Þú ert að gera tónlistina fyrir nýjan Stjörnustríðstölvuleik og þig vantar gott lag. Auðvitað geturðu fundið eitthvað band í LA eða New York, en til hvers að gera það þegar þú getur bókað mongólska þungarokkshljómsveit, fengið hana til að semja lag á mongólsku og þýða það svo yfir á geimverumál úr Stjörnustríðsheiminum?

Það var allavega það sem framleiðendur Star Wars Jedi: Fallen Order tölvuleiksins gerðu í fyrra. Lagið heitir Sugaan Essena, sem útlegst sem Svarta þruman, og mongólska sveitin sem um ræðir er The Hu, sem fyrstir mongólska sveita komust á topp Billboard vinsældarlistans í flokki harðkjarnarokks með sínar hesthausafiðlur.

En eru meðlimir Hu Stjörnustríðsaðdáendur? Jú, þeir horfðu á myndirnar í æsku „og við vildum allir vera Logi geimgengill. Logi fær okkur til að vilja vera sterkir, heiðarlegir menn.“

Nú ætla ég ekki að þykjast skilja textann, en Wuhan heyrist í textanum, enda spámannslega vaxnir menn. En hvað er þetta hú, eru þeir að gera grín að íslenskum fótboltasöngvum? Nei, aldeilis ekki, hunnu-rokk vísar í hu, mongólska orðstofninn yfir manneskju – og það vísar sömuleiðis í hinn mongólska barkasöng. Sveitin varð til þegar pródúsentinn þeirra, Dashka, heimsótti föðurlandið og vildi gera fallega tónlist fyrir föður sinn og forfeður sína – og þá þurfti vitaskuld hinn mongólska barkasöng til.

En svo taka þeir auðvitað gott hú í lok lags, sína eigin útgáfu auðvitað – væri ekki rétt að bjóða þeim á landsleik við fyrsta tækifæri?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson