Venjulega er upptaktur af hápunktum flestra laga, einhver formáli, mönnum ýmist vaggað eða rokkað inn í lagið. En ekki í laginu sem gerði Bill Withers frægan – þar kemur bara högg í magann í fyrstu línu:
Ain’t no sunshine when she’s gone.
Öll sálin, öll orkan, beint í þessar fyrstu sex sekúndur. Allur sannleikurinn. Allt annað er bara endurómur. Það er ekki diss á restina af laginu, sem er frábær – en hápunkturinn er byrjunin, restin eru ótal falleg erindi sem eru samin í kringum það.
Galdurinn er líka í þessu óformlega ain‘t, prófið að setja „There“ fyrir framan, sem væri jú eðlilegri enska, en þá fellur það flatt – því alvöru skáld kunna auðvitað að brjóta reglur tungumálsins á hárréttum stöðum. Þetta Ain‘t er stærsti galdur lagsins, skorturinn. Það sem maður saknar mest.
Það sem er ekki lengur, það sem maður hefur misst. Sólina, ástina, hana, og núna hann. Núna höfum við misst Bill. Við misstum hann að vísu sem tónlistarmann löngu fyrr – þrátt fyrir öll þessi lög sem eru nánast eins og þjóðlög frekar en frumsamdar ballöður þá hóf Bill Withers ekki feril sinn fyrr en 32 ára af alvöru, með einmitt þessu lagi, var tregur að segja upp vinnunni, hafði litla trú á músíkbransanum þótt hann hefði fundið tónlistarástríðuna þegar hann kláraði hermennsku og var farinn að sigrast á staminu sem hann barðist við frá æsku. Svo hætti hann einungis fimmtán árum seinna, eftir deilu við útgáfufyrirtækið, og kombakkið kom aldrei, hann hafði sungið nóg.
Og nú er hann farinn og sólskinið hefur sjaldan virst fjarlægara.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson