Við sjáum hús, við sjáum hjón borða kvöldmatinn, við sjáum húsið hverfa – að mestu. Við sjáum hafið. Þau eru þarna ennþá, við matarborðið, og leifarnar af húsinu eru orðnar að fleka.

Við erum stödd í heimi Bol og Rial, flóttamannahjóna í myndinni His House. Þau eru nýkomin til Bretlands alla leið frá Suður-Súdan – en draugarnir hafa fylgt þeim þangað. Fyrst höfum við áhyggjur af því hvernig þau lifi af – þau fá hús en mega ekki vinna, mega eiginlega voðalega fátt gera – en þau eiga samt að aðlagast. Aðlagast samfélagi sem er framandi, samfélagi sem þau mega ekki taka þátt í.

Mantran þeirra er einföld: við erum gott fólk. Við erum ein af þeim góðu. Af því bara gott fólk á skilið aðstoð, af því þau finna að það er verið að leita allra ástæðna til að senda þau í burtu. Þetta er þeim sagt og þetta endurtekur Bol sjálfur, gæska þeirra er þeirra eina von, gölluð mennskan eitthvað sem þarf því að fela. Þau eru í kafkaísku prófi sem er nánast ómögulegt að standast. Þetta er sósíalraunsæi Ken Loach sem hryllingsmynd – og með aukaskammti af framandleika.

Við fylgjum þeim Rial og Bol frá upphafi og í gegnum þau sjáum við England – og raunar öll Vesturlönd – sem ógnvekjandi framandi stað, með öllu sínu malbiki, kulda og eymd. Og rasisma, sem spyr vel að merkja ekki um litarhaft, eins og Rial kemst að þegar nokkrir blökkustrákar segja henni að hypja sig aftur til Afríku.

Bol gerir það sem hann getur til að aðlagast, hún Rial mun síður, hún er réttilega skeptísk á þennan furðulega kúltúr sem þarna mætir þeim. En hún vill líka gera upp fortíðina, hann vill forðast hana. Sambandið virðist traust í fyrstu, en svo sjáum við brestina koma í þá þegar þau bregðast með gjörólíkum hætti við hryllingnum sem þau bæði upplifa.

Því fortíðin er alls staðar. En fyrst og fremst þó heima hjá þeim. Og þar gerist megnið af myndinni. Það er ekki nóg með að húsið sé skítugt og niðurnítt – það er líka reimt. Þarna eru draugar og ókindur, flóttamenn í veggjunum, nornir (sem virðast vera tvíkynja orð í þeirra súdanska dinka-máli) sem eiga sitthvað sökótt við þau.

Við höfðum þegar fengið að sjá glefsur af flóttanum, nóg til að skilja óttann við vatn, í hvaða mynd sem það gæti birst. Og það virðist ýmislegt hafa gerst, við sjáum dóttur sem virðist hafa horfið, þetta er hryllingsmynd um eftirlifendasektina (e. survivor’s guilt) – en líka um ýmislegt fleira.

Hryllingsmyndir virka best þegar raunveruleikatengingin er sannfærandi, sem þýðir að oft dala þær þegar líða tekur á – ef skrímslið reynist óþarflega ýkt, eða gervilegt eða ótengt öllu sem við þekkjum. En maður áttar sig fljótt á að sjálfur raunveruleiki þessa fólks er handan flest þess sem við vel aldir Vesturlandabúar getum ímyndað okkur, þannig verða skrímslin beintengdari raunveruleika þeirra en ella og hryllingurinn verður lengur hversdagslegur, þótt hann verði sífellt skelfilegri.

Verst er að þau geta hvergi flúið. Þau geta engum sagt frá því að þau séu mögulega að missa vitið, af því þá verða þau send í burtu, missa allt. Staðan er vonlaus, ef þau fara eða kvarta gæti það rústað lífi þeirra, lífi sem er þegar í rúst.

Sönnunarbyrðin er á þeim, að sanna að þau séu heil á geði. En hvernig er hægt að gera slíka kröfu eftir það sem þau hafa gengið í gegnum? Geðveikin og draugagangurinn speglar trámað, þarna leika draugar fortíðar lausum hala í mjög bókstaflegri merkingu, þetta er hryllingsmynd um tráma. Þú ert fastur í trámatískri fortíð en líka fastur í niðurníddu mygluðu húsi, sem renna saman í sömu martröðina.

Það sem ásækir mann þó mest við áhorfið eru allar þær fréttir af hælisleitendum sem hafa gripið til örþrifaráða, kveikt í sér jafnvel – þið þekkið þessar sögur. Og manni vitrast að kannski er þetta þeirra saga, þetta er mynd sem fær okkur til að skilja ágætlega hvað gæti rekið fólk út í slík örþrifaráð.

Eftir stendur svo titilinn: His House. Hús hvers? Hanns hvers? Myndin er líklega með fleiri en eitt svör við þeirri spurningu.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson