Krúttin (Mignonnes) er frönsk mynd sem þið finnið á Netflix undir nafninu Cuties. Og það er undir því nafni sem myndin hefur orðið alræmd, úthrópuð sem barnaklám og þaðan af verra. Það er því rétt að hafa ákveðna hluti bara á hreinu strax:

Fólk sem heldur í alvörunni að Cuties sé pedófílamynd er tvenns konar; blábjánar eða siðlausir repúblikanar í atkvæðaleit, sem kunna að heilaþvo blábjána um leið og þeim er í raun svo innilega sama um börn að þeim finnst best að geyma þau í fangabúrum við landamærin. Fyrir utan að internetið er fullt af blábjánum sem lýsa yfir skoðunum á myndum sem þeir hafa ekki séð, greinum sem þeir hafa ekki lesið og svo framvegis.

Þegar myndinni er flett upp á Facebook er megnið af færslunum frá siðvöndum repúblikönum og kristnum öfgasamtökum – það er nánast ómögulegt að finna nokkurn einasta gagnrýnanda (lesist: fólk sem hefur raunverulega séð myndina) sem tekur undir þessa dellu, þótt auðvitað séu þeir mishrifnir af myndinni, eins og gengur. En langflestir eru jákvæðir.

Það er líka merkilegt dæmi um heimsvaldastefnu deyjandi heimsveldis að halda að Bandaríkin hafi lögsögu yfir franskri mynd frá senegalsk-ættaðri leikstýru (já, sumir repúblikanar hafa talað um að kæra myndina), en nóg um heimskulega ameríska ritskoðunartilburði; um hvað er þessi mynd raunverulega?

Hún er um Amy, ellefu ára senegalska stelpu sem er nýflutt í nýtt úthverfi nálægt París. Hún er ellefu ára og óframfærin, alin upp á strangtrúuðu múslimsku heimili og utanveltu í nýjum skóla.

Ein albesta sena myndarinnar er snemma, þegar hún er að sniglast í herbergi mömmu sinnar og flýr undir rúm þegar móðirin kemur heim. Við horfum með henni á sterklega ökkla mömmunnar, þetta er eins og í Tomma & Jenna, fullorðna mannfólkið sést bara neðan frá, í fæturna. Nema þarna er mamman hvað mannlegust, hún er í símanum, grátklökk, þegar hún fréttir að eiginmaðurinn er í Senegal, að ná sér í nýja konu.

Svona sjá börn oft heim hinna fullorðnu, neðan frá, á skjön, brotakennt. En skynja samt strax að eitthvað er að, pabbinn er að gera eitthvað rangt þótt gervallt samfélagið virðist samþykkja það.

Bylting og afskræmd gagnbylting

Það er í þessu samhengi sem uppreisnarandinn og sjálfstæðisþráin kemur upp í henni og hún berst fyrir því að vingast við vinsælustu stelpurnar í skólanum – Krúttin sjálf, sem klæða sig og dansa ögrandi, eru á köflum hálfgerðir eineltishrottar, en líka bara ellefu ára stelpukjánar eins og hún.

Hún og Angelika, leiðtogi Krúttanna, eru þar að auki nágrannar og eiga nokkrar góðar stundir saman í þvottahúsinu, að strauja á sér hárið og að borða gúmmíbangsa frussandi af gleði.

Þær eru flestar innflytjendastelpur, ef eitthvað er eru hvítu stelpurnar tvær utanveltu í hópnum.

Þær eru á köflum týndar og ringlaðar, á mörkum þess að verða unglingar – en aðallega eru þær bara að gera það sem börn hafa gert frá örófi alda; að leika alls konar leiki, þar á meðal leiki þar sem þau leika fullorðna.

Við þekkjum þetta öll, löggu og bófa, læknisleiki, luftgítar – nema þær eru forvitnar um kynlíf – en um leið vita þær nánast ekkert um það. Þær hafa séð ýmislegt, en eru þó með flestu grunlausar um hvað felist í þessu öllu saman. Þannig verður skorturinn á kynfræðslu, hvort sem er frá skóla eða heimili, til þess að þær átta sig engan veginn á því hvaða leik þær eru að leika, eitthvað sem sést ágætlega þegar þær halda að smokkur sem þær finna sé stórhættulegur.

Amy sjálf er svo líka í byltingu gagnvart hinu þrúgandi múslimska feðraveldi, en áttar sig ekki strax á að hún er bara að leika leik annars feðraveldis. Í sinni byltingu rekst hún á löngu afstaðna gagnbyltingu blómakynslóðarinnar sem fyrir löngu er búið að afskræma.

Hún gengur lengra og lengra, þarf alltaf að sanna sig í nýjum heimi, fyrir nýjum vinum, og fjarlægjast um leið sinn gamla heim. En svo áttar hún sig – og það er gullfalleg sena sem jafnvel harðsvíruðustu repúblikanar myndu jafnvel fatta ef þeir hefðu þolinmæði til að horfa á heila bíómynd.

Sem fyrr segir þá er galið að kalla þetta barnaklám eða upphafningu á slíku – og raunar er ekkert í myndinni grófara en Jodie Foster í Taxi Driver eða Natalie Portman í Leon. Ekki heldur veggspjaldið umdeilda sem Netflix hefur verið skammað fyrir – það var kannski illa valið, en aðallega bara afsökun fyrir tröllin til að stökkva á myndina.

En um leið finnst mér myndinni ákveðin óleikur gerður með því að einfalda hana niður í hið gagnstæða, einfalda fordæmingu á klámvæðingu barna.

Af því þetta eru ellefu ára stelpur sem hafa til að bera eðlilega forvitni um fullorðinslífið sem bíður þeirra jú allra. Sú forvitni er líka heilbrigð og eðlileg, en hún gengur vissulega of langt, fer á rangar brautir – aðallega af því engin hefur frætt þær af neinni alvöru um kynlíf, þar á meðal af hverju það er vafasamt að ellefu ára stelpur leiki það eftir fyrir framan fullorðna.

En þessi leit þeirra öll er líka drepfyndin, það er kannski eitthvað sem mætti koma skýrar fram – þetta er líka gamanmynd, náskyld frönskum strákasögum eins og Litla Sval, þar sem allir guttarnir eru með kynlíf á heilanum án þess að vita neitt um það – og myndin sýnir ágætlega hvernig fáviska krakkanna um kynlíf getur verið drepfyndin – en líka grafalvarleg.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson