Markmið: finna gott flugfreyjulag fyrir kjarabaráttuna. Vandinn er að þau virðast varla vera til – og þau fáu sem finnast eru flest ástaróður til einhverrar einstakrar flugfreyju, það er helst að þær séu blautur draumur í popplögum heimsins.
En Roger nokkur Miller, kenndur við kántrítónlist en raunar miklu frekar frumkvöðull í rappinu, samdi lag á mettíma að beiðni Johnny Carson og niðurstaðan var þessi stórskemmtilegi óður til samskipta farþega og flugfreyju, þar sem hversdaglegustu samskipti þeirra verða ljóðræn.
Overcharge for excess baggage
Know your concourse, know your gate
Up this way sir, not that way sir,
Airplane departs gate six eight
Please sir may l see your ticket
Fasten your seat belt, you can’t smoke
Beverage, anything you’d care for
Sorry but we’re out of coke
Og hafandi einu sinni samið ljóð um Wright-bræður tengdi ég mikið við þessa línu:
God bless Orville, God bless Wilbur
Svo hefur auðvitað M.I.A. samið óð til skutlunnar, pappírsflugvélanna sem við bjuggum öll til. Þetta er auðvitað ekki beint um flugfreyjur – en sjáið þessar skutlur fljúga um götur New York, þetta er fegurðin ein. Og gæti verið tilvalin í kjarabaráttu flugfreyja, hvernig væri til dæmis að henda flugfreyjum í Flugleiða-Boga þangað til hann tekur sönsum?
Loks er rétt að minnast flugfreyju Bítlanna, hana Lucy. Það eru vissulega ótal kenningar um þetta lag, en þegar maður hlustar á það þá er nú samt augljóst að það er um eina af þessum þolinmóðu flugfreyjum sem kippir sér ekki upp við mannalætin í poppböndum sem eru orðin of góð með sig, tryggir bara að þeir komist örugglega á áfangastað svo þeir geti fundið sér meira LSD á jörðu niðri.
Flugfreyjustarfið hefur líka löngum verið erfitt. Starfstéttin varð raunar til þegar hjúkrunarkonan Ellen Church reyndi að fá vinnu sem flugmaður. Þrátt fyrir flugmannspróf var henni hafnað sökum kynferðis en hún var með varaplan; að sannfæra flugfélagið um að láta hana aðstoða og róa farþegana, eitthvað sem hún hafði jú miklu reynslu í sem hjúkrunarkona. Þetta varð til þess að fyrstu flugfreyjurnar voru oftar en ekki hjúkrunarkonur, þar á meðal þær sem flugfélagið fékk Ellen til þess að ráða og þjálfa. Fyrsta Evrópska flugfreyjan var hins vegar Nelly Diener hjá Swissair, sem sjá má á forsíðumyndinni, en hún flaug fyrst árið 1934 og dó sama ár í sviplegu flugslysi.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd: By Swissair – ETH-Bibliothek Zürich, Bildarchiv/Stiftung Luftbild Schweiz / Fotograf: Swissair / LBS_SR02-10664 / CC BY-SA 4.0, CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=51246233