Við erum stödd í Schlupsk, erkitýpísku slavnesku krummaskuði árið 1919. Þar kynnumst við Herschel, fátækum gyðingi með myndarlegt skegg sem fellur fyrir henni Söru sinni, enda er hún með allar sínar tennur á sínum stað. Aðdráttaraflið er þó ekki eingöngu útlitið, þau eiga ýmislegt sameiginlegt líka, eins og það að foreldrar hennar voru myrtir af kósökkum – alveg eins og hans! Hana dreymir um ríkidæmi sem okkur þætti mörgum fátæklegt, það að hafa efni á eigin legsteini, á meðan Herschel dreymir um að geta einhvern daginn smakkað sódavatn.

Svona byrjar Amerísk gúrka, An American Pickle, gamanmynd um kynslóðabilið og hvernig nútíminn kemur fornmönnum fyrir sjónir.

Þessi byrjun er vel að merkja það besta við myndina. Þetta er lágstemmdari útgáfa af ýkta Austur-Evrópska krummaskuðinu sem sáum í Borat, einni öld fyrr auðvitað. Húmorinn er snarpur og skarpur, fullur af virðingu fyrir þessu torræða landi í fjarskanum. Svo komast þau skötuhjú til Ameríku, þar sem Herschel fær fljótlega vinnu við að drepa rottur í gúrkuverksmiðju nokkurri. En þegar hann dettur ofan í ker þar sem verið er að súrsa gúrkurnar vill svo óheppilega til að einmitt þá eru heilbrigðisyfirvöld að loka verksmiðjunni, sem er ekki alveg að standast ströngustu heilbrigðiskröfur – samanber allar þessar rottur.

Hundrað árum seinna vaknar hann svo þegar nokkrir guttar villast inn í verksmiðjuna – og súrsunin hefur haldið honum ungum áfram. Á blaðamannafundi útskýra læknarnir fyrir blaðamönnum hvernig þetta gat eiginlega gerst – en við heyrum ekki útskýringuna, heyrum bara þegar Herschel segir okkur: „Vísindamaður útskýrir, rökfastur, allir sáttir.“ En Herschel er ekkert síður að tala við áhorfandann: „Þú ert að horfa á fantasíu, ég þarf ekki að koma með einhverja langsótta útskýringu af hverju einhver getur lifað í hundrað ár í súrsuðum gúrkeri, þú þarft bara að leyfa sjálfum þér að trúa því.“

Trunta heimsækir nútímann

Og ég var alveg að trúa þessu, svona á forsendum myndarinnar. En svo stígum við inn í nútímann og myndin fer skyndilega að vera völt á fótunum. Fer að vera óviss um hvað hún vill segja, eða öllu heldur, fer ekki nógu djúpt í það sem hún leyfir sér þó að velta fyrir sér.

Eftir blaðamannafundinn finna læknarnir síðasta eftirlifandi ættingja Herschel, hann Ben, og þeir eru ansi líkir – enda báðir leiknir af Seth Rogen. Herschel er hins vegar fúlskeggjaður fornaldarrumur á meðan Ben er vandlega rakaður nútímagutti sem er að hanna nýjasta appið á markaðnum.

Samspil Rogen við sjálfan sig er eiginlega stórkostlegt, það besta við myndina, og það er best þegar það er hvað lágstemmdast. Hann er í vissum skilingi að leika sjálfan sig með langafanum sem hann hefur bara heyrt sögur af, Herschel er erkitýpa hins gyðinglega forföður allra ameríska gyðinga, salt jarðar sem reis úr sárri fátækt gamla heimsins, til þess að búa afkomendum sínum betra líf í þeim nýja. Þetta er fjölskyldusaga þar sem Rogen fær bæði að leika ákveðna útgáfu af sjálfum sér sem og fjölskyldudrauginn sem flestar amerískar gyðingafjölskyldur eiga; langafann evrópska.

Þegar þeim sinnast svo – eins og tveir ættingjar sem líta út ein og bræður eru alltaf að fara að gera – þá þarf Herschel að standa á eigin fótum. Hann verður fljótlega frægur fyrir að selja gúrkur – sem er auðvitað passlega ótrúverðugt; að það skapi frægðina að hann komist í myndband hjá einhverjum áhrifavaldi, en ekki sú staðreynd að hann sé 130 ára en líti út fyrir að vera 40 ára.

Þegar frægðin eykst platar Ben hann svo til þess að fá sér Twitter-reikning, vitandi að hundrað ára gömul viðhorf á Twitter munu fljótlega gera allt brjálað. Sem reynist rétt – en þó ekki alveg eins og hann ætlaði.

Með þessu veltir myndin upp forvitnilegum spurningum um cancel-menningu nútímans og kannski ekki síður því hvaðan forneskjulegustu viðhorfin koma, sýnir hvernig þau viðhorf eru ekki endilega bara spurning um illsku eða gæsku, heldur eru þau líka spurning um kynslóðir og upprun, menntun og bakgrunn. Sumir eru einfaldlega búnir að vera fastir í formalíni í hundrað ár, eða að minnsta kosti áratugi. Sumar fjölskyldur, sumir einstaklingar, heilu staðirnir.

Þetta eru forvitnilegar pælingar, en myndin fer aldrei nógu djúpt í þær, ekki af því myndin er stutt og hnitmiðuð (og hnitmiðuð var hún sannarlega í byrjun), heldur frekar af því leikstjórinn Brandon Trost sé hreinlega of feiminn við að kafa djúpt í þennan forvitnilega debatt – og það á við um sitt hvað fleira í myndinni, sem er sannarlega ágæt, en gæti verið ansi mögnuð ef leikstjórinn væri ekki svona klaufalegur.

Það sem heldur myndinni þó alltaf uppi er Seth Rogen, sem á lágstemmdan stórleik sem frændurnir Herschel og Ben. Þeir eru auðvitað sami maður frá sitt hvorri öldinni, en án þess að ég muni eftir að hafa beinlínis tekið eftir höndunum á þeim þá man maður Herschel með stórar og miklar verkamannahendur og Ben með fíngerðar tölvunördahendur sem aldrei hafa unnið ærlegt handtak á ævinni – allavega ekki eins og Herschel myndi skilja ærleg handtök. Rogen hefur leikið í mörgum miklu betri myndum, en hann hefur hins vegar kannski ekkert oft leikið jafn vel og hérna. Þessi frammistaða – og þessi ágæta hugmynd – á hins vegar skilið miklu betri bíómynd.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson