Skjaldborg átti að byrja í dag. Hátíð íslenskra heimildamynda, en líka hátíð náttúru og ástar og pollsins í Tálknafirði og Sjóræningjahússins sem maður heimsækir helst reglulega jafnvel eftir að það fór á hausinn.
Hátíð hins undurfagra vesturs og, fyrst og fremst, hátíð nándarinnar. Hátíð þar sem fáein hundruð skyldra sála koma saman og fá andlega næringu sem dugir sem bensín næstu mánuði. Þessa nánd sem við verðum mörg svikin um stóran hluta þessa bölvaða árs.
Og einhvern veginn er þetta alltaf Skjaldborgarlagið fyrir mér. Á rauðum sandi með Ylju. Kannski af því ég uppgötvaði það þegar ég varð ástfanginn upp fyrir haus á Skjaldborg fyrir nokkrum árum. Eða kannski bara af því Skjaldborg er akkúrat svona er Skjaldborg nefnilega:
í golunni svífur góður andi.
Dansandi, hoppandi
Blaðrandi og blístrandi
Og allir hlæjandi.
Milli þess sem við erum inní dimmum bíósal að halda kjafti auðvitað. Þetta er heimur þar sem náttúran er dreymandi, dreymandi með okkur mannfólkinu. Vonandi kemur þessi heimur bráðum aftur, þangað til verðum við að láta okkur nægja Þúskjás-útgáfuna.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson