Blind. Þetta er fyrsta orðið í laginu „Rólegur kúreki,“ svo fáum við sannfærandi fyrstu drög af ást úr fjarska:

Blinduð af þér ég

mála upp mynd

sem ég er sátt með

Bæði tvíræðnin fyrst; hún er bæði blinduð af þér – en hálf hvíslar „ég-inu“ á eftir, sjálfið er ansi stór hluti af ást manns til manneskju sem maður þekkir ekki, manneskju sem maður getur málað upp mynd af í friði, áður en maður kynnist henni.

Þessi saga um að teikna upp mynd af ástinni minnti mig raunar á fallega sögu sem háðfuglinn Weird Al Yankovic deildi á Facebook nýlega, þar sem hann rifjar upp þegar hann var tólf ára og skelfing feiminn, en teiknaði upp mynd af æskuástinni sem sat beint fyrir framan hann – og svo öllum í bekknum líka, svo ekki kæmist upp um skotið. Hann gaf svo myndirnar og þegar hann rifjaði upp söguna sendi æskuástin Patrice skilaboð – hún hefði sannarlega haldið upp á myndina góðu.

En miðað við feimnina hefði hann alveg eins getað teiknað mynd af Sophiu Loren – hún hefur verið álíka fjarlæg.

Og þetta leikur Bríet sér með – hún er bara að tala um þjóðsagnapersónur, kúreka og James Dean. En þegar líður á er eins og hún kynnist kauða betur, viðurnefnið kúreki verður frekar persónugreining en goðsögn. Hann miðar skammbyssunni á alla – en hún lítur undan. Þetta er ennþá feimna hvolpaástin.

En svo gerist eitthvað, hún fer að segja honum til syndana:

En rólegur kúreki

koddu niður af háa hestinum

Hvernig væri að líta inn á við?

Þú ert ekki einn í heiminum,

hættu að skjóta mig niður

Þú ert ekki James Dean, því miður

Hún er búin að sjá í gegnum hann, eiginhagsmunaseggur sem lifir á valdinu sem hann hefur yfir öðrum. Nema það sé hans óöryggi, slá vopnin úr höndum annarra áður en þeir skjóta hann, skjóta fyrst, spyrja svo?

Og hvað er James Dean að gera þarna, er þetta til marks um að þróun karlmennskuíkona sé öll í jákvæða átt – eða hafi allavega verið það – draumlyndur uppreisnarseggur sem skortir málstað en elskar mótorhjól sé framför frá ofbeldisfullum hestamanni?

Hvað er annars kúreki? Hvers konar kúreki er þetta? Er þetta Lukku-Láki eða John Wayne? Líklega sá fyrrnefndi, Láki virtist nú almennt frekar gegnheil týpa og lítið að skipta sér af kvenfólkinu, á meðan Wayne var óttalegur dólgur, rétt eins og margir kúrekarnir sem hann lék.

Þessi kúreki neitar að horfa upp á stjörnubjartan himininn, eitthvað sem ég hefði einmitt haldið að væri einn helsti kostur þessa illa borgaða starfs (aftur að Láka, hvernig fær hann eiginlega salt í grautinn? Heldur Bríet honum kannski uppi?). En sjálfsagt fær maður leið á því á endanum, þessi helvítis stjörnubjarti himinn missir sjarmann þegar manni er kalt og illt í bakinu og þráir bara alvöru heimili og stöðugar tekjur.

En hann er karlmaður. Hann á að skaffa, það var honum kennt. En ég held að Bríet sé að reyna að bjarga honum. Segja, ég get alveg sungið fyrir okkur, þú getur séð um heimilisstörfin og séð um börnin, þú þarft ekki alltaf að ríða í burtu.

Svo endar þetta auðvitað á því að hún ríður inní sólsetrið í lok allra bókanna, er sífellt að túra og eftir situr kúrekinn heima í Vesturbænum og lætur sig dreyma um stjörnubjartar nætur æskunnar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson