Kófið er búið að taka frá okkur nokkra listamenn – en það gaf mér einn í staðinn. Um leið og það tók hann, vel að merkja. John Prine var samt ágætlega virtur kántrí-söngvari, en einhvern veginn fer kántríið mestmegnis fram hjá mér.

Prine vann sem póstburðarmaður og samdi sín fyrstu lög í hausnum við útburðinn. Hann var svo hálfpartinn dreginn á svið í Chicago og það var þar sem kvikmyndagagnrýnandinn frægi Roger Ebert sem uppgötvaði hann og skrifaði fyrsta dóminn um tónlist Prine:

„He appears on stage with such modesty he almost seems to be backing into the spotlight. He sings rather quietly, and his guitar work is good, but he doesn’t show off. He starts slow. But after a song or two, even the drunks in the room begin to listen to his lyrics. And then he has you.“

Og ég tengdi einmitt ekkert alveg strax – en þegar ég heyrði fyrsta lagið sem hann samdi eftir dauðann þá var það samtímis eins og högg í magann og ljúf kveðja. Þetta er einfaldlega kveðjulag á við pari Cohen í fyrra, einstaklega einfaldur texti og lag, en samt með magnaðri tærri orðkynngi.

Bara þetta; ég man allt. Að missa er nefnilega að muna, að halda í minningar, syrgja gleymskuna sem þú heldur mögulega í skefjum aðeins lengur.

Það fallegasta er samt hvernig hann syngur um mennskuna, um að stundum geti maður ekki gert allt sem maður vilji gera – en það sem skipti mestu sé einfaldlega að sýna smá gæsku.

Though regrets are very few

Sometimes a little tenderness

Was the best that I could do

En það er snúið að fjalla um lagið, nánast ómögulegt, það er eins og að segja að fjallalind sé blá. Hlustið bara á sönginn gutla niður fjallshlíðina.

Svo er hægt að taka alls kyns útúrdúra í leiðinni – og rifja upp minningartónleika Prine, þar sem meðal annara hjónakornin Kevin Bacon og Kyra Sedgwick sungu eitt af lögum Prine. Vel að merkja, ég sakna Kyru, enda frábær leikkona sem mætti sjást miklu oftar í bíó.

En allavega, ég man Prine svona, eftirá. Og það er undurfögur minning.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson