Það er smá bylgja, eða öllu heldur undiralda, af lágstemmdum vísindaskáldskap í bíó þessi misserin. Leikstjórar sem langar að fjalla um geimferðir eða önnur þemu vísindaskáldskapar og vilja ekki bíða eftir skrilljónunum frá Hollywood, sem myndi líkast til oftast fylgja krafa um sprenginar frekar en hugleiðingar um mennskuna í heimum framtíðarinnar.

Það sorglega er að þessum myndum gengur ekki alltof vel í heimi indí-mynda heldur, þar býst fólk ekki við vísindaskáldskap – þær eiga heima á einhverjum einkennilegum mörkum og finna sér oft ekki almennilegt heimili.

Proxima er ein af þessum myndum. Hér eru vissulega stjörnur, Eva Green í aðalhlutverki og Matt Dillon kemur töluvert við sögu. En þetta verður seint metsölumynd, vegna þess að þótt hún fjalli um geimfara fjallar hún eiginlega miklu frekar um hvernig er að vera móðir og kona í karlaheimi.

Eva Green leikur Söruh, sem hefur dreymt lengi um geimferðir og á unga dóttur með barnsföður sem einnig er hluti af geimferðaprógrammi. Það virðist að það eigi ekki að vera mikið mál að láta pabbann sjá um barnið á meðan mamman skreppur. Út í geim. Líklega í meira en ár.

Það er heillandi sannfærandi og hversdagslegur heimur geimferða sem birtist okkur hér. Þetta er fjölþjóðlegt verkefni, Eva fær að spreyta sig á frönsku, ensku, þýsku og rússnesku í myndinni og stór hluti af henni er einfaldlega æfingaferli geimfaranna fyrir geimskotið – alls kyns óvenjulegar þolæfingar – og um leið eru þau að kynnast.

Mike (Matt Dillon) virðist á köflum vera óttaleg karlremba og á köflum mjög góður gaur, kannski er hann bara bæði, í ákveðnum hlutföllum. Eða kannski er hann að læra, það er pínu erfitt að dæma um það af því við fylgjumst mest með Söruh.

Hún saknar stelpunnar og fjarbúð þeirra mæðgna er erfið – sérstaklega með yfirvofandi geimskot. En það að sýna móðurlegar tilfinningar, það að sýna minnstu veikleika í ofurmannlega erfiðum æfingum – býður hættunni heim að hún verði aftur kölluð túristi, að hún eigi ekki heima þarna, að hún sé bara þarna út af kynjakvóta eða sem markaðsbragð yfirvalda.

Aðalþema myndarinnar er þó ótti móður og dóttur við þennan langa aðskilnað – og þegar það virðist að þær nái ekki að kveðjast í hinsta sinn fyrir skotið tekur Sarah sig til og brýtur sóttkví. Já, ég sagði það, móðurástin fær hana til að rjúfa stranga sóttkví – og komast upp með það – sem hefur örugglega eingöngu virkað sem smávægileg óhlýðni þegar myndin var fyrst sýnd á erlendum kvikmyndahátíðum í fyrra, en ef það hefðu verið fleiri en þrír í salnum (á föstudagskvöldi klukkan átta) hefðu menn sjálfsagt sopið hveljur.

Og hver veit, kannski hefnist henni fyrir þetta, kannski verður framhaldið Proxima 2: Covid-19 in Space? Spurning hvort þau hafi tekið nóg spritt með sér?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson