Við sjáum bíl á hvolfi. Það er reykur og feigð í loftinu og óræð rödd, bernsk en þroskuð, færir okkur óræð skilaboð um að þetta verði nú seint allt í lagi.
Fljótlega hittum við svo Idu, sautján ára stelpu sem var að missa móður sína í bílslysi. Sjálf er hún lítillega meidd á hendi, en annars slapp hún ansi vel, líkamlega. Ida er svo send í fóstur til frænku sinnar, systur móðurinnar, sem hún vel að merkja þekkir ekki baun, enda höfðu þær systurnar ekki talað saman síðan Ida var lítil.
Með öðrum orðum, það stefnir allt í að Hold & blóð (Kød & blod) sé ansi dæmigerð saga af sorg og fjölskylduböndum, en það lofar þó góðu að hér virðist vera vandað til verka.
Tja, það stefnir í það – þangað til við komumst að því að ástæðan fyrir samskiptaleysinu voru ekki hefðbundnar systraerjur, heldur öllu alvarlegri. Frænkan er nefnilega sannkölluð guðmóðir óforbetranlegs glæpagengis, hún á þrjá syni sem hún hefur bókstaflega alið upp sem handrukkara og finnst lítið mál að senda Idu með í leiðangra, þar sem að hún er kannski skilin eftir í bílnum en nær nú alveg að sjá sitthvað.
Það er hún Sidse Babett Knudsen úr Borgen sem leikur glæpamömmuna og býr til óhugnanlega persónu, sem er einhvern veginn miklu óhuggulegri en synirnir þrír, sem sjá þó um sjálft ofbeldið. Þeir eru allir í raun uppburðalausir mömmustrákar inn við beinið, og óttast ekkert frekar en að bregðast henni.
Við vitum hins vegar voðalega lítið um fortíð Idu, hún virðist hafa verið ósköp venjulegur unglingur en þó örlítið utangátta – það virðast ekki vera neinir vinir úr fortíðinni sem hún hefur samband við né öðrum fjölskyldumeðlimum til að dreifa. Þannig þarf hún að velja á milli glæpafjölskyldunnar og þess að verða munaðarleysingi. Sandra Guldberg Kampp leikur hana prýðilega, með dádýrsaugu sem eru ekki alveg að skilja þennan mannaheim til fulls.
Þegar ofbeldið fer svo úr böndunum og hún hittir fyrir dóttur eins fórnarlmaba þeirra þarf hún að velja – og ólíkt glæpagenginu þá kannast hún ágætlega við að vera í hlutverki aðstandenda, hún skilur börn mannana sem þau herja á betur en glæpabræðurna frændur sína, þótt hún hafi aðeins náð að tengjast þeim.
Þannig erum við sett í spor Idu, ráðvilltrar unglingsstelpu, með lítið sem ekkert sjálfstraust, sem þarf að velja á milli óttans við ættingjana, sem blandast saman við þá tryggð sem frænkan og frændurnir hafa náð að rækta með henni, og þrá fyrir að breyta rétt – og um leið bjarga sjálfri sér úr aðstæðum sem eru aldrei líklegar til að batna.
Þá er ágætis gagnrýni á barnaverndarkerfi þar sem blóðbönd eru öllu ofar, þar sem næsti ættingi er svo sjálfsagður viðkomustaður að það virðist ekki einu sinni gert lágmarks bakgrunnstékk á fjölskyldunni sem er verið að senda nýlega munaðarlausa stelpuna til.

Þannig er þetta þrælfínt danskt spennudrama, sem því miður förlast aðeins flugið í lokin (og já, hér kemur rækileg Höskuldarviðvörun).
.
.
.
.
Stóru veikleikarnir eru tveir: annars vegar líkur myndinni einni senu of seint, þegar búið er að koma plottinu til skila fáum við að horfa upp á fæðingu og myndinni líkur svo með ramma af kornabarni, og við finnum að því eru þegar mörkuð örlög – þetta barn er alltaf að fara að verða alið upp sem glæpamaður. Vandinn er hins vegar sá að stelpan sem er að fæða er aukapersóna sem okkur er nokk sama um.
Við fylgdum Idu í gegnum alla myndina og það hefði verið eðlilegra að kveðja með henni. Þar komum við samt að hinu stóra vandamáli myndarinnar; það var einfaldlega ekki undirbyggt nógu sterkt að hún væri orðin það trú glæpafjölskyldunni að hún myndi fórna sér fyrir hana eins og hún gerir. Það hefði líklega ekki þurft mikið, bara 2-3 senur þar sem guðmóðirinn ógurlega vefur hana fastar í sinn vef eða einhver bróðirinn hefði náð dýpri tengslum við hana. Og það hefði þurft að gerast snemma, ekki þegar hún er búin að átta sig til fulls á bralli þeirra. Þannig verður vondi endirinn ósannfærandi, sem er synd þar sem myndin fram að því er djöfull mögnuð.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson