Þetta var í lok maí 1986 og Gleðibankinn féll af toppi vinsældarlistans. Þetta voru stórtíðindi, ég skynjaði það í rödd útvarpsmannsins. Ekki að Gleðibankinn væri fallinn af toppnum, nei, heldur að þungarokkshljómsveit væri kominn á toppinn í hans stað, gott ef ekki í fyrsta skipti í sögunni.
Þetta voru auðvitað Van Halen-liðar með „Why Can‘t This Be Love.“ Lag sem er samt ansi melódískt og huggulegt af þungarokki að vera, það var eins og þeir hefðu rambað á réttu formúluna – taka smá krafballöðu inní þungarokkið og ná meginstraumsvinsældum með því. Eitthvað sem margar sveitir hafa vissulega gert, en þarna tókst þeim að sigra helgasta vígi popptónlistarinnar þessi árin – og það án síns gamla söngvara, stjörnunnar David Lee Roth. Nú var gíarleikarinn Eddie van Halen orðin stjarnan, hafði sannað að hann gæti lifað af brottför einhverjar söngvaradívu.
Og nafnið er eitthvað táknrænt, af hverju getur þetta ekki verið ást líka? Af hverju má ekki líka elska þungarokkara, af hverju fá þeir ekki líka toppsætin á vinsældalistunum, af hverju fá þeir ekki líka að vera með í nýrómantík eitísins?
Sem þeir fengu svo – og í kjölfarið komu Bon Jovi og Aerosmith, sem enn frekar mjólkuðu ballöðuþungarokkið (og urðu minna þungarokk með hverjum smellinum) og höfðu um leið örugglega sín áhrif á kraftballöðuna. En einhvern veginn fannst mér alltaf þessi fyrsti bræðingur fallegastur.
Og jú, þetta er pottþétt mjög vafasöm söguskoðun, það voru pottþétt einhverjir búnir að gera akkúrat þetta á undan Van Halen. En ég var tíu ára og kallinn í útvarpinu lýsti þessu sem sögulegri stund!
E.S.: Já, og ástæðan fyrir því að vinsældarlisti Rásar 2 voru helgustu véar tónlistarinnar á þessum árum fyrir tíu ára gutta var auðvitað að þetta voru bestu tækifærin til þess að taka upp uppáhaldslögin sín á kasettu. Maður beið með puttann á Record-takkanum, vonaði að uppáhaldslögin manns væru ofarlega, væru helst á uppleið – þeir spiluðu ekkert alltaf lögin sem voru á niðurleið eða í neðstu sætunum. Stöff eins og Fine Young Cannibals, The Smiths og Madness voru til dæmis iðullega í 20-30 sæti og var mikil áskorun að ná að taka þau upp tímanlega.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson