Tenet er mynd um tímaóreiðu og því er kannski eðlileg fyrsta spurning fyrir rýni: hvar á ég að byrja?

Byrjum hér:

Við erum stödd í bíóhúsi, á fyrstu Hollywood-stórmyndinni eftir kóf, og ein aðalpersónan þarf að vera með grímu – af því skyndilega er heimurinn orðinn svo öfugsnúinn að engu er hægt að treysta lengur. Allra síst innsæinu, allt snýr öfugt við það sem þú býst við.

Svo getum við líka byrjað í kringum síðustu aldamót. Þá kom upp hópur efnilegra breskra leikstjóra, leikstjóra sem voru byltingakenndir, ögrandi, tilraunaglaðir og óhræddir við að gera flóknar bíómyndir sem reyndu á þanþol áhorfenda. Leikstjórar á borð við Danny Boyle með Trainspotting, Sam Mendes með American Beauty og Christopher Nolan með Memento. En nokkrum áratugum seinna eru þeir ýmist að gera Bond-myndir, myndbönd fyrir ólympíuleikana eða þjóðernissinnaðar heimstyrjaldarmyndir. En þeir eru samt alls ekki alveg búnir að missa það í þessum sér-breska gráa fiðringi, stundum bregður fyrir gömlum töktum – og í tilfelli Nolans er Tenet blanda af gömlu og nýju, fortíð og nútíð, eins og titill myndarinnar og efniviður gefur til kynna.

En byrjum bara á byrjuninni, byrjum á Nolan sjálfum. Þessum eina Hollywood-leikstjóra samtímans sem fær hundruðir milljóna til að gera bíómyndir sem eru hvorki framhöld né byggðar á frægum ofurhetjum / bókum / sjónvarpsþáttum / tölvuleikjum. Fyrsta myndin hans var Following, lítil og sjaldséð mynd sem var ágætt fyrir sinn hatt en í raun fyrst og fremst hálfgerð skissa fyrir það sem síðar kom.

Flest kynntumst við honum hins vegar þegar polaroid-mynd framkallaðist aftur á bak og byssukúla skaust svo aftur upp í byssuna. Þetta var í upphafi Memento, myndar sem varð fræg fyrir að vera sögð afturábak – en það var þó ekki nema að hluta til rétt; hún sagði tvær sögur og aðalsagan var sögð í öfugri tímaröð – þessi upphafssena var samt eina senan sem var bókstaflega sýnd afturábak – þótt ýmsar aðrar senur væru sýndar í öfugri tímaröð.

Í Tenet eru hins vegar ótal senur sýndar afturábak – og margar þeirra bæði afturábak og fram á við á sama tíma. Ástæðan er tækni sem kemur úr framtíðinni, tækni þar sem byssukúlur – og mögulega ýmislegt fleira, jafnvel manneskjur, ferðast aftur á bak um tímann. Þetta er vel að merkja ekki beint tímaflakksmynd í hefðbundnum skilningi – að því leyti að hér er lítið um hefðbundin stökk á milli tímabila, heldur miklu frekar þannig að byssukúlur, hlutir og manneskjur ferðast á sínum eðlilega hraða, en gegn tímans hefðbundna straumi.

Og kannski er Nolan sjálfur byrjaður að leita aftur á bak, í ræturnar. Það er vonandi. Hann var nefnilega einn minn uppáhaldsleikstjóri framan af ferlinum, en svo missti hann fótana, þótt vinsældirnar héldu áfram að aukast. Memento, Insomnia, The Prestige og tvær fyrstu Batman-myndirnar hans eru nefnilega allt prýðilegar bíómyndir, sumar stórkostlegar. En þær urðu alltaf stærri og flóknari – og það virtist bara tímaspursmál hvenær þær myndu vaxa skapara sínum yfir höfuð.

Og það gerðist með Inception, um margt heillandi en um leið meingallaðri mynd, mynd þar sem hann fór að verða of upptekinn af hasaratriðum á kostnað plotts – og það er sömuleiðis margt heillandi og forvitnilegt við Interstellar og The Dark Knight Rises, en um leið eru samt báðar meingallaðar um leið.

Botninum náði hann svo með Dunkirk, myndrænt oft magnaðri stríðsmynd sem var hins vegar fullkomlega innantóm og stútfull af leikurum sem virtust hafa villst úr einhverri nærfataauglýsingu, það var einfaldlega ómögulegt að rugla flestum þessum súkkulaðistrákum saman við langþreytta hermenn.

Mögulega saknar Christopher bróður síns Jonathans, sem hefur verið of upptekinn við sjónvarpsþáttaskrif nýlega til að skrifa myndirnar með honum – en fókusinn hefur færst allt of mikið frá plotti og persónusköpun yfir á hasarinn. Sem mér finnst hann oft ekkert sérstaklega góður í. Ef Inception var hans Bond þá er Tenet hans Mission: Impossible, og þótt þær séu kannski að sumu leyti betri en þær seríur – þá er það út af öðru, þegar hann er að herma eftir Bond eða Mission: Impossible eru það fölar eftirlíkingar.

Hitchcock-ljóskan og olígarkinn

Tímaóreiðupælingin sem Tenet byggist á er nefnilega alveg forvitnileg – og sumar hasarsenurnar byggja ofan á það, en oftar trufla þær mann einfaldlega. Þegar Nolan tekur því rólega og leyfir persónunum að tala saman, fjarri sprengingum og byssuhasar, verður til ágætis mynd sem maður þarf svo að finna upp á nýtt eftir hvert hasaratriði. Þegar á líður fara hasaratriðin vissulega að tengjast plottinu betur, en framan af trufla þær bara. Byrjunaratriðið er gott dæmi, umsátur um óperuhús í Úkraínu – sem er stútfullt af karakterum sem á eftir að kynna og okkur er nokk sama um ennþá.

Það hefði verið betra að byrja myndina einfaldlega á lestarteinunum sem John David Washington er bundin við í næsta atriði á eftir – eða jafnvel með löngum kafla um æsku rússneska vopnasalans Andrei Sotor, hlutverk sem Kenneth Brannagh smjattar á af hjartans list og hefur ekki verið betri í langan tíma. Eitt af því forvitnilegasta í myndinni er nefnilega uppruni Sotors í rússneskri leyniborg, sósaðri í úraníumúrgangi. Sú hliðarsaga er hin raunverulega uppspretta þessara atburða – það hefði verið mun sterkara að byrja myndina einfaldlega þar, þegar Sotor á unglingsaldri hreinsaði upp geilsavirkan úrgang og varð í kjölfarið geislavirkur á sálinni.

Það er einmitt mikill léttir að sjá Nolan vinna með alvöru leikurum aftur, þeir voru sem fyrr sagði fæstir burðugir í Dunkirk. Washington er prýðilegur sem hetjan okkar og Robert Pattison fjandi skemmtilegur sem dularfullur samstarfsmaður hans. Michael Caine er bara í einni senu í þetta skiptið en er samt eftirminnilegur. En tromp myndarinnar er hins vegar hin stórkostlega leikkona Elizabeth Debicki.

Nolan bjó til alveg hreint magnaðar kvenpersónur í bæði Memento og Insomniu, en það er eins og hann hafi steingleymt hvernig átti að skrifa almennileg kvenhlutverk eftir það. Ég er raunar ekkert svo viss um að Kat, eiginkonu vopnasalans, sé neitt frábærlega skrifað. En Debicki er einfaldlega svo frábær leikkona (tékkið á Widows, einni vanmetnustu hasarmynd síðari ára, til að sannfærast enn frekar) að hún ljáir henni harmræna og húmoríska vídd, og um leið eru augljósar vísanir í Hitchcock-ljóskuna – meistarinn horfir vafalaust að handan og dreymir um að leikstýra þessari mögnuðu leikkonu.

Og einmitt þarna er myndin falin sem Nolan hefði átt að gera, myndin sem hann hefði mögulega gert ef hann hefði fengið 20 milljónir bandaríkjadala en ekki 200. Mögnuð og tragísk saga um heimilisofbeldi, um gerspilltan og eitraðan heim hinna ofurríku, þar sem konur geta endað í gullfangelsi og utanaðkomandi þekkjast strax á hversdagslegum borðsiðum, hversu dýr sem jakkafötin þeirra kunna að vera.

Þarna er saga um sadisma og siðleysi hinna allra ríkustu, hvernig eitruð karlmennska er þar ekki bara fylgifiskur heldur jafnvel forsenda þess að lifa af.

Vandinn við slíkar sögur er þó að þær verða oft of miklar táknsögur, það getur verið erfitt fyrir okkur launaþrælana að öðlast mikla samúð með spilltu þotuliði, jafnvel þegar sagan er góð – til þess þarf einmitt réttu leikarana. Og þar koma Branagh og sérstaklega Debicki sterk inn, hann með geðveikina og hárrétt stilltan ofleikinn og teiknimyndalegan rússneskan hreiminn, hún með sinn yfirnáttúrulega hæfileika til að gera minnstu augnabik tragísk eða kómísk með minnstu svipbrigðum. Washington virkar svo ágætlega sem furðu lostinn gestur á þessu heimili, það eru svo sem engir svaka neistar á milli hans og Debicki, enda rétt ákvörðun hjá Nolan að gera samband þeirra ekki að rómans; Washington áttar sig nefnilega snemma á því að hann er ekkert skárri en karlfauskurinn eiginmaðurinn, þeir eru báðir bara að nota hana – og stofna henni um leið í hættu – og barátta hans við að bjarga henni snýst minna um ást og meira um að bjarga eigin sál, tryggja að hann verði ekki sama ómennið og skúrkarnir sem hann berst við.

Þessa mynd hefði Nolan sjálfsagt gert fyrir 20 árum síðan, áður en hann fékk alla heimsins peninga. En kannski setur kófið Hollywood á hausinn. Það væri frekar leiðinlegt að mörgu leyti – en mögulega ágætt fyrir Christopher Nolan, því það gæti vel þýtt að næsta mynd verði tíu sinnum ódýrari en um leið tíu sinnum betri.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson