Þegar líður að lokum Just Mercy þá kemur Matlock-senan. Þið þekkið þetta; það er búið að kynna fyrir okkur persónur og leikendur – en núna er komið að lögfræðingnum okkar að halda ræðuna sem alla sannfærir.

En skyndilega áttar maður sig á að það er ekkert í heiminum hvítara en lögfræðingar. Hópur hvítra stráka og kalla, menntaðir í skólum sem lengst af sinni sögu voru fyrst og fremst fyrir heldri manna syni, að leika leikrit sem snýst um kurteisi – já, þögn í réttarsalnum, þið þarna aftast! Eins og ég var að segja, leikrit sem snýst um kurteisi og að verja siðmenninguna, verja allt sem er gott og fallegt. Vandinn við þetta leikrit er að fegurðarskynið rétt eins og réttlætisskynið getur verið ansi brenglað stundum – og kerfið ver sjálft sig alltaf og sína fagurfræði þangað til það molnar að innan.

Nema hvað, það sem er óvenjulegt við þessa Matlock senu er að þetta er ekki Matlock sjálfur. Þetta er ekki einu sinni Gregory Peck – þótt reglulega sé vísað í To Kill a Mockingbird, enda sögusviðið á svipuðum slóðum. Nei, þetta er vondi kallinn úr Black Panther, boxarinn í Creed, fórnarlambið í Fruitvale Station. Michael B. Jordan lék öll þessi hlutverk, sem öll eru sannarlega um ýmislegt mismunandi – en hann var þó alltaf að leika svarta menn í hinum myndunum.

Hér er hann að leika svartan mann að leika hvítan. Blökkumann sem er orðinn ennþá betri í leik hvíta mannsins en hann sjálfur, en þetta er ennþá leiksvið nýlenduherranna.

Spólum aðeins til baka – um hvað er þessi mynd? Jú, hún er um Bryan (Jordan), nýútskrifaðan svartan lögfræðing sem kemur til Alabama, beint frá Harvard, og ætlar að hjálpa föngum á dauðadeild. Sérstaklega þó Johnny D (Jamie Foxx), sem var ranglega dæmdur fyrir morð á ungri stúlku, þrátt fyrir að málatilbúnaðurinn myndi ekki standast skoðun í neinum alvöru réttarsal. En við sjáum fljótlega að þessir réttarsalir eru ekki alveg alvöru, þetta eru kengúruréttarhöld þegar um svarta menn er að ræða, þeir eru sekir um leið og þeir stíga inn um dyrnar.

Þetta er góð mynd um sumt, en dálítið klaufaleg. Hún er dæmigerð issue-mynd að því leyti að, ólíkt raunveruleikanum, segir fólk oftast það sem það hugsar. Ef það er hægt að útskýra eitthvað í smáatriðum í díalóg, þá er það gert. Frekar en að hafa samtölin trúverðug. Það er ekki við leikarana að sakast, innihaldið skal komast til skila. Og þegar ég horfði á Jordan í réttarsalnum þá áttaði ég mig á að hlutverk svona mynda er oft ekki ólíkt hlutverki stjörnulögfræðinga; að sannfæra rétta fólkið. Tala þeirra tungumál.

Jú, sjáiði til; ef það er hægt að gera Hollywood-mynd sem drífur alla leið til Íslands og er passlega meinstrím og útskýrir hlutina þannig að hvítt fólk sem hefur bara séð svart fólk í bíó kveikir á perunni, þá er kannski til einhvers unnið. Það hvíta fólk er kviðdómurinn sem verið er að reyna að ná til, ekki hinna. Ekki til þeirra sem þekkir þetta á eigin skinni eða þeirra bleiknefja sem hafa þó einhvern lágmarks-skilning á hlutskipti þessara undirokuðu hópa.

Matlock-atriðið – og svona myndir í heild sinni – snúast einfaldlega um það að sannfæra kviðdóminn, og um leið kviðdóminn í salnum eða sófanum.

En auðvitað mættu þær helst vera betri, betur skrifaðar en þessi. Þetta er alls ekki vond mynd, það eru margar sterkar senur hérna – en myndin er byggð á ævisögulegri bók lögfræðingsins Bryan Stevenson og maður finnur dálítið að það þarf að útskýra aðeins of margt. Leikstjórinn Destin Daniel Cretton hefur sýnt að hann getur þetta alveg, hann komst á kortið með að leikstýra hinni frábæru Short Term 12. En myndin má eiga það að hún gæti ekki tengt meira við tímann.

Þegar löggan stoppar þig

Manni dettur yfirleitt þrennt í hug þegar löggan stoppar mann við akstur. Að maður hafi verið að keyra of hratt, að maður sé með brotið ljós einhvers staðar eða hún ætli að láta mann blása til að sanna að maður sé allsgáður. En ef maður er ekki bókstaflega með ránsfeng eða lík í skottinu þá eru áhyggjurnar í mesta lagi þær að maður missi prófið eða þurfi að borga nokkra tíuþúsundkalla í sekt. Sem er svosem nógu slæmt. Nema ef maður er svartur. Þá snúast áhyggjurnar einfaldlega um hvort maður muni lifa af.

Just Mercy og Missisippi Burning eiga það sameiginlegt að sagan hefst með keimlíku atriði. Við erum samferða svörtum mönnum í bíl þegar sírenan fer af stað. Í Missisippi Burning lifir enginn farþega bílsins af, í Just Mercy er ökumaðurinn örlítið heppnari – hann er bara dæmdur til dauða – en fær þar með gálgafrest, örlitla von.

Lögfræðingnum er þó einnig ógnað, þótt hann sé með Harvard-gráðu og vel straujuð jakkaföt. Einhverjar sterkustu senur myndarinnar eru einfaldlega þegar hvítu suðurríkjamennirnir minna hann rækilega á að hvað sem öllum háskólagráðum líði þá sé hann bara blökkumaður fyrir þeim og sé því áfram í sömu hættu og allir svartir sambræður hans.

En já, Missisippi Burning. Ég veit ekki hvað Bíóástin á RÚV er ákveðin með miklum fyrirvara en tímasetningin gat ekki verið betri með þetta gamla Suðurríkjadrama. Hún var gerð á sama tíma og Just Mercy fjallar um – kom út 1988, árið sem Johnny D. var upphaflega dæmdur. En Missisippi Burning fjallar sjálf um atburði sem gerðust árið 1964, þannig fjalla báðar um óréttlæti úr grárri forneskju finnst manni – en samtíminn minnir mann rækilega á að svo er ekki með Just Mercy, sem sjálf sýnir manni svo að lítið hefur unnist frá því Missisippi Burning var gerð. Og undir þessu öllu minnast menn To Kill a Mockingbird, sögu sem kom út 1960 en á að gerast á millistríðsárunum.

En Missisippi Burning er miklu betri bíómynd. Just Mercy er ágæt, en klaufaleg, liggur of mikið á hjarta til að einbeita sér almennilega að því að vera gott bíó. Alan Parker er hins vegar feykiflinkur kvikmyndagerðarmaður, fyrsti ramminn þar sem hvítur maður og svartur strákur nota sinn hvorn vatnshanann er einfaldlega örlítið gullfallegt listaverk út af fyrir sig.

Maður finnur fyrir þessu heita og þrúgandi suðri í hverjum ramma, maður finnur fyrir ógninni, þetta er svitakóf af óréttlæti og hita og kraumandi ofbeldi. Hér brennur allt á endanum, hvert orð og hvert augnatillit getur kveikt elda.

Og djöfull er skrítið og gaman að sjá Willem Defoe, Gene Hackman og Frances McDormand svona ung aftur, sérstaklega Frances, sem varð ekki fræg fyrr en áratug seinna. Og djöfull eru þau öll góð, sérstaklega Hackman, sem gamli suðurríkjaskerfarinn sem skilur rasistana og kann að tala við þá, án þess að vera sammála þeim.

Sem bíómynd er þetta einfaldlega mögnuð mynd – og kemur alveg sínum boðskap rækilega til skila, ekki síður en Just Mercy – og jafnvel enn frekar, þetta er mynd sem maður gleymir ekki svo auðveldlega.

Hún fellur hins vegar rækilega á söguprófinu – og gerir auk þess sömu mistök og ótal svona myndir, að gleyma hinum undirokaða hópi, setja þau öll í aukahlutverk. Þetta er alls ekki jafn slæmt og stundum – blökkumennirnir sem koma við sögu eru margir forvitnilegir karakterar svo langt sem það nær. Í allar fimm mínúturnar sem þeir fá á skjánum.

En Parker er þó viss vorkun. Hann var að gera myndina á þeim árum sem stjörnukerfi Hollywood tröllreið ennþá öllu, það skipti minna máli hvaða sögu þú varst að segja og meira máli hvaða nöfn voru á veggspjaldinu. Gene Hackman seldi, Willem Defoe líka. En á þessum árum var Sidney Poitier ennþá eini svarti leikarinn sem gat talist stórstjarna – og hann var orðinn sextugur. Denzel Washington, Wesley Snipes, Samuel L. Jackson, Morgan Freeman og margir fleiri voru kortéri frá heimsfrægð – en þeir voru ekki orðnir frægir enn.

Það sem er hins vegar problematískara er hvernig hann stillir upp góðu og vondu löggunum. Lókal löggurnar eru bölvaðir fautar – eins og þeir voru – en FBI, þeir eru góðu gaurarnir. Þeir eru mættir til að bjarga málunum – og ef siðuðu hvítu mennirnir úr Norðurríkjunum fengju bara vinnufrið myndi auðvitað allt bjargast.

En J. Edgar Hoover notaði nú einmitt FBI til að berja á blökkumönnum og öðrum undirokuðum þjóðfélagshópum um árabil, enda nokkuð ljóst að svona kerfisbundið óréttlæti væri löngu búið að leysa ef viljinn væri raunverulegur í Washington og New York og öðrum miðstöðvum valdsins.

Þannig kjarna þessar tvær ágætu myndir um margt vanda þess að gera góðar myndir um baráttu sem þessa – það er ekki alltaf auðvelt að vera allt í senn; skýr, trúr sannleikanum og gera gott bíó. En það er þó vitaskuld vel hægt, eins og mun koma í ljós þegar líður á þessa kvikmyndahátíð. Því að þótt veikleikar þessara tveggja mynda geri þær auðmeltanlegri fyrir þá sem þurfa stundum mest á boðskapnum að halda þá ræna þær okkur dýptinni og lokar augum okkar fyrir hversu flókið og margbrotin mál þetta í raun eru.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson