Konan sem hljóp gerist í Seoul. Mjög hversdagslegri Seoul, blokkaríbúðum og matjurtagörðum – enginn brjálaður brútalismi en fátt litríkt heldur. Hún Kim Min-hee í hlutverki Gamhee er í nánast öllum senum, hún heimsækir vinkonur – þetta er dæmigerð Hong Sangsoo mynd að flestu leyti, hér er mikið talað og erfitt í fyrstu að greina mikið plott.

Ég hef samt bara séð örfáar myndir þessa ofvirka leikstjóra, sem hefur gert 27 myndir á 25 árum. Þær fyrri fjölluðu aðallega um karla að tala, þessi og hinar sem ég hef séð hafa frekar fjallað um konur að tala, sérstaklega þessi. Karlarnir sjást aðeins í örfáum senum, sem örlítil truflun.

Þær eru ekkert endilega að tala um neitt merkilegt, þetta er að mestu leyti banal samræður – en afskaplega náttúrulegar og inn á milli villist eitthvað fyndið eða eitthvað sem skiptir máli fyrir líf aðalpersónanna. Sem gerir þær glettilega raunsæar, við þurfum tilhlaup að flestum trúnaðarsamtölum – og stundum er trúnaðurinn bara örfáar setningar inn á milli léttvægara hjals.

Við vitum aldrei alveg hvaða konu titillinn vísar til, konunnar sem hljóp – það koma vissulega nokkrar minni persónur til greina – en maður hallast þó að því að þetta gæti verið framtíðarspá um aðalpersónuna Gamhee. Hún segir öllum vinkonum sínum að hún hitti eiginmann sinn á hverjum degi. „Hann segir að ástfangið fólk eigi alltaf að vera saman.“ Hún tekur samt aldrei ábyrgð á þessu prinsippi sjálf – og eiginmaðurinn sést aldrei. Þetta er samt frekar órætt allt saman, er hún bara að velta þessu fyrir sér eða er hjónabandið raunverulega á brauðfótum?

Svo eru litlir brandarar inná milli sem geta verið lúmskir og dálítið frábærir. Eins og þegar ein konan segir um einn listamann: „Hann endurtekur sig bara, hvernig getur hann verið einlægur?“ Eitthvað sem á betur við fáa listamenn en Sangsoo, sem hefur gert endurtekninguna – með alls kyns útúrdúrum, vissulega – að sinni list.

Það besta við myndina er þó að í henni má finna langbesta atriði keppninnar og gott ef ekki bara ársins. Kattafóbískur nágranni mætir og biður nágrannakonuna að hætta að gefa útigangsköttunum – sem hann kallar „ræningjaketti.“ Þau tala í kross, henni dettur ekki í hug að taka undir það sem er undirliggjandi hjá honum og neyðir hann til að segja hlutina berum orðum – og neitar svo vitaskuld beiðninni. Spyr hann í leiðinni: „hefur þú nokkurn tímann séð kettina stela einhverju?“ Þetta eru dýrðleg orðaskipti – en verða fyrst epísk þegar á líður og einn útigangskötturinn mætir og fylgist með. Besta kattamyndband ársins, án nokkurs vafa.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson