Titill Q‘s Barbershop vísar ekki til þess að græjumeistari hennar hátignar reki rakarastofu í hjáverkum, heldur vísar titillinn í hann Qasim rakara. Qasim er sómalskættaður Dani sem rekur rakarastofu í Vollsmose, 10 þúsund manna úthverfi Árósa.

Slagorð Qasims? „Hér geturðu fengið klippingu og ráðgjöf fyrir aðeins 100 danskar krónur, habibi!“

Ásamt Sómölum eru Líbanir, Írakar og Tyrkir stærstu innflytjendahóparnir í þessu innflytjendahverfi, sem hefur sannarlega slæmt orð á sér. En gestir Qasim, sem og hann sjálfur, hrista einfaldlega hausinn yfir því orðspori, áliti hvítra Dana sem fæstir hafa nokkru sinni stigið fæti inn í hverfið.

Þessum fordómum er erfitt að vinna á, eða eins og Qasim orðar það: „Ef þú tekur strætó lítur fólk grunsamlega á þig. Ef þú keyrir flottan bíl heldur fólk að þú sért að selja dóp.“ Það er einfaldlega ekki hægt að vinna þennan leik.

En Qasim hefur ekki alltaf búið þarna, hann vann sig upp í lífinu og flutti í venjulegt hvítt hverfi. En þegar konan hans var barnshafandi sagði hún við Qasim: „Eigum við ekki að flytja aftur í gettóið? Maður sér aldrei neinn hérna, fólk kemur bara úr bílunum sínum og flýtir sér upp í íbúð. Þetta er eins og í zombímynd.“

Og þetta var fyrir kófið mikla, sem var aðeins fjarlæg framtíð þegar myndin var tekin upp, en ákveðin úthverfi heimsins höfðu fundið upp félagslega fjarlægð löngu fyrr.

En Qasim er sammála, eftir að hafa flutt úr gettóinu átta þau sig á að hvergi finnst þeim þau jafn örugg. Íbúar hverfisins eru líka í traustum höndum hjá Qasim, sem er sálfræðingur, heimspekingur og rakari allt í senn.

En það eru gestirnir margir líka. Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir, sumir eru vitrir, aðrir sniðugir og orðheppnir – allir drepfyndnir. Þeir eru minnst að hugsa um dóp og skotárásir, miklu frekar bara um stelpur eða vinnuna eða skólann eða gamla heimalandið eða hvað annað sem ungum mönnum finnst þeir þurfa að ræða við rakarann sinn. Eða gömlum, flestir eru kúnnarnir ungir en einn gamlingi kemur og ræðir við Qasim um plötuspilara móður hans sem gerði hann að tónlistarmanni, eða öllu heldur minningin um hann, löngu eftir að þau voru komin á flótta.

Þannig er þetta mynd um heim gettósins handan fyrirsagnana, mynd um fólk sem einfaldlega lifir sínu hversdagslífi eins og við öll, með sína drauma og vandamál og áhyggjur. Öllu þessu gettói er svo komið fyrir í einni lítilli rakarastofu þar sem myndin er nánast öll tekin.

Þetta er einföld kvikmydagerð en þó mjög fagmannleg og áhrifarík, megnið af henni er tekið upp í einföldum römmum í kringum rakarastólinn. Í gegnum samskipti hans við kúnnana kynnumst við svo Qasim sjálfum betur og betur, auk þess að fá glefsur úr lífum kúnnana.

Svo er þetta auðvitað mynd um rakara – eitthvað sem menn eins og ég, sem hef sleppt rakvélinni úr ferðatöskunni í löngum Evrópuferðum, til þess eins að gera samanburðarrannsóknir á evrópskum rökurum. Niðurstaðan var frekar einföld: því sunnar sem maður fór í álfunni því betri eru rakararnir; undantekningarnar frá þessari reglu voru rakarar ættaðir úr suðrænni löndum og Torfi heitinn Geirmundsson.

En það sem einkennir góðar rakarastofur er auðvitað fjölfróður og vitur rakari, sem gerir þetta að lífsreynslu ekki síður en praktískri snyrtingu, og best er ef honum tekst að búa til samfélag í kringum stofuna.

En svo þarf hann auðvitað að kunna að klippa og raka líka, og hjá Qasim er ekki bara hægt að fá klassík eins og afró og dredda, heldur er hægt að fá Usher, Flat Top, House Party eða Will Smith with low fade, svo fátt eitt sé nefnt. Eða eins og einn kúnninn orðar það: „Herramaður fær sér afró, dreddar eru fyrir gangstera.“

Myndin er morandi í svona óborganlegum tilsvörum, drepfyndin og hugvekjandi um leið, þannig að maður kemur hugsandi út úr bíó, en með risastórt bros á andlitinu.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson