En hverfum nú frá gamla heimalandinu til þess nýja, Tékklandsins sem ég hef búið í undanfarin ár. Þar fæddist Miloš Forman heitinn fyrir tæpum 90 árum síðan og fór hina leiðina, flutti til Vesturlanda þegar alræðisstjórnin varð of þrúgandi. Myndin Forman vs. Forman fer yfir feril leikstjórans magnaða og gerir það feikivel. Þetta er snúið form, daginn áður hafði ég séð Mystify, um dapurleg örlög söngvara INXS, ástralska hjartaknúsarans Michael Hutchence, og leiddist þá heil ósköp. Aðferðin er samt keimlík, grafin er upp fjöldi myndbrota úr fortíðinni í bland við klippur af tónleikum eða úr bíómyndum. En munurinn er að Forman vs. Forman nær einhverjum heildstæðum tón og leyfir senum að hafa sinn tíma en er ekki á hlaupum að reyna að dekka allt sem gerðist í ævi eins manns, eins og tilfellið er í Hutchence-myndinni, sem gerir fátt annað en að næra athyglisbrestinn í manni. 

Forman er ekki bara magnaður leikstjóri heldur líka mögnuð persóna sem átti lygilegt lífshlaup. Hann missti báða foreldra sína í Auschwitz og var á hrakhólum allt stríðið. En á öfugsnúinn hátt voru átök tuttugustu aldarinnar honum bæði bölvun og blessun. Blessun aðallega út af því hvaða áhrif það hafði á skólagöngu hans. Fyrst þegar hann gekk í skóla eftir stríðið var það í skóla sem var sérstaklega settur á fót fyrir börn sem voru munaðarlaus eftir hildarleikinn. Nema hvað, skólinn þótti það góður að yfirstéttin vildi senda sín börn þangað líka og að sögn Formans skiptust börnin þar í þrjá nokkurn veginn jafnstóra hópa eftir bakgrunni, munaðarlaus börn, börn burgeisa millistríðsáranna og börn kommúnistaleiðtoga. Eitt burgeisabarnið var Václav Havel og þetta olli því að þeir Forman urðu æskuvinir, þrátt fyrir að koma úr gerólíkum þjóðfélagshópum. 

Kvikmyndagerð í klóm kommúnismans

Eftir að hafa mistekist að komast í leiklistarskóla flaug hann svo inn í FAMU kvikmyndaskólann. Tékknesk kvikmyndagerð var í klóm kommúnismans á þessum árum og heimskan bókstaflega lak af bíómyndunum að sögn Formans, heilalausar áróðursmyndir um fyrirmyndarríkið. En það voru enn þá ótal góðir leikstjórar í landinu – og einhvers staðar urðu þeir góðu að vera, þótt ekki fengju þeir að leikstýra lengur. Og því ekki að koma þeim fyrir í rykföllnum skólastofum, þeir væru varla að fara að valda miklum usla þar – eða hvað? Þannig æxlaðist það að allir bestu kvikmyndagerðarmenn kynslóðanna á undan kenndu Forman og hans kynslóð og urðu þar með guðfeður og -mæður tékknesku nýbylgjunnar, sem varð til þegar ritskoðunin var farin að mildast mjög þegar þau útskrifuðust öllsömul, Forman og Věra Chytilová, Jiří Menzel og Jan Němec og öll hin, og olli því að Tékkóslóvakía, þetta tiltölulega fámenna Mið-Evrópuland, sópaði skyndilega til sín flestum kvikmyndaverðlaunum heimsins í örfá ár. 

En bara örfá ár, því þetta entist auðvitað ekki – og þannig endaði Forman í Ameríku. Það var ekki auðvelt að fóta sig í nýjum heimi og framan af var vera Formans þar heilmikið strögl og tilveran ansi þunglyndisleg. Hann var á Chelsea-hótelinu goðsagnakennda en gerði fátt annað að eigin sögn en að sofa. Fyrsta myndin hans ytra floppaði rækilega, þótt hún sé mikil költmynd í dag. En svo kom Gaukshreiðrið og breytti öllu. 

Það forvitnilegasta við myndina er raunar hvernig hún sýnir manni hversu tékkneskar allar amerísku myndirnar hans Formans í raun voru. Hann lýsir því hvernig hann hafi hætt að skrifa eigin myndir eftir að hann flutti út – honum þótti nauðsynlegt að handritin væru skrifuð af einhverjum sem hefði alist upp í Ameríku, farið þar í barnaskóla og menntaskóla, einhverjum sem væri með Ameríku í beinunum. Maður myndi kannski halda að þetta þýddi að hann yrði þar með einn af leiguliðum leikstjórastéttarinnar, fagmaður sem gerði vel gerðar en ópersónulegar bíómyndir. En hann sótti alla tíð í handrit sem hann skyldi öðrum betur, handrit sem á einhvern hátt endurómuðu átökin í Tékkóslóvakíu æskunnar og unglingsáranna. Þannig er Ratched húkrunarkona í Gaukshreiðrinu holdgervingur alræðiskommúnismans og kannski má í framhaldi líta á geðveikrahælið sem Tékkóslóvakíu alræðisins, en líka að sumu leyti sem vin í eyðimörkinni, skólann þar sem skyldar sálir mættust og fundu sig – áður en þær hlupu út í nóttina, út í órætt frelsið.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á RÚV þann 20. júlí 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson