Ferðist innanlands. Ferðist í landi þar sem alvöru almenningssamgöngur eru varla til og þar sem bara gisting í viku kostar hálf mánaðarlaun, jafnvel ef ódýrasti kosturinn sé ávallt valinn.

Ferðist innanlands til að styðja við iðnað sem fyrir tilviljun örlaganna varð sá stærsti, en fyrir aðra tilviljun örlaganna er skyndilega orðinn ör-iðnaður, frekar en að styðja einfaldlega við fólkið sem vann í honum, styðja það hvort sem það vill vera áfram í ferðamennskunni eða snúa sér að einhverju allt öðru.

Ferðist innanlands bara af því þið voruð fædd á þessari köldu og fámennu eyju, alveg óháð því að þið viljið kannski frekar hita og fjölmenni.

Ferðist innanlands til að styrkja stöðu stjórnmálamannanna sem ávallt svíkja þig, stórfyrirtækjanna sem borga þér alltaf smánarleg laun og til að kaupa gistingu hjá einhverjum sem lagði þig í einelti í grunnskóla einhvers staðar á leiðinni.

Ferðumst innanlands til að verða enn heimaaldari og heimskari.

Ferðist innanlands því hvar annars staðar getið þið átt von á snjó í maí?

Ferðumst innanlands til að vera umkringd fólkinu sem hlýðir Víði.

Ferðist innanlands því Ísland elskar einkabílinn ykkar.

Ferðumst innanlands svo við komumst aldrei burt úr foraðinu, loftleysinu og sjálfsánægjunni og getum áfram notið hroka smádjöflanna og siðferðisdýrðar þrjótanna. Svo við getum áfram sýnt sæluríka fylgispekt.

Ferðumst innanhúss. Af því við kláruðum 5000-kallinn sem ríkisstjórnin gaf okkur í Staðarskála og þurfum nú að ákveða hvaða hlutabóta-matvörubúð við eigum að panta matinn frá, af því við fengum engan ríkisstyrk, við erum ekki fyrirtækin sem komu ríkisstjórninni til valda, við erum bara kjósendurnir sem merktum við þann bókstaf sem okkur var sagt að merkja við.

Ferðumst innanlands af því innst inni þráum við hinn Trumpíska múr utan um landamærin, innst inni þökkum við veirunni fyrir að reisa hann, innst inni viljum við leyfa örverunum að stjórna okkur, stjórna hverja við hittum, hvaða heim við höfum fyrir augunum, hvaða tungumál við heyrum. Þetta frelsi var alltof mikið vesen, við réðum ekkert við það.

Ferðumst innanlands svo við getum dáðst að okkar eigin múr, hafinu sem aðeins fuglinn fljúgandi og einkaþotur forstjóra Haga, Bláa lónsins og Festis komast yfir.

Ferðumst innanlands og dáumst að einkaþotunum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

(með augljósum þökkum til Sigfúsar)