Vic er bílstjóri fyrir fatlaða sem eiga erfitt með gang. En hann er líka af rússneskum ættum – og þær ættir eru ekkert að láta hann í friði. Við fylgjum honum í gegnum Give Me Liberty, mynd sem er mjög villandi lýst sem gamanmynd á helstu upplýsingasíðum en þótt hún sé sannarlega fyndin á köflum er hún miklu nær því að vera hryllingsmynd um gettó Millwaukee.

Það er í raun einfalt að skýra frá plottinu – við fylgjumst með Vic burðast með akfeitan – og þar með níðþungan – mann í hjólastól og sjáum þar með strax að þetta er ekki auðveldasta vinna í heimi. Þegar tveir farþegar eru komnir í bílinn kemur svo í ljós að hjólastólaskutlið er auðveldasti hluti starfans – þetta fólk er síkjaftandi um allt og ekkert og veitti ekkert af að setja hljóðkút á þau svo bílstjórinn geti einbeitt sér.

En þetta er rétt að byrja – þegar rússnesk stórfjölskylda hans heimtar að hann skutli þeim í jarðarför þá fyrst er fjandinn laus. Auðvitað á hann að segja nei við þau – og það er auðvelt að stimpla Vic sem vænan pilt með þann karakterbrest helstan að kunna ekki að segja nei. En hann segir nei – þetta er einfaldlega fólk sem tekur nei ekki sem gilt svar og nuðar í þér og beitir allri mögulegri tilfinningakúgun sem finna má í bókinni.

Allavega, með alla þessa hersingu í bílnum hrannast vandamálin upp og hann verður seinni og seinni og kemur sér í meira og meira klandur, en gerir samt allt sem hann mögulega getur – og miklu, miklu meira en stendur í starfslýsingunni til að þjónusta hvern og einn.

Og sagði ég að fyrstu gestirnir hafi verið hávaðasamir? Bíddu bara þangað til þú hittir fyrir gömlu sínöldrandi rússneksu babúskurnar. Það er raunverulega ofurmannlegt afrek hjá Vic að hafa nokkra stjórn á bílnum við þessar aðstæður. Það hefur örugglega enginn fagnað sjálfskipaðri sóttkví meira en hann, ef það myndi bara þýða örlítinn frið.

Hljóðrás myndarinnar er raunar sú magnaðasta sem ég man – ég get svo svarið að þeir náðu að stilla á eitthvað hátíðnihljóð sem gerði mann alveg brjálaðan. Ég prófaði meira að segja einu sinni að halda fyrir eyrun og það var ögn skárra – en samt heyrði ég hvert orð skýrt og greinilega, með báðar hendur fyrir eyrunum.

Þessi mynd er einfaldlega þrekraun, maður kemur dasaður út úr salnum – en um leið alveg stórkostleg, mögnuð og hugvekjandi. Líklega besta mynd sem ég hef séð sem er sömuleiðis algjörlega óþolandi.

Það hægist aðeins á myndinni þegar á líður og maður nær aðeins að anda betur með persónunum. Það kemur best í ljós hve óeigingjarn Vic er að hann reynir að bjarga einum af farþegum sínum í raunum hennar, rétt eftir að hún er búinn að klaga hann til yfirmanna hans.

En maður fer líka að skilja þetta fólk betur, blöndu af blökkumönnum og rússneskum innflytjendum sem öll hafa orðið undir í lífinu, hvort sem þau eru fötluð eða ófötluð, og þaðan kemur þessi hávaði.

Þau hafa gefist upp á lífinu – og hafa ekkert eftir nema nöldrið og öskrin. Kannski er Vic einn af fáum þarna sem eiga enn von, og því einn af fáum sem heldur ró sinni. Hávaðinn í myndinni er eins konar frumöskur allra sem verða undir í allsnægtarþjóðfélaginu og sjá enga leið til þess að bæta stöðu sína. Fólk sem flúði rússneskan kommúnismann og komst að því að það var engu betur sett í amerískum kapítalisma.

Með uppgjöfinni halda þau þó aðeins í vonina að þau hafi búið í haginn fyrir næstu kynslóð, en með sífeldum hávaðanum og dramanu eyðileggja þau fyrir henni um leið, börnunum sem þau segjast þó hafa ætlað að hjálpa til betra lífs. Það er ekkert hægt að læra heima og verða afburðanemandi með svona hávaðasama ættingja. En um leið sjáum við hvernig þeir fátækustu í þjóðfélaginu standa þó saman þegar í harðbakkann slær – enda geta þau ekki treyst á neinn annan þegar mikið liggur við.

Svo eru örfá hæglát augnablik í myndinni þar sem glittir betur í sálina. Eins og þegar Vic og Tracy, stelpan í hjólastólnum sem klagaði hann, ná að ræða aðeins betur saman. Meðal annars um vínylplötuáhuga Vic, þar sem hann lýsir þessari fyllingu í tónunum af vínylnum – og maður áttar sig á að það er tónninn sem hann þráir í lífið, ekki þennan eilífa hávaða sem er eins og á rispaðri og bilaðri plötu.

Já, og svona í framhjáhlaupi þá er Lauren ‚Lolo‘ Spencer, sem leikur Tracy, ekki að leika það að vera bundin við hjólastól og hér er djöfull skemmtilegt myndband þar sem hún sýnir hvernig er að fara á deit í hjólastól.

Varðandi tónlistina má nefna það að þau syngja Let My People Go, sálm sem þau lærðu lagið af frá Paul Robeson, þeim merka blökkusöngvara og aktívista sem ferðaðist til Sovétríkjanna á fjórða áratug síðustu aldar sem hluta af sinni pólitísku menntun, hann er á einhvern kosmískan hátt forfaðir þeirra allra.

Svo er andlegur pabbi Vic, blökkumaður sem er rúmfastur en Vic kemur að hjálpa honum að gera æfingarnar sínar á meðan sá gamli les honum lífsreglurnar – á meðan þeir reykja saman eina jónu. Hann er lærimeistari myndarinnar, Obi van gettósins – og senurnar á milli þeirra eru einkennilega heillandi, þessi fegurð þegar sá gamli matar þann unga á visku sem kostaði svo sannarlega blóð, svita og tár að öðlast.

Svo sá ég seinna í sömu viku Uncut Gems fyrir Lestarklefann – og Uncut Gems tapaði dálítið hressilega á þeim samanburði, því henni hefur sums staðar verið lýst sem stressbíói og hún er sömuleiðis full af hávaða og óþolandi karakterum – en þótt margt ágætt megi segja um hana þá kemur hún nánast alls staðar illa út í samanburðinum við Give Me Liberty, sem er einfaldlega miklu betri mynd. Og endirinn maður, endirinn … þið verðið bara að sjá hann.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson