Þegar Philip Seymour Hoffman dó, aðeins 46 ára gamall, þá fór ég strax að hugsa aftur um Synecdoche, New York. Um það hvernig ég hef sjaldan fundið jafn sterkt fyrir dauðanum og eftir áhorf hennar. Og hversu fullkominn hann var í þetta hlutverk, stór og mikill en samt svo einkennilega viðkvæmur og jafnvel brothættur. Þessi mynd virkar alltaf eins og kveðjubréfið hans, þótt hann hafi lifað í sex ár í viðbót eftir hana og leikið í mögnuðum myndum þau sex ár. Og þegar ég sá hana fyrst hugsaði ég um dauðann eins og ég hafði ekki gert síðan ég var barn – eins og maður hugsar um dauðann þegar maður er nýbúinn að uppgötva hann. Samt, ég ýki aðeins, Svanur Guðbergs hafði sömu áhrif nokkrum árum fyrr.

Þetta var fyrsta mynd Charlie Kaufman sem leikstjóra – og kom næst á eftir Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Sem leikstjóri er Kaufman miklu lágstemmdari og gráleitari heldur en Michel Gondry – og ég fer raunar ekki ofan af því að þeir eru hið fullkomna leikstjóra/handritshöfundar par – Gondry kemur með litina og leikgleðina, en alltof margar myndir Gondry eftir Eternal Sunshine skortir fyrst og fremst almennilegt handrit, eitthvað sem Kaufman gerir betur en flestir.

Hins vegar hentar þessi gráleita litapalletta ágætlega fyrir mynd um dauðann. Hún flakkar á milli hversdagsins og ákveðins óraunveruleika á ekki ósvipaðan hátt og Eternal Sunshine, en hins vegar er hversdagsleikinn miklu grárri og hann liggur yfir öllu í upphafi. Það lúmska er hins vegar að skyndilega erum við komin í einhvern einkennilegan óraunveruleika – óraunveruleika sem læðist upp að manni, er grár en samt mjög ankannalegur, eins og úr svart-hvítri expressíónískri martröð.

Hoffman leikur hérna leikhúsleikstjórann Caden Cotard og eftir örfáar mínútur heima hjá honum er augljóst að hjónabandið er dauðadæmt. Sem er bölvuð synd, því það þýðir að hin stórkostlega Catherine Keener hverfur alltof snemma úr myndinni.

Hún fer í vinnuferð til Berlínar og snýr aldrei aftur – og snemma í þeirri ferð sér hann viðtal við hana þar sem hún segir meðal annars: „Ég er á þannig stað í lífinu að ég vil bara vera innan um fólk sem er uppfullt af gleði og hreysti.“

Það er eitthvað ótrúlega grimmt en um leið hreinskilið við þessi orð. Við þráum öll gleði og góða heilsu, fyrir okkur sjálf vissulega, en eins viljum við oft vera í kringum gleðina, eignast hlutdeild í henni, jafnvel þótt hún sé ekki okkar.

En vandinn er bara að við erum flest ósjaldan allt annað en glöð – og heilsan mun bregðast okkur öllum á endanum. Og það á bara eftir að versna með aldrinum í flestum tilfellum – og það er einmitt tilfellið með Cotard, það eru sífellt fleiri smákvillar að hrjá hann.

En skyndilega fær hann styrk – og engan smá styrk, McArthur styrkinn sem oft er kallaður snillingsstyrkurinn, styrkur þar sem listamenn fá fúlgu fjár til að gera hvað það sem þeim dettur í hug.

Skyndilega þarf hann ekki lengur að leikstýra kassastykkjum til að borga leiguna, skyndilega getur hann gert hvað sem hann vill. En í draumi hans er vitaskuld fall hans falið.

Skyndilega dugir ekkert minna en sannleikurinn sjálfur – og hvað er sannleikurinn annað en hversdagurinn, raunverulegt fólk að lifa raunverulegu lífi? Úr verður risastórt spunaleikrit með hundruðum leikara, sem speglar alltaf raunveruleikann meira og meira – en æfingar standa yfir í mörg ár, leiksviðið er orðin heil borg í borginni og það er alltaf jafn langt í frumsýningardag.

Sannleikurinn sem hann virðist vilja koma á framfæri er kannski helst þessi: við leikum öll aðalhutverkið í eigin lífi. En það sem myndin sýnir okkur er kannski frekar að við reynum það flest, en það tekst ekki alltaf – stundum finnst okkur við alltaf vera baksviðs, statistar í annarra manna sögum.

Og kannski er helsta þrá listamannsins að vera sá sem stýrir sögunum. „Lífið hverfur og listin er það eina sem við eigum eftir,“ segir einn leikarinn – en listin hverfur líka, sérstaklega sviðslistirnar. Þetta er leikrit sem, í heimi myndarinnar, verður líklegast aldrei leikið fyrir áhorfendur, aldrei tekið upp, þetta er um öll lífin sem hverfa af því listamennirnir gáfust upp, enduðu í blindgötu, náðu ekki að klára verkin sín.

Þannig er myndin bæði um dauðann sem fylgir því að sögunni þinni loki, en líka um grimmasta dauða allra listamanna; öll verkin sem aldrei kláruðust. Meistaraverkin sem festust í hrörnandi huga, rótlausum huga, stefnulausum huga.

Á einhvern einkennilegan hátt náðu svo Kaufman og Hoffman að snúa á hvoru tveggja, reisa öllum þessm ósögðu orðum – og jafnvel dauðanum sjálfum – veglegan minnisvarða.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson