Hvernig ætli sé að ranka skyndilega við sér eftir margra mánaða einangrun og fara að fóta sig í lífinu aftur? Það er dálítið tilfinningin sem maður fær í upphafi Lara, um samnefnda Láru. Lara er sextug kona, hún á bókstaflega afmæli þegar tveir lögreglumenn banka upp á hjá henni út af meinleysislegri skýrslutöku. Í kjölfarið fer hún í bæjarferð og hittir vissulega ófáa ókunnuga en enn fleiri gamla kunningja, ættingja og samstarfsmenn – og alltaf fær maður á tilfinninguna að þetta fólk hafi hún ekki hitt lengi, en hafi þekkt vel.
Þetta er dálítið eins og hún Lara fari með okkur í gönguferð um líf sem hún þarf aðeins að rifja upp sjálf – og þannig kynnumst við henni, í gegnum samskipti hennar við aðra. Það tekur vitaskuld tíma, þessir gömlu vinir og samstarfsfélagar hafa skilið hana misvel – og kannski skildi enginn hana til fulls?
Þá er þýska leikkonan Corinna Harfouch ein af þessum konum sem alltaf virka á óræðum aldri, fertug og sextug í senn, dálítið eins stallsystir hennar Isabellu Huppert.
Sú mynd sem púslast upp fyrir okkur af henni er einhvern veginn svona: henni hafi vegnað vel í lífinu, er fádæma ungleg af sextugri konu að vera og fólk ber mikla virðingu fyrir henni, en hún er svo sannarlega óttablandin. Hún komst svona langt með því að vera vel brynjuð og hvöss, með því að vera skítsama um hvað öllum öðrum fannst um hana. Við komumst ekki að þessu vegna þess hvernig hún hegðar sér, heldur speglast það einfaldlega í öllum viðbragða annarra við henni.
Eða hvað? Lara er köld – en er að reyna að vera almennileg, býður fólki á tónleika einkasonarins um kvöldið – bæði ókunnugum og kunnugum, það er eins og hún vilji að allur heimurinn fagni með henni þetta kvöld, bæði sextugsafmælinu og frumflutningi sonarins á sínu fyrsta tónverki.
Þetta fer henni þó ekki alltaf vel, hún er hvöss, köld og mátulega hranaleg að eðlisfari – það kostar heilmikla æfingu að vera næs. En einmitt það gerir myndina fallega, hún er að reyna, virkilega að reyna – þótt ófáir hlaupi undan þegar hún byrstir sig óvart. Hún er Trölla að reyna að skila jólunum.
Henni er vitaskuld fátt eðlilslægara en að hitta á veika bletti einkasonarins. Hún kemur til hans í óvænta heimsókn – þar sem hann er í heimsókn hjá ömmunni, mömmu Laru, og það sést strax að erfitt samband móður og afkvæmis er ekkert nýtt í þessari fjölskyldu. Og auðvitað tekst henni að fipa strákinn og nærri því eyðileggja tónleikana í kjölfarið. Með raunar mjög meinlausri athugasemd. En stundum hafa mömmur og aðrir nánir fjölskyldumeðlimir nánast ofurmannlega hæfileika til þess að komast undir brynjuna á manni, það eigum við ansi mörg sameiginlegt – ég hef séð fullorðna vini mína sem eru erkitöffarar allajafna verða pínulítla í sér við ofurlitlar móðurlegar ávandanir.
En mamman er auðvitað ekki sá töffari sem hún þykist vera. Og já, hér kemur væg Höskuldarviðvörun – við komumst að rótinni undir lok myndar.
Draumur sonarins var hennar draumur – og hún bæði lifir hann í gegnum soninn, en syrgir um leið drauminn sem var. Þetta er ekki einföld tilfinning, sérstaklega ekki þegar við bætist að hún fær staðfestingu á því hjá gömlum kennara að hún hafi haft sömu hæfileika og strákurinn, en hún hafi bara ekki verið nógu mikill töffari, hafi leyft honum að brjóta sig.
Þannig krystallast umfjöllunarefni myndarinnar manni skyndilega, bæði sú skrítna blanda tilviljana og persónuleikaeinkenna sem stýra því hvort maður elti drauminn – og nái í skottið á honum – en ekki síður sú einkennilega staðreynd að við áttum okkur kannski fæst á því til fulls að foreldrar okkar hafi einu sinni verið í okkar sporum, verið ung og leitandi, að reyna að finna drauminn – og þeir fullorðnu einstaklingar sem þeir urðu, mamman eða pabbinn sem þú þekkir svo vel, var bara einn möguleiki af mörgum. Og kannski ekkert endilega sú útgáfa sem þeir ætluðu sér að verða.
E.S.: Myndin er framleidd af Schiwago Films, sem býður upp á skemmtileg textatengsl við Zhivagó lækni og Löru sem væri ástæða til að grufla í betur við tækifæri.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson