Petite fille. Litla stúlkan heitir myndin. Og fjallar um Söshu. Litla stúlku sem er nýbyrjuð í grunnskóla. Það tók tíma að eignast vini en núna á hún nokkra góða vini og líður að mörgu leyti þokkalega. En það er eitt sem plagar hana – hún var fædd með typpi og þótt hún skilgreini sig að öllu leyti sem stelpa segir skólabúningurinn sem henni er gert að klæðast aðra sögu.

Við sjáum Söshu vel að merkja aldrei í skólanum – skiljanlega, þetta er heimildamynd og líklega nánast vonlaust að fá samþykki allra foreldra og starfsmanna skólans fyrir heimildamyndagerð, eðlilega.

Þess vegna er myndin að mestu takmörkuð við Söshu og fjölskyldu hennar, sem og einn félagsráðgjafa. Aðalpersónur myndarinnar eru í raun tvær, Sasha og mamma hennar – sem sést ekki mikið en dæmigerður rammi er líklegur til að sýna okkur myndir af Söshu á meðan móðirin talar.

Móðurina hafði langað í dóttur, enda hafði hún skömmu áður misst fóstur, sem var kvenkyns. Hún hafði aldrei orðað þessa ósk, þetta var bara ósk í laumi, og ekki einu sinni svo alvarleg, hún hefði vafalaust verið fullsátt við strák. En núna kennir hún sjálfri sér um; hún óskaði en óskaði ekki nógu heitt, eða of heitt, og núna er Sasha stelpa föst í strákalíkama.

Móðirin veit nefnilega að jafn innilega og hún og fjölskyldan styður Söshu í þessu öllu veit hún að þetta gerir allt erfiðara, erfiðara fyrir stelpu sem á eftir að fara á mis við margt af því sem flestir kalla eðlilega barnæsku. Þetta plagar krakkana sem hún umgengst ekki svo mikið, aðalvandamálið er bekkjarkennarinn og skólastjórinn sem virðast vera algjörar risaeðlur. Og núna bíða þær eftir fundi, sem öllu gæti skipt – hvort Sasha fái að mæta í skólann að hausti sem stelpa, en ekki strákur.

Sú Sasha sem við sjáum er raunar afskaplega stelpuleg að öllu leyti, unglingssystir hennar er raunar miklu strákalegri ef eitthvað er með sinn drengjakoll. En það breytist vitaskuld þegar í skólann kemur og karlkyns skólabúningur tekur við, þjóðfélagið að ákveða þína eigin sjálfsmynd fyrir þig.

Við sjáum félagsráðgjafann ræða við þær mæðgur um skólann sem og framtíðina, mögulegar kynleiðréttingaaðgerðir þar á meðal.

Við sjáum tár renna niður kinnar Söshu þegar hún þarf að rifja upp það versta sem hún hefur lent í, en annars er hún hörð af sér, beygir aldrei af leið, svarar spurningum skýrt og skilmerkilega.

Og það er þetta tvennt sem er best við myndina; bæði það að fá þessa fallegu svipmynd af ungri stelpu sem vill bara fá að vera það sem hún veit að hún er, og hins vegar hvernig hún nýtir sömuleiðis form heimildamyndarinnar til þess að svara öllum þessum spurningum sem margir kunna vafalaust ekki við að spyrja, um aðgerðir og viðbrögð kerfisins.

Sumsé, fínasta heimildamynd og ég gæti vel ímyndað mér að fyrir foreldra í svipuðum sporum gæti myndin verið algjör guðsgjöf – þótt blessunarlega séu Íslendingar almennt lausir við helvítis skólabúningana.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson