Við sjáum húsgögn á dreif, stóran gúmmíbát í kerru – og loks líf; lítill gulur köttur gægist bak við bátinn. Undir syngur Jónsi um að dúnúlpur og að kynda bíla:

kuldahrollur beinum í

það frýs í æðum blóð

„Sumarið sem aldrei kom“ er Þorraþrællinn hans Jónsa, uppfærður um rúma eina og hálfa öld. Það eru komnar dúnúlpur og bílar, en það er ennþá skítkalt. Við höfum ekki ennþá alveg náð að leysa það vandamál.

Nema við eigum auðvitað vel kynnt húsnæði – flest. Ekki öll. Ekki konan sem sýpur á Faxe-bjór og reykir sígarettu þegar Jónsi syngur um blóðið sem frýs í æðum, það frýs nefnilega enn, við getum ekki öll flúið inn til okkar.

Frosti Jón Runólfsson gerði myndband við lagið sem er jafnvel enn magnaðra listaverk en lag Jónsa – og þau lyfta raunar hvort öðru upp, eins og lag og tónlistarmyndband eiga að gera, lagið er miklu betra núna en þegar ég heyrði það fyrst – þegar það blandast þeim litum og lífi og ryþma sem Frosti gefur því.

Útigangsfólk og drykkjumenn borgarinnar eru sannarlega í aðalhlutverki – og í gegn skín virðingin sem Frosti sýnir þeim, þau eru fyndin og glæsileg á köflum, harmræn stundum, vissulega, en aldrei grótesk – miklu frekar eins og vitringarnir sem horfa á hina venjulegu bardúsa, horfa á röðina í næsta neyslufyllerí.

Sólarglæta skín á mann í göngum, rispaðan til blóðs – og skyndilega birtist okkur helgimynd í undirgöngum í Reykjavík.

Sólarglætu sé nú, boðar von og yl

Fögnum, sumri sem aldrei kemur

Þetta er sólarglæta, ekki sumar. Það kemur ekki, ekki frekar en vonin. En það er ekki bara ógæfufólk borgarinnar í myndbandinu, þótt það sé í aðalhlutverki. Eftir myndaseríu af þeim kemur skyndilega ríkulegt hlið, áminning um hvað skilur á milli. Að undanskildu þessu hliði er þó „venjulega“ fólkið í myndbandinu ósköp venjulegt, fólk sem er kannski einum, tveimur harmleikjum frá götunni.

Við sjáum bjarteyga og fallega unglinga, æskublómann sem þau áttu einu sinni – lífið sem þau hafa yfirgefið í bland við lífið sem þau munu aldrei eiga. Þeir eru þrír í aðalhlutverkum; síðhærður maður á hjóli, stuttklipptur maður sem virðist feiminn við myndavélina, en þegar hann horfir beint á hana áttar maður sig á að hann var bara að hlífa okkur við augnaráðinu, enda er hann svipsterkari en andskotinn sjálfur. Og svo Ólafur Kristjánsson, síðhærði maðurinn sem myndbandið er tileinkað, maður sem virðist þó eiga sér athvarf – í gámahverfi nánar tiltekið, hann er dálítið eins og sígaunahöfðingi, stjórnar veðrinu og þegar sá stutthærði öskrar og Jónsi með og Ólafur stjórnar hljómsveitinni og öldruð hjón dansa í Danshöllinni við Drafnarfell, þá er verkið fullkomnað, tónverkið lifnar fyrir augunum á okkur og í glugga gámsins sjáum við bók: Jörðin í öllu sínu veldi.

Svo tekur hversdagurinn aftur við.

Við dauð og djöful búum við

á þessu litla skítaskeri

Skammdeginu þunglyndið

herpir saman búka aumingjanna

Við sjáum fleiri svipmyndir, mann í hjólastól bakka – þannig hverfa þau öll úr heiminum, þau bakka. Löngu áður en þau fara.

„Gluggaveðrið drepur mann“ er svo einhver magnaðasta lína lagsins, sem er núna bráðum að ljúka. Og ég man hvað ég hef saknað fleiri alvöru texta frá bæði Jónsa og Sigur Rós, vonlenskan er ágæt en þeir kjarnyrtu textar sem þeir eru færir um eru mun betri.

Myndbandið minnir dálítið á Bergmál Rúnars Rúnarssonar, þessa mósaíkmynd af Reykjavíkur-hversdeginum, en er eiginlega betri – sex mínútur henta efninu betur en 90, þetta er fókuseraðra og á endanum ennþá fallegra, þetta myndband sem leikstjórinn segist hafa fundið „eins og þjófur að nóttu til, að veiða mér til matar með myndavél mér að vopni.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson