Þegar Rio de Janeiro varð undirlögð af undirbúningi fyrir Ólympíuleikana 2016 þurfti Paxton Winters, bandarískur kvikmyndagerðarmaður og blaðamaður, að flytja úr virðulegu hverfi þegar leigan varð of dýr og fékk íbúð í einni af hinum alræmdu favelum, fátækrahverfum borgarinnar. Þetta átti bara að vera tímabundin redding en hann bjó þarna í sjö ár og varð nógu heillaður til þess að gera faveluna að sögusviði sinnar fyrstu myndar í fullri lengd, Pacificado.

Nafnið vísar í það hvernig brasilíska ríkisstjórnin bjó til falskan frið í favelunum í kringum Ólympíuleikana, til að búa til falska ímynd af friðsælli borg. Hamdi óróann tímabundið, rétt á meðan landið var í kastljósinu.

Við förum þó sjaldnast niður á meginlandið, favelurnar eru nefnilega í snarbröttum fjallshlíðum í raun, við sjáum hina þrettán ára gömlu Tati fylgjast dreymnum augum með flugeldum lokahátíðarinnar, svona óralangt í burtu en samt svo nálægt. Annar heimur sem er samt iðullega sjáanlegur þótt hann sé ávallt handan seilingar.

Cassia Gil er náttúrutalent sem Tati, þrettán ára stelpa sem selur sígarettur og reddar sér með smáþjófnaði þess á milli, svona eins og maður gerir ef maður elst upp þar sem glæpir eru daglegt brauð. Andrea mamma hennar er fíkill sem lítið gagn er að og pabbinn er auðvitað í fangelsi. En hann var aðalmaðurinn, séffinn sjálfur, og hann er að losna úr prísundinni.

Þegar hann losnar verður Jacu ásamt Tati aðalpersóna myndarinnar. Bukassa Kabengele leikur mann sem hefur haft heiminn á herðum sér og hefur engan áhuga á að taka aftur við völdum, hann vill bara opna pizzustað, „ af því það er það eina sem ég er góður í sem meiðir engan,“ segir hann aðspurður um matreiðsluáhugann.

Þetta lýsir ágætlega lífinu í svona hverfi – þegar menntun og tækifærum er varla til að dreifa þá er ansi erfitt að finna eitthvað sem maður er góður í sem meiðir engann.

En auðvitað fær hann ekki að vera í friði lengi. Nýji hverfisforinginn, hinn ungæðislegi Nelson, finnst sér standa ógn af honum, þrátt fyrir fullyrðingar Jacu um að hann hafi engan áhuga á valdaráni.

Þeir tveir birta okkur merkilegar andstæður; í hverfi sem þessu munu glæpaforingjar alltaf hafa völdin en þeir geta verið jafn ólíkir og hefðbundnari pólitíkusar. Jacu er líkari samviskusömum bæjarstjóra sem vill halda friðinn og leggur áherslu á ákveðið regluverk í miðri óreiðunni á meðan Nelson gengst upp í gangsterahlutverkinu og sadismanum, þannig að á endanum þolir hann enginn. Þannig sýnir myndin að glæpasamfélög eru líka samfélög eins og hvert annað og lúta sínum lögmálum, þurfa strúktúr og ákveðinn samfélagssáttmála til að virka almennilega, og ef sá sáttmáli er rofinn er allt andskoti fljótt að fara til andskotans, um leið og þeir valdamiklu gleyma að virða mannlega reisn hinna valdaminni þá flosnar samfélagið upp.

Plottið sjálft er samt eiginlega hálfgert aukaatriði – það besta við myndina er svipmyndin sem Winters bregður upp af favelunni. Þetta er ekkert fátæktarklám, hér er mikil örbirgð en um leið mögnuð fegurð. Þetta er glæpamynd þar sem okkur er mest umhugað um fjölskyldusöguna og samfélagið, sem og ægifagurt landslag þessa fátæka samfélags.

Allt krystallast þetta í einni bestu senu myndarinnar, þegar Jacu tekur ísskáp á bakið og byrjar að labba upp steintröppur. Við fylgjum honum til að byrja með en svo tekur myndavélin fram úr honum og stiginn heldur áfram, hærra og hærra og hærra. Þetta er ótrúleg sena, lengsti stigi sem maður hefur nokkru sinni séð, örugglega svona tuttugu sinnum lengri en kirkjutröppurnar á Akureyri, umkringdur fallegum og hrörlegum kofum, lífskrafti og örbirgð, fólki að bardúsa, bera ísskápa og matvörur og hlaupa á milli með dópskammta. Þetta er háskalegur en heillandi heimur – og þessi ótrúlegi stigi táknmynd fyrir gervalla veröldina.

Svo áttar maður sig á að þetta er mögulega upphafið að nútímanum, ófremdarástandið sem kom á endanum Bolsonaro til valda. En við getum allavega huggað okkur við að Tati, Jacu og aðrir íbúar favelunnar geta litið niður á hann, bókstaflega.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Undirritaður var í dómnefnd portúgölsku kvikmyndahátíðarinnar FEST, þar sem Pacificado fékk sérstaka viðurkenningu (special mention) dómnefndar í flokki leikinna mynda.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson