Ég er að hugsa um að enda þetta. Þetta hvað? Þetta líf, þetta samband? Svarið við því er breytilegt í gegnum bókina, sem segir manni kannski að af einhverjum ástæðum séu bæði svörin nátengd.
En allavega; við erum stödd í bíl með þeim Jake og … kærustunni hans. Hún er aldrei nefnd á nafn, en það er nú samt hún sem er sögumaður bókarinnar. Hún kann vel við Jake, finnst hann sætur og skemmtilegur, góður strákur, viðræðugóður og þau passa ágætlega saman sem par, bæði líkamlega og andlega.
En samt er hún að hugsa um að enda þetta. Eða slútta þessu. Það er nafnið á íslensku þýðingunni – I’m Thinking of Ending Things er þýdd sem Ég er að spá í að slútta þessu. Ég er bara með ensku frumgerðina við hendina, kannski virkar þessi þýðing þegar frasinn venst, en ég næ illa að máta hann við söguna, „ég er að spá í að slútta þessu“ er ekki eitthvað sem þú endurtekur með sjálfum þér á íslensku.

En allavega: Við erum í miðri stórhríð. Í bíl, á amerískum sveitavegum. Það er ekki tekið fram hvar. Þar fer í raun mestöll bókin fram; fyrir utan áfangastaðinn; sveitabýli foreldra hans, þar sem við stoppum stutt, og tvö stopp á hliðarafleggjurum undir lok bókar.
En stúlkan sem er sögumaður hefur nóg að rifja upp, aðallega þó stutt samband hennar og Jake. En líka dularfullar símhringingar – það er í gegnum þær og föla bernskuminningu sem við fáum hægt og rólega á tilfinninguna að þetta sé hrollvekja, að viðbættum stuttum torræðum milliköflum, sem eru skáletraðir, þar sem fólk veltir fyrir sér voveiflegum atburðum sem eru nýskeðir, sem eru í rannsókn, við fáum seint botn í þá en skynjum að þeir tengjast aðalsögunni á einhvern hátt.
Sagan gerist mest í hausnum á henni og hún virðist telja það öruggasta staðinn, segir snemma í bókinni: „Þú getur ekki falsað hugsun. Og þetta er það sem ég er að hugsa.“ Og hún endurtekur þetta og leggur út frá þessu á ný í lokin.
Hún hugsar mest um Jake, lýsir honum sem slánalegri ung-prófessor týpu, bókstaflega á einum stað: „Hann getur stundum fallið í klisjuna um prófessorinn sem er alltaf utan við sig.“
Heilt yfir er hann samt ljúfur og hugulsamur kærasti. Skarpur hugsuður líka.
„Reynslan trompar aldur,“ segir hann. „Við þurfum að finna leiðir til að öðlast reynslu, því þannig lærum við, þannig vitum við.“
Jake er vísindamaður – en lifir samt líka í skáldskap. Iain Reid, höfundur bókarinnar hefur nokkuð talað um það í viðtölum að bróðir hans sem vinni hjá NASA hafi haft áhrif á skáldskap hans, sérstaklega skáldsöguna sem kom á eftir þessari, Foe. Þessi tenging sést ágætlega í því hvernig vísindamaðurinn Jake útskýrir mikilvægi sögunnar.
„Sögur eru okkar leið til að læra. Við skiljum hvert annað í gegnum sögur. En raunveruleikinn á sér einungis stað einu sinni.“
Hann ítrekar meira að segja hvernig goðsagan er mikilvæg í vísindum, jafnvel mestu rökhyggjumenn þurfi sögur til að skilja flókna hluti til hlítar. „Við reiðum okkur á tákn til að skilja merkinguna.“
Og jú, Reid er líka bróður Elizu forsetafrúr. Hann fer alla leið til Venus til að finna smá Íslandstengingu, en Jake lýsir plánetunni með orðunum: „Hún er líka full af eldfjöllum og storknuðu hrauni, svolítið eins og Ísland.“
Hvert leiða gáfurnar?
Jake er eldklár, það er eitt sem er alveg á hreinu. Því kemur henni á óvart að foreldrar hans séu frekar einfaldar sveitasálir. Hann er hins vegar ágætlega flinkur í mannlegum samskiptum – en samt hugsar hún:
„Eru gáfar alltaf jákvæðar? hugsa ég með mér. Hvað ef gáfum er sóað? Hvað ef gáfur leiða frekar til einmanaleika en lífshamingju? Hvað ef gáfur ala ekki af sér framleiðni og skýrleika, heldur þvert á móti skapa sársauka, einangrun og eftirsjá?“
Kannski las hún einhvern tímann sérblaðið sem Esquire gaf út um gáfaðasta fólk Ameríku, þar sem þeir fundu alla þá sem höfðu skorað hæst í greindarprófum – og fundu einmitt þetta; sársauka, einangrun og eftirsjá. Rótlausa mótórhjólagaura sem unnu verkamannavinnu, fólk sem fann sér ekki stað í lífinu. Fólk sem gat ekki unnið með öðrum, af því þeir voru sjaldnast nógu klárir til að tengjast því.

En kannski er hún bara að leita að ástæðu til að enda þetta. Hana virðist nefnilega skorta almennilega ástæðu. Ástæðan er kannski helst sú að hún er vön því að vera ein – og Jake þarf að vera ansi stórkostlegur til að hún sjái ástæðu til að breyta því.
„Ég get ekki sagt þetta við Jake og geri það ekki, en kannski er betra að vera einn. Til hvers að yfirgefa rútínuna sem við náum hvert og eitt að búa til? Til hvers að fórna möguleikanum á mörgum fjölbreyttum samböndum fyrir bara eitt? Ég veit það eru margir kostir sem fylgja því að vera par, ég fatta það, en er það betra? Þegar ég er einhleyp, þá einbeiti ég mér að því hversu mikið félagsskapur annarra gæti bætt líf mitt, aukið á hamingju mína. En er það raunin?“
Hún hljómar eins og manneskja sem hefur verið einhleyp það lengi að hún sé ekki viss um að hún vilji fórna því lífi, er ekki viss um að paralífið henti henni. Án þess að hún sannfæri mann neitt um að hennar einhleypa líf hafi verið stórkostlegt, en eftir nógu mörg ár einhleypur getur það að fara í samband sjálfsagt verið eins og að sprengja upp veröldina, þennan litla heim sem þú bjóst þér til. Án þess að þar sé endilega pláss fyrir einhvern annan.
Þetta virðist samt ekki vera spennandi tilvera. „Í mörg ár hefur líf mitt verið flatt. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt það öðruvísi. Ég er ekki þunglynd, ég held ekki. Það er ekki það sem ég er að segja. Bara flatt, gráleitt. Svo margt sem gerist óvart, óþarft, ómerkilegt. Það hefur skort einhverja vídd. Eitthvað virðist vanta.“
Hún orðar raunar einn helsta veikleika bókarinnar þarna; þrátt fyrir að vera sögumaður veit maður ekkert um hana. Látum vera að nafnið hennar komi aldrei fram – en hvað er hún að gera? Hver er forsaga hennar? Það virkar einfaldlega ekki sérstaklega sannfærandi að hún sé í stanslausum innri mónólóg um hvort hún eigi að hætta með Jake eða ekki, án þess að hennar persónulegu aðstæður og hennar persónulega saga komi því meira við.
Höskuldarviðvörun dagsins
Og nú er lítið hægt að ræða bókina meira án þess að setja Höskuldarviðvörun.
Sú viðvörun væri þó óþörf fyrir myndina, sem við ræðum hér, af því þar eru gefnar miklu skýrari vísbendingar mun fyrr um í hvaða átt sagan er að leiða okkur. Því þótt finna megi einstaka vísbendingar (einna helst frá hinum dularfulla hringjanda) þá er það ekki fyrr en í lokaköflunum sem við fáum það á hreint að sögumaðurinn er ekki raunveruleg.
Lokakaflinn er hrein hryllingssaga, sem endar á mesta hryllingnum, þeim að hún sé ekki til, eða varla til – og að sá Jake sem hún þekki sé heldur ekki til lengur. Þau eru öll hugarfóstur húsvarðar í risastórum sveitaskóla, sem var Jake hinn ungi 30 árum fyrr.
En samt, ekki alveg. Hún virðist eiga sér örlitla stoð í raunveruleikanum, þau hittust – en það fór ekkert lengra. Hún lifði bara áfram í hausnum á honum, önnur útgáfa af henni, aðeins fjarskyld þeirri stelpu sem hitti Jake á bar og fór svo heim, eftir að hann klikkaði á að skiptast á símanúmerum.
Þetta er samt um margt óljóst, hann gæti líka verið bróðirinn sem Jake talaði um, sá sem missti vitið – en líklegast eru þeir sami maður, bróðirinn hans óþægilegi tvíburi, þar sem hann geymir allar vondu minningarnar. Ferill hans framan af er meira að segja svipaður.
„Sérhver dagur hófst á því að kvíðaalda heltist yfir hann þegar hann svo mikið sem hugsaði um að þurfa að vinna með öðru fólki. Það einkennilega var að hann kunni vel við þau. Hann meikaði bara ekki að tala við þau. Þú veist, eins og venjulegt fólk.“
Þannig að hann velur að vera einn. Næturvörður í risastórum skóla sem er rækilega yfirgefinn þegar nemendurnir hverfa. Þau átta sig á að það er næturvörður í byggingunni áður en hasarinn hefst, áður en hún uppgötvar hvernig þeir eru tengdir, og hún veltir dálítið fyrir sér starfi næturvarðarins.
„Það hlýtur að vera erfitt að halda þessari stóru byggingu hreinni. Þegar allir nemendurnir eru farnir hlýtur þetta að vera í algjörri rúst. Sérstaklega baðherbergin og mötuneytið. Og svo er það á ábyrgð eins manns að hreinsa þetta allt upp? Á örfáum klukkutímum?“
Og sem fyrrum næturvörður tengi ég mjög innilega við þessa pælingu, loksins einhver sem áttar sig á hvers konar vinnuþrælkun þetta er! (eða er orðið sums staðar, þetta var miklu skárra og rólegra í gamla daga).
„En kannski fílar hann þetta, kann vel við einsemdina. Hann getur þrifið skólann á þeim hraða sem hann vill. Svo lengi sem hann klárar. Það er eina leiðin til að vinna. Hann hefur skapað sér rútínu eftir öll þessi ár og getur gert þetta hugsunarlaust,“ hugsar hún með sér og nú skilur maður að þarna er Jake einfaldlega að reyna að sjá bæði sjálfan sig og sjálfan sig ungan í gegnum augun á öðrum. Og velur til þess stelpu sem hann þekkir varla, og einmitt þess vegna er hann ófær um að gefa henni annan persónuleika en eigin veikleika og styrkleika og eigin hræðslu við skuldbindingu.
Þegar hún hittir foreldra hans fyrr í bókinni hugsar hún með sér: „Það að sjá einhvern með foreldrum sínum er áminning um að allar manneskjur eru samsettar.“ En hann þekkir ekki hennar sögu, hefur aldrei hitt foreldra hennar, veit ekki úr hverju hún er saman sett. Þannig eru endalokin einungis staðfest á þrástefi sögunnar: þú getur aldrei þekkt neinn almennilega. Sérstaklega ekki þegar þú reynir það ekki.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson