg saga bræðrana að birtast okkur. Pabbinn var víst göldróttari en tvævetra, og skildi eftir bæði galdrastaf og leiðbeiningar um galdur sem gæti fært hann þeim aftur í heilan sólarhring. Nema hvað, og þetta er nokkuð skýrt í stiklunni, þá tekst galdurinn aðeins að hálfu leyti og aðeins neðri hlutinn birtist. Sem þýðir að það sem eftir er myndar eru þeir bræður í kapphlaupi við tímann að finna galdrasteininn sem getur fært þeim efri hluta föðursins, þótt ekki sé nema í örskotsstund.

Uppleggið er að mörgu leyti ágætt, en vandinn er kannski þessi:  Einu sinni voru Pixar-myndir stútfullar af göldrum. Eru það enn margar, í sjálfu sér hefur lítið breyst – stundum eru þær stútfullar af göldrum og stundum eru þær tæknilega vel gerðar en ó-göldróttar að mestu, eins og þessi. Húmorinn er oft ágætur, þótt hann sé sjaldnast drepfyndin. Bestu brandararnir snúast um galdraverur sem hafa látið temja sig í afskaplega mennsk störf og keyra bílum sem fara ekkert hraðar en þau myndu fara á stökki, samanber kentárinn góða, stjúpföður þeirra, og drekakonuna sem eitt sinn var snælduvitlaus bardagakona en er núna bara að reka klisjukenndan þemabar til að eiga fyrir skuldunum og er löngu búinn að veðsetja galdrasverðið sitt. Þeirra göldrótta ævintýrasjálf hefur vikið fyrir hversdagssjálfinu sem þarf til að borga reikningana.

Verst er þó að það er eins og höfundarnir séu þokkalegir brandarakarlar – en því miður ekkert sérstaklega djúp tilfinningaskáld. Þannig falla flest hugljúfari augnablik sögunnar flöt, það vantar einhverja dýpt, þrátt fyrir einlægan upprunan er einhver verksmiðjulykt af þessum tilfinningum.

Niðurstaðan er því Pixar-mynd sem er ágæt, en alls ekkert meira. Skárri en leiðindi eins og Finding Nemo og Wall-E, en mynd sem kemst hvergi nærri teiknimyndagaldraverkum á borð við Ratatouille, The Incredibles, Up og Inside Out.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson