Við erum stödd einhvers staðar í frumskógarfjöllum Suður-Ameríku. Í óljósu landi á óljósum tíma – þótt myndin sé vissulega kólombísk og heiti Monos. Hér eru skæruliðar, flestir á unglingsaldri, sem hafa handtekið amerískan lækni. Hún er einfaldlega kölluð Doctora.

Þetta er ægifögur mynd, landslagið sem og myndatakan magnað – og ákveðnar senur eru mjög eftirminnilegar, sérstaklega framan af. Maður datt aðeins út þess á milli, sem var ekki endilega slæmt, þetta var eins og að detta út og gleyma sér á fjalli sem er hvergi líkt neinum þeim evrópsku fjöllum sem maður hefur áður heimsótt.

Við sjáum fljótt hvert stefnir – hér er verið að enduryrkja Flugnahöfðingja William Golding upp á nýtt landslag, eitthvað sem er rækilega staðfest seinna í myndinni þegar stjaksettur haus birtist okkur.

Þegar á líður þá fer maður hins vegar því miður að missa áhugann. Það var vísir af persónusköpun unglinganna framan af – en þegar á líður fara þeir miklu frekar að renna saman fyrir manni í einn stóran blóðþyrstann, tilfinningaheftann og pínu kjánalegan erki-ungling. Þannig verður læknirinn, hún Doctora (Julianne Nicholson), eina persónan sem er þróað eitthvað áfram og þar með eina persónan sem myndin reynir að byggja upp samúð með – þegar hvíti læknirinn verður aðalpersónan yrkir myndin sig ansi óþægilega í narratífu hins hvíta frelsara, sem í þessu tilfelli er aðeins að reyna að frelsa sjálfa sig.

Það er samt engum blöðum um það að fletta að Alejandro Landes er hæfileikaríkur leikstjóri – það væri mjög forvitnilegt að sjá hvað hann getur gert ef hann fær álíka magnað sögusvið aftur, en líka almennilegt handrit.

E.S.: Flugnahöfðingi William Golding, Lord of the Flies, var víst þýdd sem Höfuðpaurinn á íslensku árið 1970. Sá titill er svo afleitur að ég neita að nota hann og feta frekar í fótspor þeirra sem þýddu kvikmyndina sem Flugnahöfðinginn.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson