Leigumorðinginn Martin Q. Blank (John Cusack) ekur eftir hraðbraut á leið í tíu ára stúdentsafmæli. Blister in the Sun ómar í tækinu og maður dansaði í bíósætinu. Tónlistin heldur áfram að vera frábær og skyndilega heyrir maður í útvarpskonunni. Með seiðandi rödd spyr hún:  „Where are all the good men dead? In the heart, or in the head?“

Þetta er Debi Newbury (Minnie Driver), kærastan sem Martin sveik á lokaballinu til að lifa leigumorðingjadrauminn. Þetta var 1997, myndin gerðist ári fyrr – en fjallaði í raun um áratuginn sem leið, þetta var fyrsta stóra stúdentsafmælið, fyrsta skiptið sem þá ungt fólk fékk að taka nostalgíuna og eftirsjána í botn.

Fáar myndir hafa rifjað upp gleymda eitísgullmola jafn eftirminnilega og Grosse Pointe Blank, kannski helst Donnie Darko og sjónvarpsserían Stranger Things. Myndirnar tvær komu báðar út í kringum aldamótin og skörtuðu leikurum í næstu kynslóð á undan mér, John Cusack og Minnie Driver voru unglingar í eitísinu og þau muna undergroundið, við sem vorum krakkar uppgötvuðum það að mestu seinna – meðal annars einmitt í gegnum þessar myndir. Og þegar ég gekk út úr bíói vissi ég að ekkert lag yrði skemmtilegra að dansa við en einmitt Blister in the Sun, þennan hittara Violent Femmes sem fór algjörlega fram hjá mínu sjö ára sjálfi árið 1983.

Og Írarnir virðast elska lagið, eftir fimm ár af al-írsku útvarpi á útvarpsstöðinni RTÉ Raidió na Gaeltachta var ákveðið að gera undantekningu – og Blister in the Sun var undantekningin.

Textinn er skringilegur, gæti allt eins verið írska á köflum, en virðist fjalla um ungling sem er að prófa aðeins of sterk efni og á í erfiðleikum með hefðbundin unglingavandamál eins og bólur og ótímabært sáðlát. En grúvið er alltaf jafn æðislegt, „When I’m out walkin’“ er eiginlega lykillínan – þegar maður er úti að labba – og dansa í laumi. Sem er eini dansinn sem má núna, eða einn heima í herberginu. Setjiði Sólskinsbóluna á og gleymið kófinu í örskotsstund. Rifja jafnvel upp þegar John Cusack og Minnie Driver voru svalari en allt.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson