Það eru erfiðir tímar, fordæmalausir tímar – en samt eru allir ennþá að segja þér að vera hress. Vera pródúktívur í kófinu, finna innri gildi og innri frið – þú þekkir þetta. Kannski virkar þetta meira að segja suma daga.

En suma daga, suma daga verður maður bara reiður. Og verður að vera reiður, á skilið að vera reiður.

Reiður við yfirmanninn sem sagði þér upp eða minnkaði við þig starfshlutfall, stjórnmálamennina sem er sama um þig, veiruna sem ásækir þig.

Þú ert reiður yfir því að það sé föstudagur og þú þurfir samt að hanga áfram í þinni litlu pínulitlu kjallaraholu, þú ert reiður yfir ástandinu eða viðbrögðum við ástandinu – eða bara brjálaður út í menningarsmygl að klikka stundum á að redda þér ráðlögðum dansskammti. Kannski bara reiður út af lúxusvandamálum, yfir að komast ekki á barinn, komast ekki í skárri stað til að bíða pláguna af þér, að komast ekki í betra veður.

Það er allt saman eðlilegt og nauðsynlegt, við verðum stundum að fá að vera reið. Horfast í augu við reiðina og dansa okkur í gegnum hana.

Við þurfum að taka brjálæðiskast gegn vélinni, vélinni sem stjórnar okkur, veirunni sem plagar okkur – og kannski langar okkur bókstaflega að drepa einhvern. En það er best að sleppa því alfarið, en dansa bara í staðinn eins og trylltur maður við Killing in the Name.

Enda er lagið ekki um að drepa. Það er um uppreisn, að byrja að hugsa sjálfstætt. Uppreisn gegn þeim sem drepa í nafni málstaðar, gegn þeim sem fóru beint úr Ku Klux Klan í lögguna, í feit embætti, á þing, samanber línur á borð við:

Some of those that work forces are the same that burn crosses

Eða:

Some of those that hold office are the same that burn crosses

Some of those up in congress are the same that burn crosses

Viðlagið er svartsýnisóður: „Nú gerirðu það sem þeir segja þér að gera,“

endurtekið trekk í trekk. Þangað til uppreisnin byrjar. Þá skyndilega breytist viðlagið, hefur þróast úr hlýðni í uppreisn.

„Fuck you, I won’t do what you tell me“ – endurtekið sextán sinnum. Sungið og headbangað með, vitaskuld. Leyfum nágrönnunum að velja hvort þeir dansa með eða bölva þér á móti. Þetta er lag um frelsið sem við þurfum áfram að berjast fyrir þegar kófinu líkur – og þurfum kannski bara að berjast fyrir strax núna, jafnvel þótt við látum okkur hafa það að berjast saman gegn veirunni.

Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 9

Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.

* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd: By Penner – https://www.flickr.com/photos/penner/1977294428/, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=4158723