Við sjáum hann fyrst tromma, passlega trylltann og beran að ofan, hann og söngkonan – og svo vakna þau í húsbílnum daginn eftir, það er einhver ró yfir þessum morgni, þetta er þeirra hversdagur – flökkukindur á tónleikaferðalagi og frábær húsbíll, hálfgert rúgbrauð – langur og mjór og furðu líkur alvöru heimili. Þau eru Ruben og Lou, þungarokkarar á eilífum túr.
En skyndilega fer heyrnin að bila – og hann um leið að fara á taugum. Læknirinn segir honum rólega að hann verði að setja heilsuna í fyrsta sæti, en hans fyrsta hugsun er: að halda áfram að vinna, ekki stoppa. Ástæðan er ekki endilega ástin á tónlistinni, þótt hún sé til staðar, heldur einmitt sú að nú þarf hann enn frekar á pening að halda. Fyrir dýra aðgerð sem mögulega gæti fært honum heyrnina aftur – en eina leiðin sem honum dettur í hug til þess að afla fjársins er að halda áfram að eyðileggja heyrnina. Maður finnur að hann býr í landi sem skortir nauðsynlegt stuðningsnet – landi þar sem óvæntur heilsubrestur frelsar þig ekki frá kapítalismanum, heldur þvert á móti flækir þig enn meira í gildrur hans.

Sound of Metal er mynd um heyrnaleysi – en ég skal alveg viðurkenna að fyrst fannst mér ég heyra of mikið. Við fengum of lítið að dvelja í heimi Rubens þegar hann missir heyrnina, við förum þar með ekki að fara alla leið með honum inn í örvæntinguna, þarna hefði vel mátt leyfa okkur að heyra minna og skilja meira. Það hvað hann hugsar órökrétt og hvað hann er pirraður – maður skilur það en maður hefði fundið það betur með honum ef við hefðum ekki heyrt heldur.
Að þessu sögðu er hljóðheimurinn oft magnaður í myndinni, hann þarf að virka á mörkum sviðum og er er lykilstef í heimi leikaranna – og titill myndarinnar er illþýðanlegur – af því ef tvíræðnin er útskýrð er of mikið sagt, því hann vitrast manni ekki fyrr en undir lokin.

Ruben er gamall fíkill líka – og Lou væntanlega sömuleiðis, þótt það hafi ekki verið tekið alveg skýrt fram. Í gegnum slík sambönd kemst hann á meðferðarheimili fyrir heyrnarlausa fíkla, æði sérstakt og heillandi samfélag sem maður að nafni Joe rekur. Joe missti heyrnina í Víetnam og missti tökin þegar hann kom heim, hann er vitri gamli kallinn í sögunni, en um leið harður húsbóndi og hálfgerður jedi-meistari.
En Ruben þarf að vera einn eftir – Lou getur ekki dvalið þarna með honum. Ruben er þarna því á endanum sumpart gegn vilja sínum, hann vill vera með kærustunni og hann vill fá ígræðsluna sem gæti fært honum heyrnina aftur – en hvorugt virðist vera valkostur í augnablikinu.
Megnið af myndinni gerist á þessu meðferðarheimili í sveitinni, þarna er líka skóli fyrir heyrnalausa og eitt það dýrmætasta sem við fáum út úr myndinni er einfaldlega að uppgötva þennan heim í gegnum Ruben. Hann vill ekki vera þarna og þarf að yfirvinna eigin fordóma gagnvart því sem hann sjálfur er orðinn. Þetta eru fordómar sem eru lúmskari en maður ætlar, þetta eru ekki fordómar þess sem kemur illa fram við heyrnalausa eða vill þeim ekki vel, heldur þess sem ósjálfrátt hugsar ávallt um þá sem „aðra,“ aðrar óheppnari manneskjur, fólk sem býr í heimi sem honum finnst óhugsandi að geti orðið hans eigin.
Hann er bullandi reiður og á erfitt með einbeitingu, það einkennilega við ástand Rubens er að heyrnaleysið virðist hafa tekið frá honum þá ró sem hann hafði þó fundið, tekið frá honum þögnina sem hann fann í morgunsárið í upphafi myndar. Hann er heyrnalaus en finnur þó alls ekki þögnina, fattar raunar ekki að hann ætti að vera að leyta að henni. Fíknin virðist alltaf hafa verið hans leið til að komast frá óróanum í hausnum. Joe sér þetta, lætur hann fá einfalt verkefni – að sitja einn í herbergi og eiga bara tvo kosti; að sitja kyrr eða skrifa.
Hvorugt hentar Ruben vel – þegar hann hefur aðlagast umhverfinu og byrjað að læra aðeins á táknmálið þá fer hann að njóta sín, bæði með félögum sínum í meðferðinni og ekki síður með krökkunum. En þegar hann er einn finnur hann aldrei neina ró – og maður skilur á einhverjum tímapunkti að hann þarf að finna þessa ró ef hann á nokkurn tímann eftir að geta tekið réttar ákvarðanir um lífið í þessum nýja veruleika sínum.
Samband þeirra Joe er svo æði flókið. Joe sér arftaka sinn í Ruben, en veit líka að Ruben mun eiga erfitt með að festa rætur þarna. Þetta meðferðarheimili hans er góður staður – en þó ekki alveg laust við þau költ-element sem fylgja oft slíkum stöðum, eins og birtist okkur í einni af mögnuðustu uppgjörssenum myndarinnar.
Heyrnalausa fegurðardrottningin, CODA-börnin og múslimaprófið hans Riz
Meira ætla ég ekki að segja ykkur um myndina sjálfa, nema kannski lauma því að ykkurað bláendirinn er frábær, en þetta er mynd þar sem er sannarlega ástæða til að skyggnast aðeins betur bak við tjöldin á.
Hugmyndin kviknaði við tökur á annarri mynd, The Place Beyond the Pines. Þar var Darius Marder hluti af handritateyminu ásamt leikstjóranum Derek Cianfrance og þegar þeir fóru að kynnast betur komst Marder að því að Cianfrance hafði verið trommari í þungarokkssveit þegar hann fór að finna fyrir eyrnasuði. Hann hætti tímanlega og hélt heyrninni – en þarna fór sagan að fæðast – og hana byrjuðu þeir að vinna saman, en Cianfrance var alltaf harður á því að þetta var ekki mynd sem hann treysti sér í að leikstýra. Þannig að það varð hlutverk Marders, sem fram að þessu hafði aðeins leikstýrt einni heimildamynd.
Þau eru svo þrjú í leikhópnum sem þið gætuð kannast við. Olivia Cooke leikur Lou, en hún sló i gegn sem deyjandi stúlkan í Me and Earl and the Dying Girl, og Mathieu Amalric leikur pabba hennar, en Amalric er einfaldlega einn besti núlifandi leikari Frakka. Bæði eru þó í litlum hlutverkum – það er Riz Ahmed sem ber myndina uppi, þetta er vel mögulega óskarsframmistaða – þessi óræða orka, hann er eins og dýr í búri sem á erfitt með að finna mennskuna sína á ný.
Ahmed er eins og nafnið gefur til kynna múslimi – og meðal annars þekktur fyrir Riz-prófið, nokkurs konar múslimaútgáfu af Bechdel-prófinu sem hann samdi með félögum sínum. Próf sem er að sögn þeirra álíka óvísindalegt, aðeins ætlað til að kveikja umræður. En hér kemur Riz-prófið:
Ef karakter er greinanlega múslimi, á eftirfarandi við um hann:
Er karakterinn að tala um hryðjuverk, er hann fórnarlamb eða gerandi hryðjuverka?
Er hann ítrekað reiður án sýnilegrar ástæðu?
