Bob Dylan er búinn að vera afkastamikill í kófinu og gaf nýlega út sín fyrstu frumsömdu lög í átta ár, en er magnið meira en gæðin?
Tónlistarlega séð eru bæði lögin sáraeinföld, ofureinfaldur hljómgangur og hann talar frekar en syngja, það væri réttast að kalla þetta sínu rétta nafni, ljóðaflutning með tónlist undir – sem er hið besta mál, enda yndislegt form, en það setur meiri pressu á kveðskapinn en hefðbundin dægurlög, þar sem góð laglína getur oft lyft ljóðlínum sem annars væru léttvægar fundnar. Hins vegar venst þessi einfaldi ryþmi ágætlega, verður notalegur með tímanum, en lítið meira en það.
Þetta byrjaði þó ekki vel, með „Murder Most Foul,“ tæplega 17 mínútna lagi um morðið á Kennedy og upptalningu á ýmsum óskalögum Dylans. Ég var forvitinn þegar ég byrjaði að hlusta – af hverju morðið á Kennedy, af hverju núna? Verður þarna einhver ný uppgötvun, ný og fersk tenging, ný tilfinning?
Nokkrum hlustunum síðar hef ég ekki fundið neitt af þessu. Þetta er endursögn af fréttum og/eða minningum Dylans, sjálfsagt bræðingur af báðu, en bætir ósköp litlu við og tengir morð Kennedy ekki á neinn áhrifaríkan hátt við samtímann. Þetta hefði kannski sloppið ef lagið hefði komið út stuttu eftir morðið sjálft, núna hljómar þetta eins og einkennilegur fortíðardraugur sem bætir litlu við, hljómar eiginlega mest eins og löngu gleymt lag sem Dylan fann niðrí skúffu við tiltekt.
Það er leiðinleg mærð gagnvart Kennedy í textanum, hann er kallaður kóngur og talað um hann eins og píslarvætt, það er undirliggjandi samsæriskenning sem er hvorki áhugaverð né trúverðug, ef maður er í skapi fyrir slíkt væri miklu gáfulegra að rifja frekar upp JFK eftir Oliver Stone.
Það er örugglega hægt að færa ágætis rök fyrir því að morðið á Kennedy hafi verið einhvers konar skil í heimssögunni, eftir það hafi allt farið til fjandans. En Dylan færir þau rök ekki, talar bara um öld and-krists og gefur einhver óljós samsæri í skyn.
Endursögn af áratugnum sem kom í kjölfarið fléttast svo inní lagið, með endurlitum til fortíðar þess tíma líka, það er dálítið skemmtileg vísun í martröð á Álmstræti, maður hugsar jafnvel um Reagan og uppana sem Freddy Krueger, en þetta er undantekning – mest eru þetta klaufalegar vísanir og lagið endar svo á upptalningu, hálfgerðum óskalagalista Dylans.
Það er hins vegar oft ort mun betur um Dylan en hann yrkir sjálfur, eins og á oft við um aðra guði, þeir textar eru oft betur ortir en guðspjöllin sjálf. Gunnar Smári Egilsson fann til dæmis fegurðina í upptalningunni:
Þarna er fallega ort, en gæti átt við um flesta topp tíu lista á internetinu.
Það gleðilega er hins vegar að nýrra lagið er miklu betur ort. Hann heldur áfram að vitna í heimsbókmenntirnar, síðast tók hann titilinn frá Shakespeare og núna frá Walt Whitman: „I Contain Multitudes.“ Ég inniheld mergðir, eins og Sigurður A. Magnússon þýddi það ef ég man rétt.
Munurinn er hins vegar að hér syngur hann um eigin mergðir, leggur mjög skemmtilega út frá þessari hendingu Whitmans og uppfærir til síns nútíma, sem er auðvitað nútími og fortíð gamals manns – það væri gaman að sjá sambærilega útgáfu frá öllum kynslóðum. Og þær eru auðvitað til, þótt þær vísi ekki beint í Whitman.
Það er feigð yfir byrjuninni, blómin eru að deyja eins og allt annað, eins og talað inní tíma fulla af feigð. En galdurinn er þessi persóna sem birtist þarna, sem rótar í hárinu og gælir við blóðhefnd, teiknar smekklegar myndir og grófar, borðar ruslfæði og líkir sér við Indiana Jones og Önnu Frank, spilar Stones, Chopin og Beethoven og rifjar upp lífið og dauðann og ástirnar, drottningarnar og þernurar.
Margræði manns sem vekur ýmsar spurningar og varpar upp sannferðugri mynd – og gott að vita að Nóbellinn drap ekki alveg skáldagyðju hans Bob.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd: By Francisco Antunes – Flickr, CC BY 2.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=36440748