Miðaldra kona sem á erfitt með nánd, transkona með áhuga á klassískri tónlist, karlhóra, kynlífsfræðingur, fjölfatlaður maður og sköllóttur maður frá Íslandi. Þetta fólk á það helst sameiginlegt að við fáum að sjá það í allri sinni nekt í rúmensku myndinni Touch Me Not, sem vann Gullbjörninn í Berlín í febrúar.

Þessi nekt er jafnt andleg sem og líkamleg – hér er líkaminn og allt sem honum tilheyrir umræðuefnið. Það væri til lítils að þylja upp söguþráðinn, enda er hann hálfgert aukaatriði í þessari tilraunakenndu mynd sem dansar einhvers staðar á mörkum heimildamyndar og leikinnar. Hún er miklu frekar um samband okkar við eigin líkama og þrár honum tengdar – sem maður áttar sig betur á því við áhorfið að er mögulega eitt helsta tabú okkar tíma, en kannski ekki endilega á þann hátt sem við höldum. Nektin er sjaldnast klámfengin, jafnvel þótt við heimsækjum BDSM-klúbb í miðri mynd og kynlíf sé sannarlega rætt og sýnt – og það er líka eitthvað nánast bernskt sakleysi í myndinni í hversu opinskátt persónur ræða eigin líkama.

Það er líka óhætt að fullyrða að þetta er umdeild sigurmynd. Ófáir gengu út af blaðamannasýningunni og viðbrögð margra gagnrýnenda voru undrun og reiði á meðan aðrir gagnrýnendur fögnuðu hugrekki dómnefndar. Þegar ég hitti Tómas Lemarquis, einn aðalleikara myndarinnar, daginn eftir frumsýningu var hún ekki enn búin að vinna Gullbjörninn en var strax orðin verulega umdeild.

„Myndin fær fólk til að íhuga eigin nánd og hvaða mörk þau þola“

„Það er bara jákvætt, ég lít alls ekki á það sem eitthvað neikvætt,“ segir Tómas um viðbrögðin. „Svona mynd getur ekki höfðað til allra, sumir munu skilja hana og hún mun sjokkera aðra. En það er líka það sem við viljum, að fólk bregðist við. Myndin fær fólk til að íhuga eigin nánd og hvaða mörk þau þola.“

Hann bjó lengi í Berlín en er núna fluttur heim – en gleðst yfir því að myndin hafi komist inn á jafn stóra hátíð. „Það er stórkostlegt af því þetta er svo erfið mynd, sjóðandi pönnukaka sem ekkert margir þorðu að snerta til að byrja með.“

Hugrekki að stökkva í hyldýpið

Þegar ég horfði á myndina hugsaði ég fyrst að þetta væri mynd um líkama – og svo að þetta væri mynd um orð. En líkamar okkar eru einmitt eitthvað sem við eigum stundum erfitt að koma orðum að, og því er dálítið eins og myndavélin sé tækið sem notað er til að ná sáttum á milli líkama og hugar. Þetta er að vissu leyti undirstrikað með því hvernig leikstýran Adina Pintilie birtist á mónitor í miðri mynd, líkamslaus, og spyr okkur: „Af hverju hefurðu aldrei spurt mig hvað þessi mynd sé um? Og af hverju hef ég aldrei sagt þér það?“ En hvernig mynd er þetta?

„Það þurfti rosalegt hugrekki, hjá okkur öllum, að þora að stökkva í þetta hyldýpi og þora að sýna þessa viðkvæmni“

„Það var enginn texti skrifaður, þetta var allt impróvíserað. Við tókum allar senur upp nokkrum sinnum,“ segir Tómas og heldur áfram. „Við vissum ekkert hvert við vorum að fara, en við vissum að hún hafði ákveðna sýn og það voru ákveðnir hlutir sem hún vildi fjalla um, enda er myndin ekki beint klassísk saga, hún fjallar meira um tilfinningar, ekki vitsmunaleg nálgun heldur frekar líkamleg og tilfinningaleg. Og það þurfti rosalegt hugrekki, hjá okkur öllum, að þora að stökkva í þetta hyldýpi og þora að sýna þessa viðkvæmni, kafa inn í þessar tilfinningar. Það var mjög þakklátt fyrir mig að fá að sýna þessa hlið og það hefði aldrei verið hægt nema maður treysti henni, að hún væri ekki að misnota mann í einhverju tilfinningaklámi. Þetta var alltaf gert með ítrustu virðingu. Maður fann fyrir því, virðingu gagnvart öllum.“

Sem dæmi um hvernig talað er um líkama í myndinni má nefna samræður Tómasar og Christians, en sá síðarnefndi er fjölfatlaður, með skakka útlimi, skakka kjálka og útstæðar tennur. En aðspurður um eigin líkama leggur hann áherslu á að hann sé með falleg augu og myndarlegt typpi. Á móti rifjar Tómas upp þegar hann missti hárið þrettán ára og hvaða áhrif það hafði á hann. En hversu mikið er af honum sjálfum í myndinni?

„Það skiptir í raun ekki máli. Sem galdramaður ertu ekki að segja hvernig þú tekur kanínuna úr hattinum. Karakterinn skiptir máli, ég er aukaatriðið. Myndin snýst ekkert um að ég sé Tómas – við höldum okkar nöfnum, en þar set ég mörkin með hversu mikið mig langar að bjóða blaðamanninum inn til mín.“

Laura Benson, ein mótleikkona Tómasar, tók sérstaklega fram á blaðamannafundi daginn áður að hún ætti ekkert sameiginlegt með sinni persónu á meðan aðrir voru óræðari í svörum. En vissi Tómas að hversu miklu leyti mótleikararnir væru í karakter?

„Ég hef engan áhuga á því að vita um þeirra helstu leyndarmál, ekkert frekar en maður hafi áhuga á gulu pressunni. Ég er bara í mómentinu með þeim í þessum aðstæðum að uppgötva sannleika senunnar, mér er nokkuð sama hvort þetta sé hennar saga eða ekki, það kemur mér ekkert við, það er hennar persónulega val. Ég hef ekki þessa þörf fyrir að þefa af óhreina tauinu hjá öllum.“

En ef slúðurpressan er undanskilin þá eru flestir blaðamenn of kurteisir til þess að spyrja nærgöngulla spurninga um líkama fólks, hvort sem það er feitt, grannt eða sköllótt. En er þetta misskilin tillitssemi, þurfum við mögulega að ræða þetta til að losa um tabúin?

„Ég er ekki sköllóttur leikari, ég er bara leikari, ég vil ekki takmarka mig við það“

„Það fer auðvitað bara eftir því hvort það sé gert af virðingu eða á hvaða hátt það er gert og svoleiðis. Ég er ekkert að fela það að ég sé hárlaus. Mér finnst það líka mikilvægt að ég er ekki sköllóttur leikari, ég er bara leikari, ég vil ekki takmarka mig við það.“

Það er um margt óvenjuleg upplifun að horfa á mynd sem snýst jafnmikið um ákveðnar grunnhugmyndir um sjálfið og líkamann, þetta er mynd sem væri stundum gott að geta sett á pásu til þess að hugleiða sumar þessar hugmyndir betur. Tómas segir mér að þau hafi meðal annars lesið mikið um efnið, bækur eins og Arousal, „sem fjallar um blæti í kynlífi og hvernig það kemur úr frumbernsku, sem var eitthvað sem við fjölluðum um. Það fer fyrir brjóstið á mörgum og mörgum finnst það erfitt því það er verið að fara inn í þetta tabú. Ég get alveg skilið það. En þá er það líka spegill fyrir áhorfandann, af hverju er þetta óþægilegt? Það býður upp á þá spurningu.“

Baggarnir sem við fæðumst með

En hvernig var undirbúningnum háttað fyrir svona óvenjulega mynd?

„Þessi mynd snerist bara um að sleppa tökunum og ekki hugsa fyrirfram um neitt, bara mæta eins og opin bók og leyfa hlutunum að gerast. En myndin sjálf, hún er bara toppurinn af ísjakanum af öllu því efni sem við tókum upp. Margt af því erfiðasta er ekki í myndinni, það sem mér fannst erfiðast og persónulegast var klippt út. Hún [Adina leikstýra] er með ákveðna hugmynd sem hún er að reyna að miðla og þetta var hennar klipp. Þetta er líka tengt henni sjálfri og hún er í myndinni og við erum spegill hennar. Þannig að sumt var of persónulegt og of langt frá því að spegla hennar sýn.“

Að sumu leyti virkar persóna leikstýrunnar Adinu bæði eins og vísindamaður og heilari, og kallast jafnvel á við stóra bróður Orwells. Hjá Adinu er kvikmyndavélin nánast eins og meðferðarúrræði – en myndrænt erum við minnt á að hún getur líka verið eftirlitstæki.

„Hennar tengsl við sína móður og þunglyndi og þessi bæling …“ 

Á blaðamannafundinum ræddi hún um hvernig upphaflegar hugmyndir hennar um líkama hefðu allar reynst rangar – og þannig væri myndin tilraun til þess að enduruppgötva hvað nánd snerist um og því hefði hún leitað uppi fólk sem væri álíka þenkjandi og tilbúið í þennan leiðangur.

En þótt leikhópurinn sé fjölþjóðlegur og talið á ensku þá velti ég fyrir mér hvort þessi mynd sé mögulega rúmenskari en virðist, að hversu miklu leyti er leikstýran að birta okkur mynd af rúmensku samfélagi, samfélagi sem hefur átt erfitt með að uppræta landlæga spillingu Ceaucescu-áranna?

„Algjörlega,“ svarar Tómas þessum hugleiðingum mínum. „Hennar tengsl við sína móður og þunglyndi og þessi bæling … það eru hlutir sem er verið að fjalla um sem koma rosalega mikið þaðan og hafa erfst kynslóð fram að kynslóð og það er erfitt að klippa á þennan streng. En við tölum öll um mæður okkar í myndinni, án þess að það sé endilega akkúrat rétt. En þetta snýst líka bara um hvaða bagga við fæðumst með og hvernig náum við að frelsa okkur undan þeim?“

Líkfundarmálið fyrir austan

Tómas býr bæði á Íslandi og í Los Angeles þessi misserin og vinnur á báðum stöðum. En hvað er næst á dagskrá?

„Ég kláraði síðasta vetur mynd sem heitir Undir halastjörnu og kemur núna í haust.“

Myndin fjallar um líkfundarmálið svokallaða í Neskaupstað og þótt persóna Tómasar sé byggð á raunverulegri persónu þá er hann ekki að reyna að líkja eftir honum. „Ég bý bara til annan karakter, ég lít allt öðruvísi út og er ekki að reyna að breyta því neitt. En ég fór í rannsóknarvinnu, bæði með fíklum og fyrrverandi fíklum, og sá þar margt ógnvekjandi.“

En hvernig vinna þeir úr sögunni? „Sagan byrjar í Eistlandi og svo fylgir maður sögunni til enda fyrir austan. Þetta er ekki um eiturlyf sem slík heldur um þessa tragedíu sem þessir karakterar lenda í,“ en Litháarnir í raunverulega málinu eru nú orðnir eistneskir og að sögn Tómasar er áherslan mjög jöfn á íslenskar og eistneskar persónur sögunnar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Viðtalið birtist upphaflega í Stundinni þann 3. nóvember 2018.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson