Goðheima-bókaflokkur Peter Madsen eru ein af perlum norrænna nútímabókmennta, drepfyndnar, spennandi og djúpar endursagnir af norrænu goðafræðinni sem eru skrifaðar og teiknaðar af manni sem hefur augljóslega djúpan skilning á efninu, og því hvað gerir þessar sögur svona magnaðar og hver kjarni þeirra er.

Ekkert af þessu er hins vegar hægt að segja um Valhalla, leikna mynd upp úr sögunum sem kom út núna síðasta haust og var sýnd á RÚV um helgina.

Það er nánast afrek hvernig er hægt að taka jafn litríkar og fyndnar bækur og bókstaflega sjúga allan lit og húmor úr þeim. Myndatakan er einkennilega drungaleg mestalla myndina, án þess að hún gerist á neinum myrkraslóðum – það er frekar eins og þeir séu að reyna að fela hvað myndin er vond.

Sagan er vissulega kunnugleg, Þór og Loki heimsækja bóndabæ í Miðgarði þar sem prakkarastrik mannabarnsins Þjálfa verða til þess að hann og systir hans Röskva enda í Ásgarði – og heimsækja svo Jötunheima og lenda þar í háska hjá Útgarðaloka.

Vandinn er bara að það vantar allan sjarma við myndina, það mætti kannski kalla þetta sósíal-realíska útgáfu af goðafræðinni en hún stendur heldur ekki undir því, það er hvergi ýjað að því að þetta séu ekki alvöru goð og þau hafa greinilega sína ofurkrafta, þannig að hér er ekki einu sinni um neinar forvitnilegar tilraunir til afbyggingar að ræða.

Tja, nema að einu leyti: Röskva er aðalpersóna sögunnar, það er ágætis tvist sem bjargar svosem einhverju. Og hún Cecilia Loffredo er prýðileg sem Röskva. En þá er líka nánast upptaldir þeir leikarar sem standa sig vel hérna.

Roland Møller er skelfilegur sem Þór, er einfaldlega lang-versti Þór kvikmyndasögunnar – já, og gott ef ekki bara menningarsögunnar, ég held hann yrði áfram vera á botninum ef maður tekur bókmenntasöguna og myndlistarsöguna með líka. Það er kannski minnst honum sjálfum að kenna og frekar leikaravalinu, það er ekkert við hann sem minnir á þrumuguðinn, hann er hvorki úfinn né fúlskeggjaður, né sjarmerandi rumur heldur.

Vandinn við goðin er kannski helst sá að þau eru alltof mennsk, þau hafa ekki örðu af yfirnáttúrulegri áru yfir sér. Án þess þó að það sé verið að leika sér með þá hugmynd að neinu leyti. Þau sitja við sitt hringborð og þetta er svo litlaust og óspennandi að maður hugsar: þetta gæti virkað ef þarna sætu einherjar, ekki goðin sjálf. En einherjarnir sjást hvergi – Ásgarður virðist óttalegt krummaskuð þar sem nánast engir búa.

Og landafræðin er stórskrítin, Röskva labbar fram og til baka á milli Ásgarðs og Jötunheima eins og hún sé að skreppa í tónlistarskólann, ekki á milli heima.

Óðinn, Þór, Týr og Baldur líta út eins og menn sem gætu verið statistar í alvöru Goðheima-mynd, Frigg er skelfileg, en Lára Jóhanna virðist ætla að verða ágætis Sif – en eftir að hafa fengið 2-3 línur fyrst þegar hún birtist þá sjáum við bara glitta í hana stöku sinnum og Salóme R. Gunnarsdóttir segir held ég ekki orð sem Freyja.

Verst af öllu er samt að það er hægt að fara svo margar áhugaverðar leiðir til þess að fjalla um þessa mergjuðu goðafræði. Marvel-Þórinn er ágætis dæmi um það, þrátt fyrir að amerísku myndasöguhöfundarnir fari langt út fyrir mýtólógíuna og búi í raun til sína eigin mýtólógíu virka þar þeir félagar Þór og Loki áfram skrambi vel þar sem persónur.

Það er vel hægt að gera gera þetta fyndið eða epískt eða spennandi, það er hægt að fara jarðbundnari leiðir – leika sér með kenningar um að æsir og jötnar hafi bara verið mismunandi austur-slavneskir þjóðflokkar sem norrænir menn komust í kynni við, sem og kenningar um að goðin séu táknmyndir fyrir ákveðin náttúruöfl. Eins hefði verið hægt að gera goðin hversdagsleg með hversdagsleg vandamál, sem er leiðin sem er að einhverju leyti farin hér, en það er hægt að gera það vel og án þess að taka í burt öll þau karaktereinkenni sem hvern og einn ás forvitnilega persónu, það væri hægt að kasta fram áhugaverðum spurningum því tengdu um guð og menn og stéttaskiptingu og krafta, sem er kannski það eina sem er gert í hænuskrefum, bæði einni setningu um að goðin þurfi mennina og með því að gera Röskvu að aðalpersónu og hetju sögunnar. En það er hugmynd sem er hálfköruð eins og eiginlega allt í þessari hálfköruðu bíómynd.

Valhalla er aðgengileg á vef RÚV til 13. maí.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson