Næstsíðasti þáttur Ráðherranns endar á því að Benedikt er mættur í réttirnar, orðinn snarbilaður, og er að leita að týndu sauðunum. Og þar sem hann ráfar á milli fjalla með ímyndaða hundinum sínum fer hann að syngja „Hærra minn Guð, til þín.“ Inn í þetta fléttast útgáfa Megasar af sálminum, þeir félagar Megas og Ólafur Darri syngja þarna magnaðan dúett sem smellpassar inn í atburðarás þáttarins og úr verður eitt magnaðasta atriði í íslenskri sjónvarpssögu, þar sem ráðherrann ráfar og við sjáum voldug fjöllin og þokuna og ráfið og söngurinn er jöfnum höndum sorglegur og glaður. En við munum ræða betur þennan næst síðasta þátt í sunnudagspistli – til að hita upp fyrir lokaþáttinn.
Þetta eru auðvitað orð frá Matthíasi Jochumssyni – en þó aðeins þýdd orð, sálmurinn er upphaflega eftir Sörah Fuller Flower Adams og fyrsta útgáfa lagsins eftir systur hennar, tónskáldið Elizu. Seinna meir hafa allavega þrjú lög verið notuð við sálminn reglulega, en Íslendingar nota útgáfu Lowell Mason, sem er raunar langalgengasta útgáfan annars staðar en í Bretlandi.
Hún Sarah var vel að merkja kjarnakvendi. Hún var kynslóð eldri en Matthías, fædd árið 1805 í Essex, dóttir frjálslyndra og byltingarsinnaðra hjóna. Pabbinn hafði setið í fangelsi til varnar tjáningarfrelsinu, en hann hafði ýmislegt um frönsku byltinguna að segja sem hugnaðist ekki valdhöfum. Mamman hætt í skóla þegar hún neitaði að segja upp áskriftinni að uppáhaldstímaritinu sínu og heillaðist af pabbanum þegar hún heimsótti hann í fangelsið.
Sarah sjálf var ekki nema átján ára þegar hún hitti skáldkonuna Harriet Martinue sem notaði þær systur sem fyrirmynd Ibbotson-systranna í skáldsögunni Deerbrook seinna meir. Þá varð ljóðskáldið Robert Browning ungur vinur systrana og byggði meðal annars eina persónu ljóða sinna á Elizu. Samræður við Browning urðu hins vegar til þess að Sarah fór að efast í trúnni, trúarefi sem var sannarlega til staðar í sálminum fræga, sem byggður var sögu úr ritningunni, um draum Jakobs um stiga upp til himna. Hún var þó virk í kristilegu starfi alla tíð.
Það var kraftur í Söruh á yngri árum, hún var mikil fjallageit og setti met í að vera sneggst allra kvenna upp á tind skoska fjallsins Ben Lomond og gat sér svo gott orð sem leikkona, sérstaklega sem Lafði Makbeð. En svo fór heilsan að bila og eftir að hún veiktist af berklum þá snéri hún sér aftur meira að skrifunum.
Hún var femínisti og frjálslynd í skoðunum, studdi verkalýðsbaráttu heitt og frelsisandinn skein í gegn í ýmsum verkum hennar, til dæmis í þessum línum:
Never yet
Found I true dignity in any one
Who let the world’s opinion cripple thought.
Hún lifði hins vegar ekki lengi, dó 43 ára gömul – en sálmurinn hefur svo sannarlega lifað hana.
Sagan segir að þetta hafi verið síðasta lagið sem hljómsveitin á Titanic söng áður en skipið sökk og að Abraham Lincoln hafi sömuleiðis sungið sálminn á banabeði – og sálmurinn hljómaði sannarlega við útför hans. Og þegar CNN fór í loftið árið 1980 lofaði Ted Turner því að stöðin myndi ekki hætta fyrr en heimsendir myndi bresta á. „Og þá munum við fylgjast með í beinni. Og þegar heimsendir brestur á munum við spila „Hærra minn Guð, til þín,“ áður en við rjúfum útsendingu.“
Texti: Ásgeir H Ingólfsson