Er karakterinn hjátrúarfullur, menningarlega afturhaldssamur eða í nöp við nútímann?
Er karakterinn ógn við vestræn gildi?
Ef þetta er karl, er hann karlremba? Ef þetta er kona, er hún kúguð af körlum?
Eina sem gæti átt við Ruben er reiðin – þótt ástæðan sé sannarlega sýnileg. Og vel að merkja er aldrei tekið sérstaklega fram að hann sé múslimi – nafn aðalpersónunnar gæti svosem gefið annað í skyn, Ruben Stone, enda var hvítur leikari fyrst orðaður við það, persónan er bara múslimi af því leikarinn er það.

Þessi þrjú koma þó öll úr heimi hinna heyrandi – en það eru tveir lítt þekktir leikarar úr heimi hinna heyrnalausu sem stela myndinni alveg á köflum. Annar þeirra er Paul Raci, karakterleikari sem nýorðinn sjötugur er loksins að fá hlutverk lífsins, sem hrjúfi og ósveigjanlegi vitringurinn Joe. Raci heyrir vissulega ágætlega – en hann er CODA-barn, byggt á ensku stafsetningunni fyrir börn heyrnalausra (Child of deaf adult), báðir foreldrarnir voru heyrnalausir og það háði pabbanum minna – hann hafði verið heyrnarlaus alla tíð, en mamman hafði heyrt sem barn og fékk Raci ítrekað til þess að lýsa heilu tónleikunum eða samtölum bíómynda fyrir sér, eins og kemur fram í þessu forvitnilega viðtali, þar sem hann rifjar upp að hann er fæddur árið sem Jane Wyman, heyrandi leikkona, fékk óskarsverðlaun fyrir að leika heyrnalausa konu í Johnny Belinda. Nokkrum árum seinna fékk hann svo að lýsa myndinni fyrir móður sinni í sjónvarpinu – og fann sterkt hvað Wyman skyldi ekki þeirra heim.

Leikkonan sem leikur kennara krakkana í myndinni er hins vegar fædd heyrnarlaus – sem skýrir hversu ótrúlega miklu hún nær að skila með augnhreyfingunum einum. Lauren Ridloff gekk vel í skóla en hætti alfarið að tala þegar hún var þrettán ára, því hún fann að fólk var ósjálfrátt að meta greind hennar út frá ófullkomnu talinu. Seinna meir var hún valin Miss Deaf America (já, það er til) og fór svo að vekja athygli sem leikkona, sérstaklega fyrir sviðsuppfærslu á Children of a Lesser God – en kvikmyndaútgáfan færði Marlee Matlin eina óskarinn sem heyrnarlaus leikkona hefur hlotið. En hlutverkið þýddi samt að Ridloff þurfti að nota röddina í fyrsta skipti í aldarfjórðung. Þá lék hún líka lítið hlutverk í Wonderstruck, þar sem eitt helsta ungstirni heyrnarlausra leikara, Millicent Simmonds (heyrnarlausa dóttirin í A Quiet Place) lék eitt aðalhutverkið, eða öllu heldur deildi því með Julianne Moore, sem lék eldri útgáfu persónunnar. Eitthvað sem áðurnefndur Raci var lítt sáttur við – nefndi leik Moore sem eitt af alltof mörgum dæmum um heyrandi leikara sem gjörsamlega misskilja hvernig túlka eigi heyrnarlaust fólk. Mynd sem hann talar um að sé alltof oft hlutverk hins heilaga – en hann fagnar því mjög að fá loksins mynd um heyrnalaust fólk sem er gallað og reitt og brjálað og óþolandi, rétt eins og annað fólk. Eitthvað sem Marvel-menn virðast ætla að passa sig á, en Ridloff mun einmitt leika fyrstu heyrnalausu ofurhetjuna á þeirra vegum í Eternals einhvern timann í nálægri framtíð.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson